Hafnarfjarðarkaupstaður fagnar 110 ára afmæli 1. júní og því verður fagnað með ýmsum hætti í hjarta Hafnarfjarðar.

Föstudaginn 1. júní kl. 16 verður tilkynnt um úrslit í opinni hugmyndasamkeppni Hafnarfjarðarbæjar, Hafnarfjarðarhafnar og Arkitektafélags Íslands um framtíðarskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis. Sýning á öllum tillögum sem bárust í samkeppninni verður í „Apótekinu“ í Hafnarborg og stendur til 8. júní 2018. Sýningin er opin daglega frá kl.12-17 (lokað þriðjudag).

Fimmtudaginn 7. júní verður sýningin opin til kl. 21, en þann dag verður efnt til opins fundar kl. 16 þar sem dómnefndarfulltrúar fara um sýninguna og gera grein fyrir niðurstöðum sínum.

Föstudaginn 1. júní kl. 17 opnar Byggðasafn Hafnarfjarðar nýja sýningu í forsal Pakkhússins sem ber nafnið „Þannig byggðist bærinn“ þar sem varpað er ljósi á uppbyggingu, þróun og skipulag Hafnarfjarðar á fyrstu árum kaupstaðarins. Þá hefur Byggðasafn Hafnarfjarðar sett upp ljósmyndasýninguna „Hafnarfjörður frá fullveldi til lýðveldis“ á strandstígnum meðfram höfninni. Á sýningunni eru 50 ljósmyndir sem eru lýsandi fyrir bæjarbraginn og lífið í bænum á þeim tíma.

Laugardaginn 2. júní kl. 15 verður opnuð sýning í tilefni þess að Hafnarborg á tvöfalt afmæli, en nú eru liðin 35 ár frá því að hjónin í Hafnarfjarðar Apóteki, Sverrir Magnússon og Ingibjörg Sigurjónsdóttir, færðu Hafnarfjarðarbæ húsnæði sitt að Strandgötu 34 að gjöf, ásamt listaverkasafni sínu. Fimm árum síðar var Hafnarborg formlega vígð þann 21. maí 1988.
Á sýningunni getur að líta valin verk úr safneign Hafnarborgar. Bæði verk sem oft hafa verið sýnd áður við ólík tækifæri eða fengið að prýða veggi margra stofnana bæjarins. Á sýningunni eru þó einnig verk sem ekki hafa verið hreyfð úr geymslunum síðan þeim var komið þar fyrir. Er þessari sýningu ætlað að endurspegla margbreytileika myndlistarinnar varðveitt er í Hafnarborg.

Þá verður blásið til hátíðarhalda við Flensborgarhöfn á sjómannadaginn 3. júní. Við höfnina er nú bæði iðandi líf tengt fiski og fiskvinnslu en einnig fjölbreytt lista- og menningarlíf sem verður gert hátt undir höfði á sunnudaginn. Hátíðarsvæðið við höfnina opnar kl. 13 og hátíðarhöldin standa til kl. 17. Björgunarsveit Hafnarfjarðar býður meðal annars upp á þrautabraut í sjó, rennibraut, gámasig og  fluglínutæki, kaffisala slysavarnardeildar Hraunprýði verður á sínum stað, Siglingaklúbburinn Þytur verður með opið hús og skemmtisigling í boði Hafnarfjarðarhafnar. Fram koma Bjartmar Guðlaugsson, Salka Sól og leikhópurinn Lotta flytur söngsyrpu. Vinnustofur listamanna í Íshúsi Hafnarfjarðar og við Fornubúðir verða opnar og furðuverur undirdjúpanna til sýnis á bryggjunni.

Sjómannadagurinn
Hátíðarhöld við Flensborgarhöfn sunnudaginn 3. júní
* 3.6.2018, 13:00 – 17:00
Fjölbreytt dagskrá við Flensborgarhöfn á Sjómannadaginn sunnudaginn 3. júní kl. 13:00-17:00
Björgunarsveit Hafnarfjarðar
* Þrautabraut í sjó, rennibraut, gámasig, kassaklifur, fluglínutæki, koddaslagur og björgunarsýning
* Kaffisala Slysavarnardeildar Hraunprýði
Siglingaklúbburinn Þytur
* Opið hús
* Árabátar, kajakar og skútusiglingar á kænum og kjölbátum
* Uppsettar skútur í verkstæðissal
* Búningsaðstaða fyrir þá sem blotna
Önnur dagskrá
* Furðuverur úr undirdjúpunum frá Hafrannsóknarstofnun
* Bátasmíði fyrir krakka við Íshús Hafnarfjarðar
* Ljósmyndasýning á Strandstígnum. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur sett upp ljósmyndasýninguna „Hafnarfjörður frá fullveldi til lýðveldis“. Á sýningunni er 50 ljósmyndir sem eru lýsandi fyrir bæjarbraginn og lífið í bænum á þeim tíma.
* Pakkhúsið, Vesturgata 6, opið 11:00 – 17:00. Þar er meðal annars sýningin „Þannig var…“ þar sem saga sjávarþorpsins Hafnarfjarðar er rakin frá landnámi til okkar daga.
* Bookless bungalow, Vesturgata 32, opið 11:00 – 17:00. Sýning um tímabil erlendu útgerðanna í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar á heimili þeirra Booklessbræðra.
* Siggubær, Kirkjuvegur 10, opið 11:00 – 17:00. Bærinn er varðveittur sem sýnishorn af heimili sjómanna í Hafnarfirði frá fyrri hluta 20. aldar, þar sem hægt er að upplifa og kynnast því hvernig alþýðufólk í bænum bjó á þeim tíma.
* Sýning á tillögum í opinni hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis í Hafnarborg alla Sjómannadagshelgina, opið 12:00-17:00.
Opnar vinnustofur listamanna
* Opið hús hjá Málaranum við höfnina, vinnustofu Soffíu Sæmundsdóttur myndlistarkonu að Fornubúðum 8
* Opið hús í Gáru, vinnustofu átta leirlistakvenna Fornubúðum 8
* Opið hús hjá Aðalheiði Skarphéðinsdóttur Fornubúðum 8
* Opið í SIGN þar sem fallegir skartgripir eru hannaðir og smíðaðir Fornubúðum 12
* Íshús Hafnarfjarðar – opið hús. Starfsemi Íshúss Hafnarfjarðar samanstendur af 30 verkstæðum og vinnustofum einyrkja og minni fyrirtækja í skapandi greinum. Flóran er afar fjölbreytt, meðal annars er í húsinu stunduð hnífasmíði, keramik hönnun, myndlist, vöru- og textílhönnun og trésmíði.
Kænan
* Hlaðborð og sjávarréttarsúpa

SJÓMANNADAGURINN
Hátíðardagskrá
* Kl. 8:00 Fánar dregnir að húni á hátíðarsvæði við höfnina
* Kl. 10:00 Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur við Hrafnistu
* Kl. 10:30 Blómsveigur lagður að minnisvarða við Víðistaðakirkju um horfna sjómenn
* Kl. 11:00 Sjómannamessa í Fríkirkjunni
Skemmtidagskrá
* Kl. 13-17 Skemmtisigling í boði Hafnarfjarðarhafnar – lagt af stað á hálftíma fresti
* Kl. 13:00 Dasbandið
* Kl. 13-14 Kappróður við Flensborgarhöfnina
* Kl. 13:50 Lúðrasveit Hafnarfjarðar
* Kl. 14:00 Setning, heiðrun sjómanna, ávarp og verðlaunaafhending
* Kl. 14:30 Bjartmar Guðlaugsson
* Kl. 14:50 Leikhópurinn Lotta með söngvasyrpu
* Kl. 15:30 Salka Sól
* Þyrla Landhelgisgæslunnar og listflug