Við Kirkjuveg 5 stendur afar fallegt hvítt hús, byggt 1922, sem áður var læknisbústaður. Þar búa hjónin Eiríksína Kristbjörg Ásgrímsdóttir, lista- og fræðikona og Jónas Jónasson framkvæmdastjóri. Amma og afi Jónasar byggðu húsið. Þegar inn er komið má sjá litríka veggi, mublur og listaverk um alla íbúð. Eiríksína lýsir því hversu tímafrekt hefur verið fyrir hana að heita nafninu sínu, sem hún þó er mjög stolt af og vill ekki heita annað. Enda var hún skírð yfir kistu ömmu sinnar og alnöfnu sem var þekktur kvenskörunugur á æskuslóðunum á Siglufirði. Amma hennar hafði mætt á fæðingarstofuna þegar Eiríksína var nýfædd og vitjað nafnsins.

„Amma var mikil og þekkt týpa og þegar ég var um átta ára aldur að sækja skó í viðgerð fékk ég að heyra að það yrði nú erfitt fyrir mig að fara í skóna hennar ömmu minnar. Þá byrjaði þetta nafnaævintýri, nema á annan hátt en síðar. Það var bara eins og að vera barnabarn Vigdísar Finnbogadóttur,“ segir Eíríksína glettnislega, en líf hennar átti eftir að hafa aðeins alvarlegri undirtón, því það hefur reynst erfitt fyrir hana að heita þessu sjaldgæfa nafni. „Það er dálítið eins og að ég þurfi að réttlæta nafnið mitt. Ég lendi í því að fólk verður alveg óðamála því það þarf að tjá sig um skrýtin nöfn þegar það veit mitt nafn. Þetta er því líka tímafrekt.“

„Þetta er name-ismi“

Eiríksína segir frá því að eitt sinn var hún stödd á heilsugæslu og þegar hún tilkynnti sig í móttökunni hafi tveir hjúkrunarfræðingar komið hlaupandi fram því þeir vildu sjá hvernig þessi Eiríksína liti út. „Það er ekkert óalgengt að fólk vilji vita hvernig ég lít út. Svo er ég mikið spurð að því hvort ég sé að vestan. Það er einhver mýta að fólk þaðan heiti sjaldgæfum nöfnum.“ Hún bætir við að þegar einhver segir að nafnið hennar sé skrýtið, þá svari hún bara til að það sé bara óalgengt. „Þetta heitir name-ismi, eða nafnismi, svipað og rasismi. Hann birtist í því að fólk á öllum aldri sýnir fordóma gagnvart óalgengum nöfnum. Eins og allir fordómar á nafnismi sér mörg birtingarform en þau helstu eru, hlátur, fliss, feimni, málstol, afbakanir og útúrsnúningar á nöfnum sem fólk hefur ekki heyrt áður. Ég hef ekkert endilega verið upptekin af þessu, heldur minnir samfélagið mig stöðugt á það. Á ég alltaf að þurfa að segja hvers vegna ég heiti nafninu mínu, hvort ég sé að vestan eða hvers vegna ég heiti karlanafni?“

Eiríksína ásamt Gabríelu Björg Gísladóttur barnabarni sínu.

Eiríksína ásamt Gabríelu Björg Gísladóttur barnabarni sínu.

Beðin um að breyta nafninu

Einmitt tengt þessu með karlanöfnin segir Eiríksína ófá skiptin þar sem fólk segi: Ég átti frænku sem hét Guðmundína/Jensína/Einarína, þekkir þú hana? „Það er eins og að konur sem heita nöfnum sem enda á -ína séu með eitthvað félag. Og að við heitum einhverjum karlanöfnum! Ég var eitt sinn stödd á fundi og stóð á tali við tvo menn sem hétu Unnar og Elvar. Annar þeirra sagði við mig: Það er ekki oft sem maður hittir konu sem heitir karlanafni! Þá svaraði ég: Það er ekki oft sem ég hitti tvo karla á sama tíma sem heita konunöfnum! Ég sá nánast punginn á þeim detta niður á gólf,“ segir Eiríksína og skellihlær. Á einum vinnustað sínum var Eiríksína beðin um að nota frekar gælunafn því nafn hennar birtist stundum opinberlega og stjórnendum fannst það óþægilegt.

Brandari í tvo daga

Eitt sinn var hún stödd erlendis með hópi Íslendinga og þarlend kona hafði séð nafnið ritað og vildi vita hver Eiríksína væri því henni fannst nafnið svo fallegt. „Í name-ismanum sínum gerðu Íslendingarnir í ferðinni grín að því vegna þess að þeim fannst svo einkennilegt að útlendingi gæti fundist nafnið fallegt. Það var alveg brandari í tvo daga!“ Þá hiki fólk gjarnan þegar það les upp nafnið og það hefur reynst mörgum kennurum Eiríksínu erfitt, en þess má geta að hún er með þrjár háskólagráður svo það eru nokkrir kennarar sem hafa lent í vandræðum. „Ég spáði reyndar í það að gefa mér það í fimmtugsafmælisgjöf að taka Kristbjörgu í burtu og setja gælunafnið Eyja í staðinn, en ég gerði það ekki.“

