Mánaðamót, afborgun af bílnum, húsinu og öllu hinu. Eigum við fyrir þessu? Víða stress og kvíði, alla vega þar til komið er að síðustu afborgun. Þá fer að birta á ný. Kannast einhver við þetta?

Á mínum bæ er orðið afborgun oft notað í allt annarri merkingu. Afborgun er að fara út úr borginni, að afborga sig. Borgin er út af fyrir sig góð og gild en mikið er tilfinningin góð að komast út úr umferðinni, hávaðanum og mannfjöldanum og finna friðinn í íslenskri náttúru. Ég elska slíka afborgun. Ekki þarf að fara langt til að njóta. Ég keyri oft upp á Skaga og strax við Esjurætur er tilfinningin komin. Göngutúr við Hvaleyrarvatn er annað nærtækt dæmi. Dásemdin ein. Frelsi ég finn.

Ein helsta ástæða þess að erlendir ferðamenn heimsækja Ísland er að upplifa náttúruna. Margt af þessu fólki býr í stórborgum eða miklu þéttbýli og þekkir vart annað en ys og þys, fólksmergð, umferðarþunga, mengun, stress og allan pakkann. Ósnortin náttúra er því lúxus í huga þess og margar sögur á ég af því hvernig fólk bókstaflega ummyndast af vellíðan og gleði yfir víðáttunni, kyrrðinni, hreina loftinu, frelsinu og öllum náttúrulistaverkunum sem við höfum upp á að bjóða. Þessi upplifun er afborgunin sem þeir þrá og njóta til hins ýtrasta. Leiðsögumaðurinn ég er þegar farinn að hlakka til að fara í margar afborganir í sumar með þessa góðu gesti.

Nú er í umræðunni hugmynd að enn einni tegund af afborgun. Að borga fyrir að aka út úr borginni, nokkurs konar afborgunar-afborgun  í  formi vegatolla. Vissulega er vegakerfið okkar í lamasessi og endurbætur eru bráðnauðsynlegar, ekki seinna en strax. En hvernig á að fjármagna herlegheitin? Vegatollarnir eru ein hugmyndin. Stóra spurningin er hvort þetta sé rétta leiðin og enn stærri spurning hvernig skal framkvæma hana. En hver sem lendingin verður vonum við að afborgunar-skilmálarnir verði sanngjarnir.