Krakkakosningar 2017 fóru fram meðal grunnskólanema víða á landinu í vikunni. Áskorun þess efnis kom til af frumkvæði KrakkaRÚV sem heldur uppi öflugum kosningavef fyrir börn og skólar landsins höfðu val um þátttöku og árganga. Hjá Hraunvallaskóla tóku 4. og 7. bekkur þátt og var 7. bekkur einnig með kosningakaffi. Alþýðufylkingin er sigurvegari krakkakosninganna hjá 4. bekk í Hraunvallaskóla í ár. Fjarðarpósturinn hafði samband við einn kennara 4. bekkjar sem segir krakkana hafa verið afar áhugasama kosningarnar hafi gengið vel. Styttri vinnutími foreldra og afnám heimanáms hafi staðið upp úr meðal kosningaloforða.

„Áður en við hófum kosningarnar sjálfar þá kynntum við fyrir nemendum af hverju kosningar eru í landinu og af hverju það er mikilvægt að taka þátt og kjósa,“ segir Anne Johansen, sem stýrði fræðslunni og kosningunum ásamt kollegum sínum Kristbjörgu Jónsdóttur, Höllu Maríu Þórðardóttur og Guðnýju Viktoríu Másdóttur. 87 börn eru í árgangnum og á „kjördaginn“ voru 5 veikir eða í leyfi. Annars var kjörsókn með besta móti því allir viðstaddir tóku þátt, engin skilaði auðu og ekkert atkvæði var ógilt.  

Kjörklefar og kjörkassar

Útbúnir voru kjörklefar og kjörkassar og allt var gert til að upplifun nemenda yrði eftir kúnstarinnar reglum. „Við fylgdumst með myndbandi frá hverjum flokki, þau hlustuðu á það sem frambjóðendur höfðu að segja og mynduðu sér síðan skoðun og kusu. Það sköpuðust ekki miklar umræður, allavega ekki háværar, því við gengum strax til kosninga og við sögðum að hver og einn ætti að ákveða fyrir sig,“ segir Anne.

 

Kosningar hafa áhrif á börn

Niðurstöður kosninganna urði á þann veg að Alþýðufylkingin fékk flest atkvæði og var það mat nemenda að aðalástæðan var sú að þeir vilja stytta vinnuviku foreldra svo þeir hefðu meiri tíma fyrir börnin. Píratar urðu í 2. sæti, en þeir vilja leggja niður heimalærdóm. Viðreisn og Framsókn deildu með sér þriðja sætinu. Dögun var eini flokkurinn sem fékk ekkert stig en hann var líka eini flokkurinn sem skilaði ekki myndbandi á Krakkakosningavefinn. „Það vill gjarnan gleymast í kosningabaráttu að niðurstöður kosninga hafa einnig bein áhrif á börn þótt þau séu ekki komin með aldur til að kjósa. Þetta eru klárir krakkar með sjálfstæðan vilja,“ segir Anne.

 

Myndir: Frá Anne og Guðnýju Viktoríu.