Hafnarfjarðarbær á sér aldalanga sögu sem öflugur verslunar- og iðnaðarbær. Fjölbreytt atvinnulíf setur svip sinn á bæinn og gerir fjölmörgum hafnfirðingum kleift að sækja vinnu í bænum sínum í stað þess að leita út fyrir bæjarfélagið. Jákvæð afleiðing þess er minni umferðarþungi, styttri ferðatími, sjálfbærni samfélagsins og aukin lífsgæði. Mörg fyrirtæki bæjarins styðja íþrótta- og æskulýðsstarfsemi ötullega auk þess sem þau laða að fleiri íbúa sem gjarnan vilja búa nálægt vinnustað sínum.

Skipulag bæjarins gerir ráð fyrir stórum svæðum sunnan álversins sem ætluð eru fyrir iðnað og aðra atvinnustarfsemi. Möguleikar til fjölgunar atvinnufyrirtækja í Hafnarfirði eru miklir, því hörgull er á lóðum undir atvinnustarfsemi í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á árunum eftir bankahrun versnaði fjárhagur margra fyrirtækja mikið, auk þess sem lóðagjöld hækkuðu langt umfram hækkun byggingavísitölu og ekki hefur enn orðið sú uppbygging á þessu svæði sem vonast hafði verið til. Efnahagslegir erfiðleikar sem bærinn gekk í gegnum í kjölfar bankahrunsins eru að mestu að baki og því er tilvalið tækifæri nú til að lækka lóðagjöld verulega bæði fyrir atvinnustarfsemi og íbúabyggð í þeim tilgangi að laða fleiri atvinnufyrirtæki og íbúa til bæjarins.

Miðflokkurinn telur afar mikilvægt að efla þjónustu við atvinnulífið á sviði skipulagsmála og samgangna meðal annars með því að strætisvagnar gangi í iðnaðarhverfin og að byggðir séu upp göngu- og hjólreiðastígar sem tengja íbúasvæðin við iðnaðarhverfin til að auðvelda starfsmönnum að sækja vinnu.

Öflugt atvinnulíf er ein af meginstoðum bæjarins bæði efnahagslega og félagslega. Hlúum að atvinnulífinu til hagsbóta fyrir okkur öll.

 

Arnhildur Ásdís Kolbeins

Höfundur skipar 5. sæti Miðflokksins í Hafnarfirði