Íbúar við Austurgötu létu ágóða af sölu á Austurgötuhátíðinni 17. júní renna til fjölskyldunnar sem misstu hús sitt vegna ágangs veggjatítlna. Eigendur hússins, hjónin Ingvar Ari Arason og Anna Gyða Pétursdóttir, keyptu það fyrir fimm árum og höfðu verið að gera það upp að innan þegar þeir urðu varir við veggjatítlurnar. Bæjarráð Hafnarfjarðarbæjar samþykki í maí að styrkja eigendurna um 3,7 milljónir til að rífa húsið. Lúðvík Kristinsson er einn þeirra sem standa að hátíðinni.

austurgötuhátíð

Mynd frá Austurgötuhátíðinni í ár. 

„Austurgötuhátíðin, sem árlega er haldin 17. júní, var fyrst haldin árið 2011. Hvatinn að þessu var að okkur íbúum að Austurgötu fannst skemmtunin sem haldin var á Víðistaðatúni af Hafnarfjarðarbæ eingöngu höfða til barnafólks og við vildum stuðla að frekari lífi í miðbænum. Hér áður fyrr var Austurgatan aðal verslunargatan í Hafnarfirði og því vel við hæfi að blása í hana lífi á 17 júní,“ segir Lúðvík. Markmið hátíðarinnar sé fyrst og fremst að gleðja og hafa gaman og gróðramarkmið ekki í fyrirrúmi. Hátíðin hafi skapað enn frekari samheldni íbúa götunnar. „Hremmingar eigenda Austurgötu 36 með húsnæði sitt hafa tekið mjög á okkur í. Því vildum við leggja okkar að mörkum.“

austurgata

Bæjarstjórinn var meðal gesta. 

Á Austurgötunni í ár voru seldar vörur Urta Islandica, lummubakstur, vöfflur, kaffi og súkkulaði, þýskar pylsur, tælenskur matur frá veitingastaðnum Ban Kúnn og Castro truck matarbíllinn var þar. Börnin í götunni seldu popp og sykurpúða og ýmis sætindi. „Ein 8 ára dama safnaði 10 þúsund og var ákveðin í að gefa Rauða krossinum sína sölu. Eins og fyrri ár voru margir sem tóku til í geymslunni og héldu flóamarkaði. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá viðbrögð vegfarenda og ekki óalgengt að fólk greiddi meira fyrir eða styrktu vegna góðs málefnis,“ segir Lúðvík.

Myndir: frá Lúðvík. Hann er fyrir miðju á forsíðumynd.