María Krista Hreiðarsdóttir, einn eigenda fyritækisins Systur&Makar, á það til að sogast inn í aðstæður sem hún lagði ekki upp með í upphafi. Eiginmaður hennar er með ofnæmi fyrir köttum en samt dvelja stundum sjö kettir á heimilinu í einu. María Krista er ekki beint týpan sem klappar köttum á heimilum fólks en henni þykir samt ógurlega vænt um alla ketti og hefur í tvö ár skotið skjólshúsi yfir villiketti og ketti úr slæmum aðstæðum sem fá svo fjölmargir vist á góðum heimilum eftir að hafa verið veitt n.k. áfallahjálp. 

villikettir_stella

Stella – mynd: Alda Ósk Valgeirsdóttir.svala_villikettir

Svala – mynd: Alda Ósk Valgeirsdóttir.

Villikettir eru víða í Hafnarfirði og María Krista tók eftir því á vorin að kettlingar komu skríðandi úr hrauninu umhverfis heimili hennar. „Mér fannst það mjög sætt fyrst. Svo sá ég að þetta var orðinn mikill fjöldi og vandamál. T.d. gaut ein læða þrisvar fyrir utan heimili mitt. Ég hafði samband við þær hjá Villikattafélaginu fyrir tvemur árum og með fjárstyrk frá þeim létum ég og nágranni minn gelda örugglega 30-40 ketti hjá Dýralæknastofu Reykjavíkur. Hver gelding kostar um 10 – 15 þúsund kall.“ Fljótlega eftir það fór hún að aðstoða félagið og var fengin í stjórn vegna aðstöðunnar sem hún er með. „Félagið vinnur að því að stemma stigu við þessari fjölgun villikatta og gerðum einmitt samning við Hafnarfjarðarbæ nýlega um að fá störf okkar viðurkennd.“

villikettir_þula

Þula – mynd: Alda Ósk Valgeirsdóttir.

Flestir 19 í einu   
Þetta verkefni Maríu Kristu hjá félaginu hefur mikið til þróast út í að halda úti nokkurs konar meðferðarstofnun fyrir ketti sem bjargað hefur verið úr óheilbrigðum og oft hræðilegum aðstæðum á heimilum, samhliða því að veiða og gelda villiketti. „Það eru um 200 kettir búnir að fara hér í gegn á um tveimur árum. Þegar verslunin mín flutti úr kofanum til Reykjavíkur var búin til aðstaða fyrir kettina. Flestir hafa þeir verið 19 í einu en ég reyni oftast að hafa ekki fleiri en tíu. Það tekur ótrúlegan tíma að sinna þeim og ég er svo heppin með að sjálfboðaliðar hafa boðist til að vera hér, fylgjast með, gefa þeim og þrífa eftir þá.“

villikettir_fjóli

Fjólmundur (Fjóli) – mynd: Alda Ósk Valgeirsdóttir

Eru með villingana

Eins og gefur að skilja er ástand kattanna oft erfitt og þeir þurfa áfallahjálp. „Þeir þurfa að læra að treysta fólki aftur og slaka á. Fá athygli og alúð. Árangurinn hefur verið órúlega mikill hjá köttum sem við héldum að væru bara vonlaus dæmi. Það er best að sýna þeim þolinmæði, vera sjálf róleg og ekkert að vesenast í þeim,“ segir María Krista og bætir við að alls ekki sé um að ræða venjulega heimilisketti. Slíkir kettir fari í Kattholt. „Við, og tímabundið aðsetur sem ber nafnið Hálsakot (í stað Vogakots), erum með villingana og leyfum þeim að ná áttum og jafna sig eftir geldingu og við skoðum mjög vel í umsóknarferli hvernig heimili vilja taka við þeim. Köttum hefur verið skilað því samvistin gekk ekki upp.“

fjóli_villikettir

Fjóli – mynd: Alda Ósk Valgeirsdóttir

Eitthvað yrði sagt um villihunda

Villikettir stofnuðu „snapp“ undir sama nafni sem María Krista segir að sé orðið ótrúlega vinsælt „Við byrjuðum á nokkrum kisusnöppum en það eru margir sem fylgjast með og þetta getur hjálpað við að koma þeim á góð heimili.“ Allir kettir sem koma til Maríu Kristu fá nafn og fólk sem fylgist með snappinu er duglegt að gefa mat og ýmislegt. „Markmið okkar hjá er að fækka kettlingum á mannúðlegan hátt. Þetta er líklega eina félagið á landinu sem vill í raun láta leggja sig niður. Það voru aldrei villikettir fluttir til landsins, þetta voru upphaflega gæludýr. Það yrði eitthvað sagt ef það væru villihundar úti um allt. Það hefur líka verið mjög gefandi að finna inni á milli örmerkta ketti sem hafa kannski verið týndir lengi og koma þeim heim til sín. Það kemur fyrir flestar konur á besta aldri að fá áhugamál og láta gott af sér leiða. Þetta er mitt góðgerðarstarf,“ segir María Krista að lokum.

 

Forsíðumynd/Olga Björt.