Okkar fólk í framboði til Alþingis

Fjarðarpósturinn hafði samband við þá Hafnfirðinga sem skipa efstu sæti á framboðslista hvers stjórnmálaafls fyrir sig og þeir kynna sig og stefnu síns flokks í næsta tölublaði og í síðustu viku.

 

Samfylkingin er flokkur jafnaðarmanna. Það þýðir að við berjumst fyrir jöfnum tækifærum fyrir alla. Samfylkingin vill ekki skilja neinn útundan. Hún var stofnuð til að jafna leikinn þannig að við getum öll blómstrað.

Jafnari skipting gæða

Þrátt fyrir bættan efnahag hefur misskipting aukist á undanförnum árum og velferðarkerfið beðið hnekki. Við sættum okkur ekki við að ríkustu 5-10% þjóðarinnar eigi jafnmikið og allir hinir til samans og leggjum áherslu á jafnari skiptingu gæða.

Fjárfesting í fólki og innviðum

Við þurfum að auka stuðning við barnafjölskyldur og stuðla að uppbyggingu leiguíbúða á viðráðanlegum kjörum. Skattbyrði þarf að færa frá milli- og lágtekjufólki yfir til þeirra sem hana geta borið og hækka þarf lífeyri aldraðra og öryrkja ásamt því að draga úr tekjuskerðingum.

Sveltistefna hefur ríkt í menntamálum og heilbrigðisþjónustu. Menntamál eru efnahagsmál og við eigum að fjárfesta í framtíðinni. Þess vegna viljum við blása til sóknar í menntamálum. Við höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins en viljum sjá öflugt og gjaldfrjálst opinbert heilbrigðiskerfi og ráðast í átak í geðheilbrigðismálum.

Betri lífskjör og aukinn jöfnuð

Það er grundvallarstefna jafnaðarmanna að allir njóti góðs af auðlindum landsins og efnahagslegum uppgangi. Við eigum að vera öll í sama liði og byggja upp gott samfélag fyrir alla.

Nánar um stefnuna á xs.is

 

Adda María Jóhannsdóttir

Skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi