Fyrir nokkrum árum sótti ég myndlistarnámskeið. Meðal nemenda var hávaxin, tignarleg ung kona með sítt svart hár. Það geislaði af henni á svo einstakan hátt.

Ég gaf mig á tal við hana og komst að því að hún hafði verið ættleitt frá Sri Lanka. Það var svo skemmtilegt að hlusta á hana segja frá sjálfri sér og hún var stolt af uppruna sínum samhliða því að vera hamingjusöm á Íslandi.

Sjálf fylltist ég stolti þegar ég hugsaði til þess hversu mörg íslensk pör hafa í tímans rás tekið börnum af erlendum uppruna opnum örmum og þau orðið ein af okkur. Nóg er plássið.

Mér hefur líka alltaf fundist Íslendingar geta lært heilmikið af öðrum þjóðum, meðal annars til að styrkja betur sjálfsmynd sína í alþjóðasamfélaginu og stuðla að umburðarlyndari heimsmynd. Þjóðarrembingur gerir engum gagn.

Í einum tíma myndlistarnámskeiðisins áttum við að vinna verk með litakrítum, teikna stóra mynd af konu í kjól með hatt.

Ég stóð ásamt ungu konunni við litakassann og við vorum að velja okkur liti til að nota. Þá sagði ég algjörlega ómeðvitað: „Ertu til í að rétta mér andlitslitinn?”

Hún rétti mér brúnan – og brosti.