Helga Guðmundsdóttir

Helga Guðmundsdóttir landsliðskona í kraftlyftingum.

Helga Guðmundsdóttir er landsliðskona í kraftlyftingum. Hún byrjaði að æfa fyrir tveimur árum fertug að aldri og hefur þegar náð að setja Íslandsmet í opnum flokki og lenti í fjórða sæti á EM í bekkpressu nú á dögunum. Helga rekur líkamsræktarstöðina CrossFit Hafnarfjörður og er nýorðin amma.

 Helga fæddist á Akranesi en ólst upp í Mosfellsbæ og bjó þar til tvítugs. Foreldrar hennar eru Guðmundur Haraldsson, skipstjóri hjá Eimskip, og Rakel Kristjánsdóttir, læknaritari á Reykjalundi. Hún gekk í Varmárskóla, fór svo í Menntaskólann við Sund. Þaðan fór hún í Listaháskólann og lærði textílhönnun. Hún starfaði um stund hjá Össuri við að sérsmíða sjúkraskó og var með eigin rekstur til hliðar með hönnunarvörur, töskur og ýmsan leðurvarning. Hún flutti svo til Hafnarfjarðar 2005 þegar hún kynntist fyrrverandi manni sínum en þau eiga saman tvö börn.

„Hooked“ á crossfit

„Ég æfði alltaf sem barn og unglingur. Prófaði alls konar greinar, frjálsar, badminton, fimleika og djassballet. Seinna byrjaði ég svo bara að æfa í ræktinni eins og margir gera.“ Helga æfði hlaup á tímabili og prófaði bæði maraþon og ultra-maraþon. „Þegar crossfittið byrjaði í Hafnarfirði skráði ég mig á grunnnámskeið og varð strax „hooked“ á þessu. Eftir ár tók ég við stöðinni,” segir Helga brosandi og ljóst er að hún fer alla leið í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Íslandsmet eftir þriggja mánaða þjálfun

Eftir að hafa verið í crossfit í um fimm ár sótti hugurinn í kraftlyftingar. „Ég hef alltaf verið sterk, líka sem barn. En í crossfit hefur styrkurinn aukist mikið og ég fann að ég gæti sennilega orðið góð í kraftlyftingum, langaði að prófa að keppa í þeim líka. Mig langaði að verða best í kraftlyftingum á Íslandi,” segir Helga og hlær. Hún tók þátt í sínu fyrsta bikarmóti eftir að hafa æft kraftlyftingar í aðeins þrjá mánuði. Hún sigraði í mótinu og setti Íslandsmet í bekkpressu. „Ég fékk góða þjálfun hjá landsliðsþjálfaranum sem kom mér fljótt á pall.“ Síðan þá hefur hún keppt á tveimur Evrópumótum í kraftlyftingum þar sem hún lenti í fjórða sæti og einu heimsmeistaramóti. Helga hefur keppt í tveimur þyngdarflokkum, -63 kg og -72 kg, og hefur sett nokkur Íslandsmet í þeim báðum. Þess má geta að flest þessara meta hafa fallið í opnum flokki, þ.e. þar sem hún keppir við konur á þrítugsaldri og upp úr.

Það er nóg fram undan hjá Helgu en þessa dagana æfir hún fyrir Íslandsmótið í klassískum kraftlyftingum sem er í október og svo taka við æfingabúðir í Noregi fyrir heimsmeistaramótið í búnaðarkraftlyftingum í nóvember í Orlando.

Grátbrosleg átök

Hrikaleg átök fylgja kraftlyftingunum og grátbrosleg atvik eiga það til að henda keppendur í hita leiksins. „Já, einu sinni pissaði ég á keppnispallinn í þungri réttstöðulyftu. Það er algengt vandamál hjá konum og ætla ég ekkert að reyna að fela það. Kemur oft fyrir, en það er samt ekkert skemmtilegt þegar það gerist.“

Það geta allir stundað lyftingar

„Fólk verður bara að byrja varlega og fá leiðsögn fyrst ef það er óvant. Þetta er styrktarþjálfun sem er góð fyrir alla og bætir form og lífsgæði. Maður þarf að huga að líkamanum á efri árum. Ég vil vera hraust og heilbrigð þegar ég verð áttræð og geta ferðast um heiminn og gert allt sem mig langar til,“ segir hún glöð í bragði. Sjálf segist Helga æfa fimm sinnum í viku í tvær og hálfa til fjórar klukkustundir í senn.

Aktíf fjölskylda

Helga varð amma á dögunum og sameinar fjölskyldulífið og líkamsræktina. „Það er bara dásamlegt. Ömmubarnið býr hjá mér og þetta er mikil vinna en gengur samt mjög vel. Ég bý ein með börnum mínum og barnabarni og ef allir hjálpast að heima þá er þetta ekkert mál.“ Börnin eru mikið með Helgu í CrossFit-stöðinni og eru að sögn hennar orðin mjög heimavön. Dóttir hennar, sú elsta, er 18 ára, gengur í Flensborg og æfir crossfit af krafti og barnabarnið, tíu mánaða, kemur oftar en ekki með. Sex ára sonur Helgu er vanur að klifra upp um alla veggi í stöðinni og tekur upphífingar eins og að drekka vatn og æfir einnig sund og karate. Það þriðja, átta ára, lætur sér þó nægja að vera í fimleikum hjá Björkinni. „Mamma æfir líka hjá mér og hefur gert í þrjú ár. Hún er sextíu og fjögurra ára, stendur á höndum og gefur hinum ekkert eftir,“ segir Helga og bætir við að lokum að það góða við crossfit sé að allir geti æft á sínum forsendum, óháð aldri.