Hafnarfjarðarbær og Fimleikafélag Hafnarfjarðar gerðu í gær með sér rammasamkomulag sem tryggir að Knatthús FH rísi í Kaplakrika á fyrri hluta næsta árs en framkvæmdir hefjist á næstu vikum. FH mun byggja og eiga húsið en Hafnarfjarðarbær kaupir eldri knatthús FH af félaginu auk íþróttahús félagsins í Kaplakrika.

Hafnarfjarðarbær greiðir 790 milljónir fyrir byggingarnar en samhliða verður gengið frá heildareignaskiptasamningi um eignirnar sem hafa verið í sameign FH og bæjarins. FH skuldbindur sig til þess að byggja knatthús í staðinn. Með því að FH byggi húsið ber félagið ábyrgð á að kostnaður bæjarsjóðs verði ekki meiri en áætlað er og FH-ingar nýta fjármuni við sölu eigna til uppbyggingar á svæðinu.

Í frétt á heimasíðu FH segir aðalstjórn félagsins: „Það er okkur FH-ingum mikið fagnaðarefni hvað bæjaryfirvöld hafa tekið ábyrga afstöðu og hugsað í lausnum með félaginu til þess að aðstöðuvandinn leysist og heyri fljótt sögunni til. Þetta er hagkvæmasta leiðin við lausn vandans, FH nýtir eignir sínar til að styrkja starfið og Hafnarfjarðarbær hugsar ábyrgt um fjármuni bæjarbúa.“

Ágreiningur um málið á bæjarráðsfundi 

RÚV greindi frá því í gærkvöldi að deilur hefðu orðið á aukafundi sem haldinn var í bæjarráði Hafnarfjarðar í gærmorgun þar sem málið var tekið fyrir. Bæjarráðsfulltrúar og áheyrnarfulltrúar flokkanna sem eru í minnihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar mótmæltu því hvernig staðið væri að málum og töldu réttast að málið yrði rætt í bæjarstjórn þar sem allir kjörnir bæjarfulltrúar og allir flokkar sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn hafa aðkomu og atkvæðarétt. Niðurstaðan var þó sú að málum var ráðið á bæjarráðsfundi í morgun.

Fjarðarpósturinn en með frétt í vinnslu um þetta mál sem birt verður þegar náðst hefur svarendur.

Myndir/OBÞ