Guðrún Björg Steingrímsdóttir, húsfreyja, hefur búið í firðinum fagra í meira en hálfa öld og er ein þeirra sem byrjar snemma að huga að skreytingum fyrir jólin. Guðrún er mikið jólabarn og byrjar að útbúa skreytingar fyrir jólin um mánaðamótin október-nóvember.

„Svo byrja ég yfirleitt að skreyta í byrjun nóvember. Ég og eiginmaður minn, Ármann Ásgeir Hallbertsson, erum í sirka mánuð að dúlla okkur við að setja upp jólaljós og jólaskraut. Ég er eiginlega hætt að kaupa mér jólaskraut enda á ég 49 kassa af jólaskrauti og jólaljósum. Ég kaupi jólaskraut þar sem ég sé eitthvað fallegt,“ segir Guðrún og bætir við að hún kaupi lítið af jólaskrauti núorðið.

34 jólaóróar

Jólaskrautið sem Guðrúnu þykir vænst um fékk hún að gjöf frá syni sínum fyrir meira en fjörutíu árum. „Hann Steini minn gaf mér aðventukrans þegar hann var lítill. Hann vorkenndi mömmu sinni svo mikið að eiga ekki krans,“ segir Guðrún og brosir að endurminningunni. Þá á Guðrún alla jólaóróana frá Georg Jensen en samtals eru þeir 34. Og venju samkvæmt eru allir jólaóróarnir settir upp fyrir hver jól.

Fallega jólaþorpið í einu herbergjanna. Yngstu afkomendur stara á en snerta ekki. 

Texti: Ágústa Arna. Myndir: Olga Björt.