Hafnarfjarðarbær fékk á dögunum jafnfréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs, sem fjallað er nánar um í blaðinu. Vakið hefur eftirtekt á landsvísu hversu margar konur sinna stjórnunarstörfum hjá Hafnarfjarðarbæ og gripum við hjá Fjarðarpóstinum því tækifærið og fengum nokkrar að stilla sér upp á mynd. Fyrirsögnin vísar í það í hversu góðum höndum bærinn er og líka í hversu góðum höndum starfsfólk hans er þegar jafnréttisstefna er í hávegum höfð. 

Frá vinstri: Rósa Steingrímsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu, Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskylduþjónustu, Sigríður Kristinsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu og bæjarlögmaður, Berglind Guðrún Bergþórsdóttir, mannauðsstjóri og Lúvísa Sigurðardóttir, gæðastjóri. Þá er samskiptastjórinn Árdís Ármannsdóttir í fæðingarorlofi.

Við spurðum nokkar þeirra að því hversu mikils virði jafnréttinsviðurkenningin er vinnustað eins og Hafnarfjarðarbæ: 

Fanney: „Jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs 2017 er rós í hnappagat okkar og viðurkenning á framsæknum vinnubrögðum í samfélagi sem gerir ráð fyrir margbreytileikanum. Þar horfir Hafnarfjarðarbær á það að jafnrétti skapi jafnvægi milli einstaklinga og laði fram heillavænlegar ákvarðanir, efli  gagnrýna hugsun sem er grundvöllur þess að fólk vakni til vitundar, skilji umhverfi sitt og bregðist við því á ígrundaðan og upplýstan hátt. Ekki aðeins með því sem við gerum heldur með þeim tilfinningum sem við ræktum, dyggðum sem við æfum og viðhorfum sem við tileinkum okkur í öllum ákvarðanatökum okkar í leik og starfi.“

Rósa: „Ég er stolt af því að vinna hjá sveitarfélagi sem leggur ríka áherslu á jafnréttismál. Að fá jafnlaunavottun í sumar fyrst íslenskra sveitarfélaga og nú viðurkenningu Jafnréttisráðs staðfestir það og hvetur okkur áfram á sömu braut.“ 

Sigríður: „Jafnréttis- og mannréttindastefna Hafnarfjarðar var samþykkt í bæjarstjórn í febrúar.  Síðan þá hefur verið unnið eftir henni og Jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs staðfestir að  við erum á réttri leið með framsækinni og metnaðarfullri stefnu í jafnréttismálum.  Þá fengum við fyrst sveitarfélaga jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins s.l. sumar en unnið hefur verið að innleiðingu á jafnlaunakerfi undanfarin ár hjá bæjarfélaginu og vorum við þátttakendur í tilraunaverkefni velferðar- og fjármálaráðuneytisins.“

 

Mynd: Olga Björt.