Á meðan verið er að byggja Skarðshlíðarskóla er starfsemi hans í bráðabirgðahúsnæði við Kirkjuvelli. Í sama húsnæði er Ástjarnarkirkja og allt starf sem henni fylgir. Sambúðin hefur gengið að óskum og rúmlega það, því áhrif góðs samgangs á milli þess sem fram fer í húsnæðinu hefur gefið af sér fallegt samstarf. Eldri borgarar, tvenn hjón, koma vikulega og hlusta á yngstu nemendur lesa.

Rannveig og Ingibjörg inni á skrifstofu skólastjórnenda. 

Stemningin þegar Fjarðarpósturinn leit við í húsnæðinu á aðventunni var eins og í fámennum skóla úti á landi. Alla ganga einhvern veginn í allt og hlutirnir látnir ganga upp. „Þetta er lítið húsnæði og við erum ekki búin að ráða í öll störf. Ritarinn er líka bókasafnsfræðingurinn okkar, skólahjúkkan og hjálpar til við matinn. Það er virkilega gott starfsfólk hérna og það þarf ekki að biðja neinn um neitt. Ef það vantar fólk þá hjálpast allir að,“ segir skólastjórinn Ingibjörg Magnúsdóttir og Rannveig Hafberg aðstoðarskólastjóri tekur undir það. „Það er líka okkar stefna að halda öllum jákvæðum og að það sé gaman að mæta í vinnuna og börnunum finnist gaman að mæta í skólann. Yfirgildið okkar er gleði,“ segir Ingibjörg.

Hrafn Helgason býr sig undir að hlusta á lestur.

 

Vannýttur mannauður

Spurð um hvernig samstarf við eldri borgara kom til segir Ingibjörg að vegna þess að þau deila sama húsnæði kom hún að máli við séra Kjartan Jónsson og bar undir hann hvort eldri borgarar hefðu áhuga á að koma á einhvern hátt inn í skólastarfið. „Það var rosalega vel tekið í það strax. Þetta er sjálfboðastarf í samráði við þau sem koma og á þeim tíma sem hentar þeim best. Þau hitta líka alltaf sömu krakkana. Þetta er fólk sem hefur þolinmæði, reynslu og tíma og er tilbúið að spjalla. Þetta eru yndisleg hjón, við erum alsæl með þau. Við erum að vonast að til að með tengslunum verði þau tilbúin að koma með okkur í nýja húsnæðið. Þetta er sannarlega vannýttur mannauður og hjónin geta farið saman í vinnuna, eina klukkustund í viku.“

Sigríður Helga Ólafsdóttir hlustar á ungar snótir. 

 

„Þau eru svo ljúf og góð“

Hjónin Sigríður Helga Ólafsdóttir og Hrafn Helgason koma á mánudögum kl. 10 og þau segja að börnin taki þeim vel. „Þau eru svo ljúf og góð. Enginn segir nei við mig þegar þau eru kölluð upp. Það á líka að taka hverju og einu þeirra eins og þau eru,“ segir Sigríður og Helgi tekur undir það: „Þetta hefur gefið okkur heilmikið. Ég er löngu hættur að vinna og þetta er góð leið til að verja deginum og stytta stundirnar. Þegar séra Kjartan og spurði hvort einhver úr starfi eldri borgara væru til í þetta vorum við hjónin vorum fljót að slá til. Sérstaklega þegar krakkarnir taka manni svona vel.“ Sigríður og Hrafn segja skólastarfið töluvert breytt frá því sem það var þegar þau voru börn. „Við sátum bara kyrr í okkar sætum í sömu stofu. Kennslan er allt öðruvísi og breytileg. Við vorum með Gagn og gaman, sem reyndar er enn verið að gefa út,“ Segir Sigríður. „Orð sem börn læra núna eru langt frá því að vera í skólabókum í gamla daga. Þau eru erfiðari og alþjóðlegri núna,“ bætir Hrafn við.

Blaðamaður fékk að trufla Helgu Karlsdóttur og einn duglegu nemendanna. 

Börnin koma hlaupandi

Helga Karlsdóttir og Arnbjörn Jónsson koma á miðvikudagsmorgnum til að hlusta á lestur. „ Þegar við erum að koma hérna inn úr kuldanum þá koma börnin hlaupandi og kalla amma og afi. Maður finnur að maður er að gera eitthvað gagn og láta gott af sér leiða. Þetta litla fólk er skemmtilegast,“ segir Helga og eiginmaður hennar Arnbjörn tekur undir það: „Þetta gefur mér ómælda ánægju. Þetta er alveg óskaplega gaman og maður finnur að þetta gerir börnunum. Þau taka líka svo vel eftir , hlakka til að lesa fyrir okkur og faðma mann þegar maður kemur inn.“ Á ég að koma til afa gamla núna? – kallaði svo einn snáðinn undir lok viðtalsins og þeir hlógu báðir dátt.

Forsíðumyndartexti: Arnbirni líður vel með að geta orðið að liði. 

Myndir: OBÞ