Rétt um það leyti sem ég var hættur að kúka í kopp var mér skóflað upp í stórglæsilegan Mini og mér og bróður ekið upp í Norðurbæ (ég er ekki alveg viss um að svæðið verskuldi stóran staf samkvæmt ströngustu málfræðireglum en í mínum huga er þetta sérnafn). Þar tók við síðhippaútlítandi foreldrum mínum og ormunum þeirra tveimur blokk sem þá hét „Græna blokkin“.  Blokkarhringurinn var ungt hverfi rétt eins og Vellirnir eru núna og innihélt að mestu barnafólk sem var að hefja búskap. Það gerði það að verkum að mér telst til að eingöngu í mínum stigagangi hafi verið ellefu börn á leikhæfum aldri. Í raun var það svo að hver stigagangur var sér kommúna en svo stóðu stigagangar hverrar blokkar saman ef kom að stríði við hinar blokkirnar. Útidyrnar voru aldrei læstar og stigaganginn áttum við. Þar söfnuðumst við saman eftir skóla og stormuðum milli íbúða eftir því sem okkur þótti henta hverju sinni. Lætin og fyrirgangurinn í okkur var líkast til ekki lítill og eflaust má þakka það almennri geðprýði og langlundargeði annarra íbúa að okkur hafi ekki verið smalað saman í poka og drekkt í bæjarlæknum eins og óvelkomnum kettlingum.

Í þá daga þótti það lúxus að eiga bíl og leitun var að tveggja bíla fjölskyldu, því var miðja blokkahringsins grænt svæði sem við ungarnir fengum að tæta í okkur á BMX-hjólunum sem þóttu skyldueign á þessum árum. Þessi sömu hjól voru svo notuð til að stökkva fram af bílskúrsþökum í áhættuatriðum sem fengju Hollívúdd til að skammast sín. Enginn notaði hjálma í þá daga en þar sem við höfðum aldrei heyrt orðið heilaskaði þá slepptum við því bara að ná okkur í einn slíkan.

Öllum var okkur svo mokað samviskusamlega í Engidalsskóla sem var svosem fínt. En þegar vindur blés að austan þá rann ilmurinn úr Mónu og Drift beint upp í nasirnar á fjársveltum ræflum sem mundu enn þá lyktina af góðgætinu þegar þeir hundsvekktir tuggðu ostabrauðið sitt.