Örvar Þór Guðmundsson hlaut langflest atkvæði í kjöri lesenda Fjarðarpóstsins á Hafnfirðingi ársins 2017. Þessi hógværi og rótgróni Hafnfirðingur starfar sem viðskiptastjóri hjá Prentmet og hefur starfað þar í 23 ár. Örvar Þór vill meina að hann sé frekar latur en það var símtal sem hann heyrði á útvarpsstöð sem kveikti hjá honum neista í að láta eitthvað gott af sér leiða. Eitt leiddi af öðru og samtökin Samferða, sem hann stofnaði ásamt fleirum, styrktu 48 fjölskyldur fyrir síðustu jól og styrkja allt að 6 slíkar í hverjum mánuði.

Frá dæmigerðum stjórnarfundi Samferða. Sigurlaug, Örvar Þór og Rútur.  Mynd: Samferða. 

„Þegar fólk fær símtal frá okkur, nýbúið að kíkja á það litla sem það á í ísskápnum og 1300 kall inni á heimabankanum, þá er eins og að allar heimsins áhyggjur hverfi af herðum þess um stund,“ segir Örvar Þór og að mikilvægt sé að fólk haldi reisn sinni. „Það á ekki að þurfa að standa í biðröð að bíða eftir mjólk eða útrunnu lambalæri. Þetta er algjörlega á milli okkar og þeirra sem við styrkjum og viðkomandi ræður hvað hann gerir við peninginn sem við leggjum inn á reikninginn. Það er ótrúlega mikið um safnanir þar sem styrkir renna ekki beint til þeirra sem þurfa á að halda. 1000 kallinn sem eldri borgari styrkir einhver samtök um fer kannski bara í kaup á yddara fyrir skrifstofu. Styrkir sem berast okkur fara óskiptir til þeirra sem þurfa.“

Örvar Þór og Sigurlaug. Mynd: Samferða. 

Konan átti meira skilið

Örvar Þór segir að þakklæti konunnar í símtalinu á útvarpsstöðinni, sem hafi unnið eitthvað smáræði í leik fyrir jólin 2012, hafi hreyft mikið við honum. „Mér fannst hún eiga miklu meira skilið miðað við stöðuna sem hún var í. Með hjálp Facebook fékk ég á þriðja tug vina minna til að millifæra til konunnar töluvert hærri fjárhæð. Ári síðar hvöttu vinir mínir mig til til að gera eitthvað svipað því tilfinningin að hjálpa hafi verið svo góð. Ég hélt að ég yrði nú ekki alveg rétti maðurinn í það, verandi pínu latur að eðlisfari, en sló samt til og þá söfnuðust 1,7 milljónir og ári síðar 3,4 milljónir.“ Eftir það ætlaði Örvar Þór bara að hætta þessu en sagði engum frá því. „Þá kom Rútur Snorrason til mín og var búinn að vinna einhverja hvílíka heimavinnu í margra blaðsíðna wordskjali við að undirbúa stofnun samtakanna Samferða haustið 2016. Ég hvatti hann til að hafa þetta aðeins einfaldara og svo var ekki aftur snúið.“

Stór hluti stjórnar Samferða ásamt fulltrúum Stöðvar 2 eftir viðtal. 

30 til 200 þúsund hver styrkur

Stjórn Samferða skipa, auk Örvars, Rútur Snorrason, Sigurlaug Ragnarsdóttir, Hermann Hreiðarsson og Brynja Guðmundsdóttir og þau hittast mánaðarlega á fundi og leggja línur. „Hvert og eitt í stjórninni gerir það sem hann/hún er best/ur í og við erum öll jafn mikilvæg. Ef þetta væri íþróttalið þá færi samt fyrirliðabandið á Rút. Hann er rosalega kraftmikill og hefur t.a.m. alveg haldið utan um styrktartónleikana okkar.“ Þá er séra Vigfús Bjarni Albertsson verndari samtakanna og Ragnheiður Davíðsdóttir hjá Krafti, fulltrúar frá Krabbameinsfélagi Íslands og Erna Magnúsdóttir hjá Ljósinu koma með ábendingar. „Einnig fáum við bæði ábendingar utan frá og einn og einn hefur beint samband vegna eigin stöðu. Þetta fer allt fram í gegnum tölvupóst og er í föstum skorðum hjá okkur. Mottóið okkar að styrkja fólk um það sem þarf hverju sinni og aðeins rúmlega það. Styrkirnir eru frá 30 upp í 200 þúsund.“

kastljósi Örvar Þór Guðmundsson

Posted by Tryggvi Rúnarsson on 17. desember 2014

Viðtal við Örvar Þór í Kastljósi 2014. 

