Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Axel Bóasson, bæði úr Keili, eru Íslandsmeistarar í golfi 2018. Þetta er fyrsti titill Guðrúnar en sá þriðji hjá Axel. Ekki allir vita að Guðrún Brá og Axel eru systkinabörn og úr stórri Hafnfirskri golffjölskyldu, Sigurbergsfjölskyldunni. Við náðum tali af þeim frændsystkinum og spurðum þau út í lífið og golfið, en fátt annað er rætt þegar þessir miklu kylfingar hittast.

Guðrún krækti í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitill sinn á nýafstöðnu móti í Eyjum. Því lá beint við að spyrja hvernig sú tilfinning er fyrir hana persónulega. „Tilfinningin er bara mjög góð að hafa landað þessu loksins. Ég er búin að vera mjög nálægt því undanfarin ár þannig það var gaman að vinna hann í ár. Ég hef alist upp við að sjá fjölskylduna (pabba, Axel frænda, Þórdísi og Tinnu frænku) vinna þannig þetta er búið að vera markmið mitt frá því ég var lítil,“ segir Guðrún sem mætti til Eyja á þriðjudeginum fyrir keppni og spilaði tvo æfingahringi með Helga bróður sínum í afar góðu veðri. „Það var mjög skemmtilegt. Ég á góðar minningar úr Eyjum og mér finnst alltaf rosalega gaman að koma að spila þar, þannig það hjálpaði mér klárlega að undirbúa mig. Þótt þetta hét Íslandsmót var undirbúningurinn þó ekkert öðruvísi en fyrir hvert annað mót.“

Skemmtilegast að vinna Axel frænda

Spurð um hvort Axel hafi verið henni sterk fyrirmynd segir Guðrún það auðvitað vera. „Hann byrjaði í atvinnumennskunni aðeins á undan mér þannig var rosalega gott að geta fengið ráð og talað við hann áður en ég tók ákvörðun að gerast atvinnumaður. Annars veit ég að ég get alltaf leitað til hans ef mig vantar eitthvað. Við höfum ekki mikið æft saman því við ferðumst bæði mjög mikið og erum því ekki oft saman í sama landinu. En síðustu ár höfum við aðeins verið að hittast á Spáni og þá tökum við alltaf einhverjar skemmtilegar keppnir saman. Ekkert er skemmtilegra en að vinna Axel frænda!

Fyrstu skref sem atvinnumaður

Að sögn Guðrúnar verður varla afmæli eða jólaboð í stórfjölskyldunni án þess að golf sé rætt.

Hún býr í miðbæ Hafnarfjarðar og finnst æðislegt að búa þar. Guðrún er um þessar mundir að fikra sig áfram á LET access, næst sterkustu mótaröð Evrópu, og hún er þekkt fyrir að vera afar stöðugur kylfingur. „Mér hefur bara gengið ágætlega. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur en ég er að taka mín fyrstu skref sem atvinnumaður þannig ég er að læra helling og gengur bara mjög vel að komast inn í þetta allt saman. Ég stefni á að komast inn á LET mótaröðina (European Ladies tour) fyrir næsta ár sem er sterkasta mótaröðin í Evrópu,“ segir Guðrún, sem að lokum er beðin um að nefna styrkleika sína. „Ég er mjög einbeitt á það sem ég ætla mér að ná. Ég skipulegg mig vel og er vinnusöm.“

Líður alltaf vel á vellinum í Eyjum

Axel segir Íslandsmeistaratitilinn hafa þýtt mikið sig. „Keppnisárið erlendis hefur ekki alveg gengið upp þannig það var rosalega gott að landa þessum titli fyrir næstu mót. Mér líður alltaf vel þegar ég spila á vellinum í Eyjum og þekki hann vel. Völlurinn var í frábæru ástandi á mótinu og mér fannst rætast vel úr veðrinu. Ég mætti mjög jákvæður og einbeittur til leiks og var með mín persónulegu markmið þannig þetta gekk upp í þessu móti.“ Axel bætir við að honum hafi ekki gengið alveg nógu vel á áskorenda mótaröðinni en hann muni halda áfram að spila sitt golf. „Vonandi skilar það einhverjum góðum niðurstöðum í lokin, en annars búið að vera mjög gaman.“

Er sterkur á „green-unum“

Axel segist aðspurður að sjálfsögðu vera afar stoltur af litlu frænku sinni Guðrúnu Brá og vill henni ætíð allt það allra besta fyrir hana. „Hún er líka frábær kylfingur þannig að maður vill að hún komist alla leið og nái sínum draumum.“ Axel er sammála Guðrúnu Brá með það að golf sé aðallega rætt þegar fjölskyldurnar hittast en þó komi önnur umræðuefni einnig upp. Axel
ólst upp í Garðabæ en er fluttur í Áslandið. Við báðum hann að lokum um að lýsa styrkleikum sínum, en hann er högglengsti kylfingur landsins. Sagður algjör sleggja: „Ég er mjög vinnusamur. Legg mikinn metnað að verða betri. Er frekar góður í kringum „green-in“ og á þeim. Hef alltaf litið á það sem einn af mínum styrkleikum.“

 

Myndir: seth@golf.is