Hafnfirðingarnir Svala Ragnarsdóttir heimildaljósmyndari og Bryndís Björgvinsdóttir þjóðfræðingur hafa á undanförnum tveimur árum unnið að kortlagningu og skráningu á álfabyggðum, þar á meðal hér í Hafnarfirði. Þær lögðu áherslu á að skoða staði þar sem álfatrú hefur haft sýnileg áhrif á manngert umhverfi. Verkefnið hefur hlotið athygli erlendis og birtust m.a. myndir úr því á The Guardian. Bryndís skrifaði einnig grein í bók sem birtist í Englandi en aðrir höfundar voru m.a. Alan Moore sem er einn frægasti rithöfundur Breta og vinnur mikið í verkum sínum með yfirnáttúru. Fjarðarpósturinn skellti sér í skemmtilega og fræðandi álfagöngu með Bryndísi.

 

bb1„Við höfum safnað dæmum þar sem sólpallar eru byggðir í kringum álfasteina og einnig dæmum þar sem miðað er við áfabyggðir þegar ákveðið er hvar hús eru staðsett í lóðum. Við Merkurgötu má síðan finna stein sem hefur áhrif á hvernig vegurinn liggur niður götuna og þá má nefna að Hafnarfjarðarkirkja stendur við hliðina á dvergasteini sem fékk að standa óhaggaður við vegg kirkjunnar þegar hún var byggð 1914,“ segir Bryndís. Þá megi einnig finna áhugaverðar sögur af álfum eða álagablettum á Jófríðarstaðarholti, við Holtsgötu, Austurgötu, á lóð Sánkti Jósepsspítala og víðar um bæinn.

 

„Hafið þið séð álfa?“

„Flestir spyrja okkur hvort við sjáum álfa. En það að sjá álfa er alls ekki það sama og að rannsaka álfatrú eða sækja í þann brunn. Þrátt fyrir að við höfum hvorugar haft kynni af álfum þá teljum við okkur geta séð og sýnt öðrum hvernig álfatrúin og jafnvel önnur þjóðtrú hefur haft raunveruleg áhrif á manngert umhverfi og þar af leiðandi bæinn okkar og einnig hvernig við umgöngumst hann.“ Hver ljósmynd sem þær hafa tekið eru hvoru tveggja af álfabyggðum og mannabyggðum og sýna þær allar því einskonar stefnumót þessara heima.

merkurgata

Séð upp Merkurgötu. Þarna er álfahóll sem hefur fengið að standa óáreittur. (Mynd: Svala Ragnarsdóttir)

Ótamin náttúra í manngerðu umhverfi

„Samkvæmt þjóðtrúnni má ekki hagga við bústöðum álfa og heimkynni þeirra birtiast okkur því á ljósmyndunum sem ótamin náttúra mitt í manngerðu umhverfi með sínu skipulagi, steypu, hringtorgum, vegum, húsum, tækjum og tólum,“ segir Bryndís og bætir við að heimarnir tveir takist á um rýmið því það skemmtilega við álfa sé að þrátt fyrir að þeir lifi eins og í annarskonar vídd þá deili þeir engu að síður að hluta til heimkynnum sínum á meðal mannanna. „Eitt skemmtilegasta dæmið um þessi átök – eða samlifnað álfa og manna – má finna mitt í iðnaðarhverfinu í Ármúla í Reykjavík þar sem huldumannasteinn og smá flötur með villtri náttúru í kringum steininn má finna inni á miðju bílastæði.“

thodkirkjan_i_hafnarfirdi

Við Hafnarfjarðarkirkju, áður Þjóðkirkjan í Hafnarfirði.  (Mynd: Svala Ragnarsdóttir) 

Hringadróttinssaga og Hobbitinn

Þær Bryndís og Svala hafa einnig legið í þjóðsagnasöfnum og einnig safnað nýjum dæmum. Mest hefur komið þeim á óvart að nýjar sögur séu enn að verða til en á sama tíma hefur talsvert af gömlu sögunum horfið og fallið í gleymskunnar dá. „Álfatrúin breytist með tíð og tíma, rétt eins og við sem segjum sögurnar breytumst líka frá einni kynslóð til annarrar. Þannig endurspeglar þjóðtrúin samfélag hvers tíma. Í dag sér fólk til að mynda ljósálfa, svartálfa og garðálfa á meðan þær sagnir sem Jón Árnason safnaði á 19. öld lýsa álfum sem verum sem líkjast mönnum mjög, hávaxnari og glæsilegri, kannski ekki svo ólíkt álfum J. R. R. Tolkien eins og þeir birtast í kvikmyndunum Hringadróttinssögu og Hobbitanum. Þannig verður álfatrúin alþjóðlegri um leið og við verðum alþjóðlegri. En líkt á fyrri tímum þá minna álfar samtímans okkur enn á að huga að stóru myndinni og náttúrunni og hugsa ekki aðeins um skammtíma hagnað og okkar eigið skinn.“

armuli

Álfasteinn á miðju bílastæði við Fjölbrautaskólann í Ármúla. (Mynd: Svala Ragnarsdóttir).

Svala Ragnarsdóttir er búsett í Englandi en mun dvelja á landinu í byrjun júní en þá fer hún ásamt Bryndísi í hringferð um landið til að skrásetja fleiri staði. Þeir sem búa í Hafnarfirði og kunna að búa yfir sögum um álfa sem hafa haft áhrif á manngert umhverfi geta sent þeim stöllum ábendingar á tölvupóstfangið: bryndisbj@lhi.is.