Eigindleg rannsókn í 57 ár

Einnig heldur fólk að það geti kallað Eiríksínu alls kyns gælunöfnum eins og Sína, Ríka eða Ei-ríka. „Ég þarf svo oft að hjálpa fólki við að koma sér út úr vandræðalegum augnablikum sem það lendir í með nafnið mitt og ég vinn mikið við orðræðugreiningu. Þess vegna hef ég tekið þetta saman. Þetta er þó svipað og í fötlunarfræðum, þótt það sé ekki það sama. Fatlaðir þurfa að réttlæta fötlun sína með því að heyra spurningar eins og Hvernig lentirðu í hjólastól? Með hvaða heilkenni er barnið þitt? Alltaf að svara einhverju, svo ég tali nú ekki um glápið.“ Það sé því lífsverkefni hennar og eigindleg rannsókn sem staðið hefur yfir undanfarin 57 ár, þó aðallega síðan hún flutti suður frá Siglufirði. Orðræðugreiningin er byggð á samskiptum við fólk sem sem hverfast um nafnið.

Rangt nafn á útskriftarskírteini

„Ég var með sýningu í Gallerí Gesti, sem er pínulítil gömul stáltaska, svona ferðagallerí. Ég átti að búa til listaverk og hafði skömmu áður farið á bifreiðaverkstæði. Maðurinn þar ávarpaði mig Eirímsínu. Því ákvað ég að gera listaverk úr nöfnunum mínum. Ártölin segja til um hvenær nöfnin voru sögð eða skrifuð.“ Sýningin hét: Að gangast við nafni. Þegar hún tók við úskriftarskírteini vegna meistaragráðu úr HÍ, stóð t.d. á því Eirkíksína. „Og einu sinni var ég á mynd í Mogganum og þar hét ég Eiríussína og kona hringdi frá góðgerðarsamtökum um daginn og hún kallaði mig Erilsínu. Ég grínaðist með að ég væri líklega svona erilsöm,“ segir Eiríksína og brosir.

Hvatakennd hreinskilni

„Ég þarf að gangast við öllum þessum nöfnum. Ég myndi ekki gera annað en að leiðrétta fólk en ég get bara ekki staðið í því. Það verður frétt við matarborðið hjá fólki þegar það hefur hitt mig. Svona skrýtin saga úr vinnunni.“ Oft sé þetta hvatakennt, eins og þegar drukkin kona í afmæli sagði einfaldlega við Eiríksínu að henni þætti nafnið ógeðslegt og hló síðan og afsakaði sig í hálfkæringi. Einnig hringdu fyrrum útvarpsmennirnir Simmi og Jói í hana snemma morguns, þegar hún var lasin, bara til að grínast með nafnið hennar eftir að hafa fengið ábendingu frá hlustanda um skrýtið nafn. „Ef ég fer út úr húsi, þá lendi ég stundum ekki í neinum uppákomum í heila viku. En stundum verða þær jafnvel þrjár. Íslensk nöfn skiptast í tískunöfn, skrýtin, ljót („ógeðsleg“ nöfn) og svo venjuleg nöfn,“ segir greinandinn Eiríksína.

Eins og þessi spjöld sýna, þá hefur Eiríksína verið köllum ýmsum nöfnum. Úr listaverki hennar „Að gangast við nafni“.

Eins og þessi spjöld sýna, þá hefur Eiríksína verið köllum ýmsum nöfnum. Úr listaverki hennar „Að gangast við nafni“.

Orðaplötur úr gömlum burðarbita

Hún er einnig sí-skapandi og segir mjög skapandi að greina, enda textílmenntuð og hefur gaman af að smíða og búa til hluti. Þau hjónin eru með heilmikla aðstöðu í kjallaranum þar sem hún fæst við sitt og Jónas hnýtir flugur og selur. „Einnig efnisles ég lokaritgerðir í háskólanum og skrif fyrir annað fólk. Fræðimennskan og listin, alltaf verið togstreita þarna á milli. Get ekki ákveðið mig en það er eins og að samfélagið búist við því að maður geri eitthvað eitt,“ segir Eiríksína, sem er einnig með vinnuaðstöðu í Höfnum á Reykjanesi. Plöturnar sem hún brenndi útgáfur af nöfnunum á eru einmitt úr burðarbita úr gamla frystihúsinu í Höfnum. „Þetta var langur biti sem ég sagaði niður. Svo keypti fólk stakar plötur úr verkinu.“

Samantekt á rangfærslum annarra

Á svipaðan hátt skildi Eiríksína 24 nafnaplötur eftir hér og þar þegar hún gekk Jakobsveginn fyrir tveimur árum. „Þannig heldur verkið áfram að lifa sjálfstæðu lífi. Ég skildi plöturnar eftir eins og í ævintýrinu um Hans og Grétu. Þetta eru orð sem ég hef fengið lánuð hjá öðru fólki. Þetta eru ekki nöfnin mín. Þetta er í raun sköpun annarra. Ég safna þeim saman og bý til listaverk. Samantekt mín á því sem aðrir sem hafa sagt eða skrifað rangt,“ segir Eiríksína, sem ætlar aftur að ganga Jakobsveginn í sumar, bara ekki sömu leið, og hlakkar mikið til.