Á fyrri hluta síðustu aldar var hápunktur jólanna ilmurinn af rauðum, nýpússuðum eplum. Algengt var að þá fengju börn bara árlega nýjan fatnað fyrir eða um jól, svo að þau færu ekki í jólaköttinn. Systkini fengu jafnvel saman eina bók í jólagjöf og lím var búið til úr mauksoðnum hafragraut. Fjarðarpósturinn kíkti við hjá fjórum íbúum Hrafnistu í Hafnarfirði og spurði þau um jólin í gamla daga. 

Skúlína með eitt af mörgu jóla-handverki sem hún hefur gert í tímans rás og gefið í gjafir.

Skúlína Sigurveig Stefánsdóttir,  f. 1931.

„Fyrsta minning af jólum var þegar ég var þriggja ára og datt niður stiga. Ég grét svo sárt þótt ég hafi ekki slasast neitt. Ég var elst af sex systkinum og fjölskyldan bjó í stóru húsi á tveimur hæðum, með mörgum herbergjum. Það var mikið umstang við að þrífa allt hátt og lágt fram að jólum. Svo voru allir búnir að baða sig á Þorláksmessukvöld eða aðfangadagsmorgun og allir fengu ný og hrein föt. Það var alltaf kafsjór í sveitinni þar sem ég bjó, annað en í dag. Sveitungar hjálpuðust að við að komast til og frá með sleða sem hestar drógu. Jólatréð var smíðað úr spýtum og við hengdum krækiberjalyng á og náttúruverndarsinninn pabbi passaði að við tækjum ekki of mikið af hverju lyngi. Svokölluð Hreinskerti, snúin marglit kerti, voru svo klemmd á hverja grein. Lím sem notað var til jólaskreytingar var búið til úr hafragraut sem var soðinn aftur og aftur og síaður þar til hann var orðinn nógu klístraður. Í matinn var svo steikt lambalæri og allir fengu smá jólagjafir. Ég man eftir því að hafa fengið bók í gjöf með bróður mínum, Þrír kátir kettlingar, og ég las hana fyrir yngri bræður mína.“

 

Bergljót var búin að koma sér makindalega fyrir í stólnum sínum eftir að hafa, í fyrsta sinn, verið ‘bara’ áhorfandi í árlegu sérrísundi. Hún var meira en til í að setja upp jólahúfu fyrir myndatöku.

Bergljót Sveinsdóttir, f. 1935.

„Jólatréð var skreytt á Þorláksmessu og svo fórum við með pabba niður í bæ í Reykjavík og keyptum jólagjöf handa mömmu. Ég man eftir ofsalega fallegum náttkjól sem við keyptum eitt sinn handa henni. Langyngst, á þrjá eldri bræður, var eins og prinsessa. Borðuðum hangikjöt á jóladag um tíuleytið að kvöldi til af því að pabbi var prestur sem fór á fjóra staði til að messa. Jólatréð var alltaf ekta og með olíu-jólaseríum. Mér fannst bananar ekki góðir þegar ég smakkaði þá fyrst, því ég beit í hýðið. Og lyktin af jólaeplalyktinni sem vantar í eplin í dag. Kærasta jólaminningin þegar dansað var í kringum jólatréð eftir að gengið hafði verið frá eftir matinn og allt komið á sinn stað. Síðan voru gjafirnar opnaðar. Man eftir dúkku sem keypt var í Englandi og hún sagði ‘mommy’ og ‘daddy’ eftir því hvernig maður sneri henni. Og hún gat opnað og lokað augunum.

 

(Jóla-)Sveinn átti 91 árs afmæli daginn áður en blaðamaður kom í heimsókn. Hann lék á als oddi og var stoltur af því að vera frá hinni fögru Barðaströnd, þótt hann viðurkenni að búa í afar fallegum bæ í dag.

Sveinn Þórðarson, fæddur 1927.

„Ég hlakkaði til jólanna eins og aðrir sem barn, meira að segja líka til þess að fá jólagjafirnar. Það var allaf reynt að klára allt fyrir klukkan sex og fórum öll í einhver ný föt. Vorum níu systkini fædd á 11 árum, ég yngstur. Nóg að gera hjá mömmu. Svo bar borðað kindakjöt klukkan sex og grautur á eftir. Ég man eftir að jólagjafirnar voru helst ný flík, buxur, nærbuxur eða skyrta. Við hlustuðum á jólamessu í útvarpinu eftir að það kom 1930, á séra Bjarna Jónsson. Minn uppáhalds jólasálmur er Son guðs ertu með sanni. Jólin liðu í rólegheitum og ljós voru látin loga alla jólanóttina á olíulömpun. Jólatrén voru heimatilbúin og puntuð með litlum hrukkóttum kertum, eitt fyrir hvert barn. Engir jólasveinar voru byrjaðir þegar ég var lítill en það var bakaður hellingur af kökum. Ég lék mér með skeljar þar til ég fermdist og var alls þrjá vetur í skóla. Nú vilja krakkar ráða hvað þau fá í jólagjöf og fá mikið og það finnst mér ekki spennandi þróun. Við hjónin gefum ennþá öllum börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum gjafir.“

 

Theodóra minntist á hvað hún er stolt af afkomendum sínum og þakklát fyrir hvað þeir eru duglegir að heimsækja hana. Henni líður afar vel á Hrafnistu og segir svo margt gert fyrir íbúa þar.

Theodóra Á. Smith, fædd 1927.

„Foreldrar mínir voru í góðum efnum, buggum á 2. hæð við Laugaveg 144 í Reykjavík, hús sem pabbi byggði. Húsið var frekar stórt og á aðfangadag var lokað inn í stofu; þangað mátti enginn fara fyrr en jólin voru byrjuð. Þar var sett upp gamaldags jólatré, upp á eldhússtól og kveikt á ljósunum á trénu. Ég man að mamma hreinsaði og pússaði rauðu eplin þannig að þau glönsuðu. Pabbi fór á skytterí og veiddi rjúpur í jólamatinn. Ég man að ég fékk í jólagjöf eitt árið dúkkuvagn með dúkku í. Amma mín varð ung ekkja og bjó alla tíð með okkur. Uppáhalds jólasálmurinn minn er Heims um ból.“

Myndir/OBÞ