„Rosalegar tilfinningar í þessu“

Í miðju viðtali leyfir Örvar blaðamanni að horfa á fimm mínútna upptöku af dæmigerðri stund hjá stjórn Samferða þar sem hringt er og tilkynnt um styrk. Upptökuna fær enginn annar að sjá, enda bara til að sýna hvernig þetta gengur fyrir sig. Viðtakandi styrksins grætur í símann af gleði og blaðamaður fær kökk í hálsinn. „Þegar við hringjum til að tilkynna um styrki í byrjun mánaðar þá á fólk undantekningalaust undir 20 þúsund krónum eftir til ráðstöfunar út mánuðinn. 18 ára dóttir sendi verulega fallega beiðni um styrk fyrir móður sína sem var að glíma við krabbamein. Við vorum búin að ákveða að styrkja hana um 100 þúsund. Mamman hafði ekki hugmynd um hvaða hópur við værum og það tók hana sex mínútur að gefa okkur upp bankaupplýsingarnar sínar, hún grét svo mikið. Það eru rosalegar tilfinningar í þessu og einmitt tilfinningin að geta hjálpað er einstök. Við skiptum líka með okkur verkum. Við erum svo bældir og vitlausir karlarnir að konurnar sjá um að hringja,“ segir Örvar Þór í gamansömum undirtóni. „Við vorum öll í íþróttum áður en við byrjuðum í þessu og þetta er okkar rækt núna. Við hlökkum alltaf til mánaðarlega fundarins.“

Brynja og Rútur. Mynd: Samferða. 

Allt að sex fjölskyldur á mánuði

Samferða hafa styrkt um 200 fjölskyldur frá upphafi og munu standa að styrktartónleikum á nokkrum stöðum á landinu á árinu, auk golfmóts. „Það má ekki vera kostnaður við þetta og það er ótrúlega auðvelt að fá styrki frá fyrirtækjum vegna þess að peningarnir renna óskiptir til fólks. Við viljum þakka þeim kærlega fyrir. Helgi í Góu og KFC fer það fremstur í flokki,“ segir Örvar Þór. Aðspurður bætir hann við að hann hafi lært helling af þessari vinnu. „Meðal annars það að venjulegt millistéttarfólk er mjög víða komið í mikil fjárhagsvandræði t.d. bara við það að missa heilsuna, tímabundið eða fyrir lífstíð. Á móti er fullt af fólki sem á aukapening og þá helst í desember og er alveg til í að gefa. En svo er yfirleitt minna pælt í styrkjum aðra mánuði ársins þótt margt fólk sé í vandræðum allt árið. Þegar stjórnin hittist mánaðarlega er hringt í allt að sex fjölskyldur, þótt hæstu og flestu styrkirnir séu veittir í desember. “

 

Örvar Þór ásamt fjölskyldu sinni. F.v. Daníel Darri, Matthías Máni, Harpa, Örvar Þór og Harpa Gústavsdóttir. Mynd: OBÞ.

Markmaður Hi-C mótsins 1987

Örvar Þór segir fólk almennt góðhjartað og duglegt að styrkja ýmis málefni. Með þessum styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum gátu Samferða hjálpað 48 fjölskyldum fyrir síðustu jól og það stefnir í að styrkirnir verði enn fleiri í ár. „Þetta er góð tilfinning. Maður metur líka betur heilsuna við að standa í þessu. Það skiptir mig ekki lengur máli hverjir stjórna á Alþingi eða hvaða lið vinnur í ensku deildinni, þótt ég sé alltaf sáttur þegar Liverpool tapar! Heilsan er það dýrmætasta sem hver og einn á.“ Spurður um tilfinninguna sem fylgir því að fá viðurkenninguna Hafnfirðingur ársins segir Örvar að lokum: „Ég var markmaður Hi-C mótsins árið 1987 á Skaganum og hélt að það væri ekki hægt að toppa það! En það gerðist 30 árum síðar.“

 Forsíðumynd: OBÞ