Í ný samþykktri fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar eru mörg góð íþrótta- og tómstundamál sem ber að fagna. Fyrst og fremst má nefna að Í allri fjárhagsáætluninni er rauði þráðurinn áhersla á  líðan og velferð barna og unglinga.

Fyrst ber að nefna að það skiptir máli að ungmenni bæjarins hafi áhuga á því að starfa í vinnuskólanum, það er ekki aðeins ávinningur fyrir ásýnd bæjarins, heldur læra ungmennin að passa upp á bæinn sinn. Upplifa frá eigin hendi hve mikil vinna fer í það að fegra bæinn og virða þá umhverfið sitt og eigin handverk meira. Grunnskólanemendur frá 8. til 10. bekkjar fá 8% launahækkun á milli ára, þess ber að nefna að frá árinu 2016 til 2017 hækkuðu launataxtar um 16% og hafa því hækkað um 24% á síðustu tveim árum.

Síðasta sumar var farið af stað með tilraunaverkefni að tillögu Íþrótta- og tómstundanefndar um að lengja opnunartíma sundlauga bæjarins. Þetta heppnaðist vel og nú liggur fyrir að festa þessa breytingu í sessi. Frá og með áramótum verða sundlaugar bæjarins opnar lengur á kvöldin á virkum dögum og haldið áfram að hafa laugarnar opnar á „rauðum dögum“. Er þetta stórt skref í rétta átt að auka þjónustu við bæjarbúa.

Einnig lagði Íþrótta- og tómstundanefnd til að frítt verði í sund fyrir börn 10 ára og yngri en þau börn eru ávallt í fylgd með fullorðnum, þessi tillaga var samþykkt í fjárhagsáætlanavinnunni og tekur gildi frá og með næstu áramótum. Það er frábær að geta boðið börn velkomin í sundlaugar bæjarins og ýtt en frekar undir notkun sundstaðanna okkar.

Í haust var sett á laggirnar frístundaakstur fyrir börnin í bænum. Ákveðið var að fara hægt af stað. Í fyrsta áfanga verkefnisins og var byrjað á því að keyra 6 – 7 ára gömul börn í tómstundir hjá þrem íþróttafélögum. Verkefnið byrjar vel og eru um 300 börn að nýta sér þessa þjónustu. Í fjárhagsáætlun 2018 var sett aukið fjármagn í verkefnið og stefnt er að því að fara í næsta áfanga frá og með haustinu 2018, en þá verður bætt við akstri fyrir átta og níu ára gömul börn, keyrt í fleiri tómstundir og ekið oftar á dag. Þetta verkefni er mikilvægur áfangi í að stytta vinnudag barna og auka aðgengi barna að tómstundum.

Frístundastyrkir vegna þátttökugjalda í íþrótta- og tómstundastarf hækka þann 1. janúar 2018 um 25% fyrir börn á aldrinum sex til átján. Einnig ber að nefna útvíkkun frístundastyrkja en frá og með áramótum geta nemendur í tónlistarnámi einnig notað frístundastyrkinn. Er þessi breyting á frístundastyrkjakerfinu mikilvæg, börn geti nýtt styrkinn í það tómstunda- eða íþróttastarf sem áhugasvið barnsins liggur. Miklar breytingar á frístundastyrknum hafa verið gerð á síðustu tveim árum, nú geta börn stundað ýmsar tómstundir innan eða utan Hafnarfjarðar, í íþróttum, menningar- eða sköpunarnámi og öðrum tómstundum. Er þetta mikilvægt til þess að efla börn og virkja í tómstundum. Markmið niðurgreiðslna er að gera börnum með lögheimili í Hafnarfirði kleift að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldna og að efla íþrótta- og annað forvarnarstarf.

 

Karólína Helga Símonardóttir

Formaður Íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar