Sumarið er komið í Hafnarfirði, hátíðin Bjartir dagar nýafstaðin með frábærri þátttöku í glæsilegum viðburðum. Sungið var í Heima-húsum og hoppað með (íþrótta)álfum í Hellisgerði og skapandi fólk lét ljós sitt skína um víðan völl.

Ársreikningur bæjarins fyrir 2017 er kannski ekki eins spennandi viðburður, en hann er þó hluti af stærri vorkomu, sem lengi hafði verið beðið eftir.

Árangurinn sem ársreikningurinn birtir kom ekki af sjálfu sér. Hann er árangur þrotlausrar vinnu Haraldar Líndar Haraldssonar bæjarstjóra og alls hins starfsfólksins hjá stofnunum bæjarins. Erfiðasti hjallinn var árið 2015, þegar endi var bundinn á áralanga skuldasöfnun. Á mannamáli má segja að þá hafi bærinn lagt kreditkortinu, hætt að greiða skuldir með nýjum lánum og farið að saxa á þær með peningum úr rekstrinum. Það tók á, en nú uppskerum við ríkulega og gerum áfram ef ef rétt er haldið á spöðunum.

Það munar um minna

Fjármagnsliðir lækka um 580 milljónir vegna lægri verðbóta og niðurgreiðslu skulda. Þetta skiptir máli. Í stað þess að þessir fjármunir fari til lánastofnana í nýtast þeir í þjónustu við bæjarbúa. Þetta má þakka markvissum rekstri, ekki tilviljunum eða bara hagfelldum ytri aðstæðum eins og sá hluti bæjarstjórnar sem setið hefur hjá í flestum ef ekki öllum ákvörðunum um fjármál bæjarins síðustu fjögur ár er gjarn á að fullyrða.

Með vorinu koma kosningar. Ég býð mig fram til að fylgja eftir þessari markvissu vinnu ásamt öflugu fólki í nýju framboði, Bæjarlistanum, sem vill vinna að því að gera góðan bæ enn betri.

Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, Bæjarlistanum Hafnarfirði.