Björn Pétursson bæjarminjavörður hefur starfað hjá Byggðasafni Hafnarfjarðar um árabil. Hann segir starfið afar skemmtilegt og fjölbreytt, enda heldur safnið úti níu sýningum í einu, víða um miðbæinn. Í forsal Pakkhússins er þemasýningin „Að glæða sálargáfurnar og auka þekkinguna“. Þar er ljósi varpað á forvitnilega sögu upphafs almenningsfræðslu í Hafnarfirði en í ár eru 140 ár frá stofnun fyrsta skólans í bænum.

Starfsfólk byggðasafnsins, þrjú á skrifstofunni auk safnvarða í hverju húsi, sér um alla minjavörslu í landi bæjarins, hvað varðar ljósmyndir og muni og einnig menningararfinn í bæjarlandinu, húsvernd og fornleifar. Þau heyra helst frá fólki sem vill gefa hluti þegar tekið er til í geymslum, á háaloftum eða dánarbúum. „Við þiggjum ekki allt sem okkur er boðið. Hver gripur er metinn út frá söfnunarstefnu, safneign, ástandi og sögu griparins. Á landsvísu eru orðið mjög agað hverju er tekið á móti. Núna eru öll minjasöfn á landinu komin með sameiginlegan skráningagrunn, sarpur.is. Þetta er nýr gagnagrunnur og ekki allt komið þarna inn,“ segir Björn.

byggðasafn

Allir fái tækifæri til að skoða

Frítt er inn á öll söfn Byggðasafnsins og Björn segir að þannig ætti það að alls staðar að vera. „Það er í safnalögum og fleiri lögum og reglugerðum að allir eigi að hafa jafnan aðgang að söfnum, óháð fjárhag og þjóðerni. Söfn sem eru ríkis- og sveitarfélagarekin eiga að vera þannig rekin. Þetta er af erlendri fyrirmynd. Safnið er eign bæjarins og rekin af honum en rekstrarstyrkur frá ríkinu nemur um 1% af rekstrarkostnaði.“

byggðasafn

Segja djúpa og merkilega sögu

Sýningarnar níu skiptast í þrjár sýningar í Pakkhúsinu, þar sem núna er ný þemasýning um skólahald frá fyrri tíð. Svo er Sívertsen húsið, elsta húsið í bænum (1803), með merkilega sögu Bjarna Sívertsen, „föður Hafnarfjarðar“, Siggubær við Kirkjuveg,  dæmigert alþýðuheimili frá upphafi 20. aldar. Þar á sömu lóð er lítill skúr þar sem við reknar eru álfasögur í bænum. Í Bungalow húsinu við Vesturötu 23 er sýning um erlendu útgerðina í Hafnarfirði í upphafi 20. aldar.

byggðasafn

Á efstu hæð Pakkhússins er að finna leikfangasýningu safnsins. Sýning þessi, sem hið margverðlaunaða enska sýningafyrirtæki Janvs Ltd hannaði, er sérstaklega ætluð börnum.

Beggubúð, í sama porti og Pakkhúsið, er verslunarminjasýning með m.a. fjölda leikfanga. Í Góðtemplarahúsinu er saga þess húss og góðtemplarareglunnar sögð, en það er elsta samkomuhús á landinu (1886) og hefur gegnt mörgum hlutverkum og var miðpunktur menningar í bænum. „Meðal annars voru þarna bæjarstjórnarfundir. Alveg sama hvernig bæjarstjórnir voru pólitískt skipaðar, það voru alltaf góðtemplarar í meirihluta,“ segir Björn og hlær. Svo er það ljósmyndasýning við Strandstíginn, frá Fjörukránni að Herjólfsgötu. „Þar skiptum við um myndir á hverju ári og það er nýbúið að skipta.“

byggðasafn

Nokkurs konar menntastofnun

Spurður um hlutfall Íslendinga og útlendinga sem koma í söfnin segir Björn að algengara sé að fá erlenda ferðamenn um helgar og á sumrin en á veturna séu íslenskir gestir fleiri. „Þá koma skólahóparnir á öllum skólastigum, frá leikskólum og upp í háskóla. Við höfum búið til verkefni fyrir skólahópa til að leysa samhliða sýningum. Fólk tengir þetta násmefninu, þarf að labba um og leita. Svo er alltaf jóladagskrá fyrir leikskóla í desember. Þá fáum við 15-20 í hópum á klukkutíma fresti í 10 daga.“ Frá framhaldsskólum koma nemendur í samfélagsfræði- og söguáföngum og í sagnfræði og fornleifafræði frá frá háskólum. „Þau koma hingað til að vinna ýmis verkefni. Það er skemmtilegt að fá safnafræðinemendur hingað. Þeir eru svo gagnrýnir og koma með ábendingar um hvað má betur fara.“ Þetta sé því ákveðin menntastofnun líka. Doktorsnemar séu t.a.m. stundum að skoða einhverja ákveðna gripi á landsvísu. „Við vorum í vetur með fyrirlestraröð í samvinnu við Fróða, félag sagnfræðinema við HÍ, þar sem nýútskrifaðir nemendur kynntu lokaverkefni sín. Það var mjög skemmtilegt og dró að,“ segir Björn.

byggðasafn

byggðasafn

byggðsafn

byggðasafn

Hér er vefsíða Byggðasafnsins

Hér er leitar- og upplýsingasíðan Sarpur

 

Myndir – Olga Björt