Erla Sigurlaug Sigurðardóttir er keppniskona mikil og hefur komið víða við. Hún byrjaði að æfa hjólreiðar síðastliðinn vetur og hefur á árinu unnið í hverri hjólreiðakeppninni á fætur annarri. Hún hefur gefið út metsölubækur og búið í fjarlægu landi ásamt fjölskyldu sinni.

„Ég segist vera gaflari þótt ég sé „bara“ Hafnfirðingur, það er miklu skemmtilegra. Mamma mín er úr Hafnarfirði en pabbi úr Vesturbænum í Reykjavík. Pabbi minn, Sigurður Skarphéðinsson, er enn í vandræðum þegar FH og KR keppa í fótboltanum.“ Erla hefur alltaf búið hér í Hafnarfirði. Móðir hennar er Guðrún Axelsdóttir en móðurafa hennar þekkja margir sem Axel í Rafha.

Erla ólst upp í Norðurbænum. Þar var gaman að vera til eins og hún segir sjálf, börn úti um allt, alltaf einhver til að leika við. Hún gekk í Engidalsskóla til 10 ára aldurs en þá þurfti hún að fara yfir í Víðó. „Víðistaðaskóli var algjör villingaskóli í mínum huga þá en gekk svo auðvitað vel og þar var gaman að læra og leika. Við lékum okkur mikið í hrauninu og um daginn fór ég í hjólatúr með 12 ára dóttur minni um gamla hverfið mitt og sýndi henni hvar ég bjó og hraunið þar sem við gerðum virki og fórum í búðarleik o.fl. Hún skildi ekki af hverju við völdum hraunið sem leiksvæði.“

Eftir Víðistaðaskóla lá leiðin í MH, þaðan í Háskóla Íslands í mannfræði og að lokum kláraði hún master í alþjóðafræðum í Ástralíu.

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir

Ævintýragjörn

„Ég er alltaf að leita að næsta ævintýri hvort sem það er ferðalag, að prófa nýja íþrótt eða leika mér á annan hátt. Ég finn svo sterkt að lífið er mér gefið til að hafa gaman og ég er alltaf að búa til lítil partý hér og þar, í nýrri upplifun og verkefnum.“

Fyrir nokkrum árum flutti Erla ásamt fjölskyldunni til Ástralíu í tæp tvö ár. Hún fékk alþjóðlegan skólastyrk á vegum Rótary til að læra alþjóðafræði. „Maðurinn minn var heima og sá um krakkana á meðan ég lærði. Sólin skein alltaf og það var alltaf gott veður og þá er einhvern veginn einfaldara að vera til. Við fórum svo í tvo og hálfan mánuð til Fídjí og Salómonseyja þar sem ég þurfti að fara í starfsþjálfun hjá UNICEF í tengslum við námið. Dóttir mín fór í skóla á Fídjí og við bjuggum til alls konar framandi og skemmtilegar minningar.“

Prjónaperlur

Erla er skapandi manneskja og fær að eigin sögn fullt af hugmyndum á hverjum degi. „Ég gaf út tvær prjónabækur með frænku minni fyrir nokkrum árum sem heita Prjónaperlur og komust þær báðar á metsölulistann fyrir jólin við hliðina á Arnaldi. Við vorum ansi stoltar af því. Ég er þó ekki besta prjónakonan en samt góð í að gefa út prjónabók,“ segir Erla og brosir. Hún hefur sungið í Kammerkór Hafnarfjarðar en tók sér frí sl. vetur til að hafa meiri tíma til að iðka uppáhaldsíþróttina sína um þessar mundir, keppnishjólreiðar.

 

Íþróttakona með mikið keppnisskap

Á sínum yngri árum æfði Erla sund með SH í mörg ár. En fyrir fjórum árum byrjaði hún í Crossfit XY og náði góðum árangri á því sviði. „Ég er alltaf ómeðvitað að keppa um eitthvað, get ekki bara dúllað mér í sportinu. Að lokum tókst mér að keppa á tveimur Íslandsmótum í crossfit, var með þeim elstu þarna,“  segir Erla og glottir. Hún var lengi tæp í baki og varð því að hætta í crossfit vegna brjóskloss. Hún fór því að hjóla og lenti óvænt í WOW Cyclothon-liði. Þar segist hún hafa fengið alvarlega hjólabakteríu. Hún æfði hjólreiðar allan sl. vetur og blómstraði svona allverulega í sumar, vann í  hverri keppninni á fætur annarri. Á þessu ári hefur hún sigrað í Blue Lagoon Challange, KIA Gullhringnum, maraþonhjólreiðakeppninni á Þingeyri (Vesturgötunni) og hlaut svo Íslandsmeistaratitilinn í fjallahjólreiðum. „Þetta var voðalega gaman en kom á óvart. Ég er bara í þessu af því að mér finnst þetta svo gaman og vissulega finnst mér gaman að leita að nýjum áskorunum og að keppa. Í dag er ég styrkt af hjólreiðaversluninni TRI sem selur CUBE reiðhjól, hjóla í liði með þeim og fæ frábæra þjónustu þar. Stefnan er svo sett hærra og meira, hvað sem það svo verður.“

Hlustar á mótiverandi tónlist á leið í keppni

„Ég reyni bara að vera slök, minna mig á að ég sé fertug og að hafa gaman og að lífið sé ekki það alvarlegt að maður þurfi að kvíða fyrir keppni. Ég borða góðan morgunmat og passa að drekka vel yfir daginn. Hlusta oft á mótiverandi tónlist á leiðinni á keppnisstað í bílnum, tónlist getur gert soddan kraftaverk og kemur manni í gang.“

Sangría í verðlaun

Erla hefur víðtæka reynslu af markaðs- og samskiptamálum og er sem stendur í krefjandi starfi í markaðsdeild ON. Hún nýtir því frítíma sinn vel og ætlar að æfa hjólreiðar og létt crossfit í vetur og njóta lífsins á snjóbretti með fjölskyldunni.

Aðspurð um hvað sé fram undan segist hún vera á leið til Mallorca núna um miðjan september. „Ég vann ferð til Mallorca með öllu tilheyrandi þegar ég sigraði í KIA Gullhringnum  í sumar – jeij! Vikuhjólaferð á draumastað hjólreiðamannsins, Mallorca. Verður draumur. Brekkurnar verða gott „challenge“ og sangría í verðlaun.“

Upplandið í uppáhaldi

Hjólreiðafólk er vant því að þræða allar mögulegar og ómögulegar götur og stíga og því er ekki úr vegi að spyrja hana hver sé hennar uppáhaldsstaður í bænum. „101 Hafnarfjörður eins og ég kalla miðbæinn er æðislegur, við Lækinn og niðri við sjó. En uppáhaldsstaðurinn minn er náttúran allt í kringum bæinn, það er svo stutt í hana. Ég hjóla mikið í upplandi Hafnarfjarðar og það er frábært hvort sem er í Kaldárseli og þar eða Krýsuvík. Hraunið gefur mér svona náttúrubústtilfinningu og gefur mér orku.“