Hafnfirðingurinn Guðmundur Snorri Eysteinsson er yngsti nemandi í sögu Tækniskóla Íslands sem útskrifast með sveinspróf og stúdentspróf, en það tókst honum á aðeins tveimur og hálfu ári, sem er einstakt afrek.

Guðmundur Snorri er aðeins 18 ára og hlaut hann jafnframt verðlaun fyrir bestan árangur í Véltækniskólanum frá Samtökum iðnaðarins og Tækniskólanum. Fjarðarpósturinn hitti Guðmund Snorra í „uppeldisstöð“ hans, fjölskyldufyrirtækinu Vélsmiðju Guðmundar ehf, sem afi hans og nafni Guðmundur Aðalsteinsson stofnaði árið 1982.

Hvernig fórstu að þessu? „Ég byrjaði á því að vinna mikið hérna í fyrirtækinu og stunda nám samhliða því. Svo raðaði ég bara og pakkaði vel inn í stundatöfluna. Í stað þess að bíða með að taka áfanga sem ekki voru kenndir það og það misserið tók ég þá í fjarnámi í öðrum kvöldskólum, s.s FG, FB og einnig kvöldskóla Tækniskólans,“ segir Guðmundur pollrólegur yfir þessu öllu saman. Hann fékk einnig að taka rennismíði með 10. bekk eftir skóla og kláraði hana því áður en hann fór í Tækniskólann. „Svo sleppti ég stærðfræði 100 og 200; tók bara stöðupróf sumarið fyrir 1. önnina, enda á ég auðvlet með stærðfræði.“

Vélaverkfræði eða fyrirtækið

Áhugi á vélvirkjun kviknaði þegar Guðmundur Snorri starfaði 14 ára í sumarvinnu í fjölskyldufyrirtækinu og passar því einkar vel þar inn. Móðir hans, Rósalind Guðmundsdóttir, rekur fyrirtækið ásamt bróður hennar, Aðalsteini Guðmundssyni. „Svo kynnti ég mér ýmislegt og fannst ég passa í einhvers konar iðnað, þá aðallega málmtengdan eða vélvirkjun. Ég er hrifinn af bílum, hjólum og slíku. Svo fann ég mig mjög vel í náminu, sem fór að miklu leyti fram í vélsmiðjunni. Aðalsteinn er meistarinn minn og hann kenndi mér mjög vel.“ Spurður um framtíðina segir Guðmundur Snorri að allt stefni í að hann taki við fyrirtækinu. „Mig langar samt líka í háskólanám í vélaverkfræði. Ég á eftir að staðfesta endanlega hvert ég ætla,“ segir hann að lokum.

 

Forsíðumynd: OBÞ

Mynd með stúdentshúfu, í einkaeigu.