Hafnarfjarðarbær og Brettafélag Hafnarfjarðar skrifuðu undir samning í dag en Brettafélagið hefur stækkað umtalsvert á fáum árum og deildum innan þess fjölgað.
Í dag er þar afar stór snjóbrettadeild sem í dag ein sú stærsta á Íslandi. Brettafélagið var tómstundafélag en á síðasta ári breyttist félagið í íþróttafélag og tekur í dag virkan þátt í starfsemi Íþróttabandalags Hafnarfjarðar. Gerðir eru tveir samningar við félagið, annar er rekstrarsamningur sem snýr að því að reka húsnæðið sem félagið hefur og hinn snýr að því styðja við félagið í tengslum við fjölda og gæði barna- og unglingastarfsins. Hafnarfjarðarbær leggur auk þessara samninga viðbótarframlag til Bláfjallasvæðisins í formi mótsgjald fyrir Brettafélagið en Bláfjöll eru æfingar- og keppnisvæði snjóbrettadeildarinnar. 
Það voru þau Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri og Arnfríður Arnardóttir, gjaldkeri Brettafélags Hafnarfjarðar sem skrifuðu undir samningana í morgun.