Það er bjart yfir íslenska neytandanum í dag. Rjóminn flýtur víða. Við Íslendingar erum gjarnir á að vera skotnir í öllu sem kemur frá henni Ameríku. Costco er þar engin undantekning. Ekki eru allir á eitt sáttir um komu verslunarrisans, skiptir litlu út frá hvaða forsendum málin eru rædd. Deilt er um hvort rétt sé að skipta við „holdgerving kapítalismans“, sumum er illa við erlend matvæli, aðrir segja að verið sé að afvegaleiða neytandann og hinum finnst ekki „kúl“ að láta sjá sig í Costco. Ég segi við íslenska neytendur, fögnum fjölbreytileikanum og stöndum með okkur sjálfum.

Á námsárum mínum vestanhafs skipti ég oftar en ekki við Costco og líkaði vel. Það kom sér oft vel fyrir námsmanninn að geta birgt sig upp af hinum ýmsu nauðsynjum á þokkalegasta verði. Reyndar kom Íslendingurinn ansi oft upp í manni í ferðunum í Costco, það var ýmislegt fleira en nauðsynjar sem rötuðu í pokana. Sjálfur hef ég séð að verðin í Costco hérlendis eru ansi góð í mörgum vöruflokkum, það er vel. Útsjónarsamar fjölskyldur geta svo sannarlega sparað skildinginn með skynsamlegum kaupum.

En það er líka auðvelt að missa sig í gleðinni í Kauptúninu. Sparnaðurinn er fljótur að brenna upp ef hagsýna húsmóðirin villist af leið. Við skulum hafa á hreinu að Costco er ekki góðgerðarstofnun, þar er ætlunin að reka fyrirtæki, með öllum þeim arðsemissjónarmiðum sem þar ráða. Ég er sannfærður um að koma Costco á markaðinn ýti við hérlendum verslunum. Svo virðist vera að þar sé í sumum tilfellum svigrúm til verðlækkana. Þekkt stef hefur bergmálað í íslenskri þjóðarsál næstum allt frá dögum einokunarverslunar Dana á 17. og 18. öld; Að svínað sé á íslenskum neytendum, alltaf og allsstaðar, sí og æ.

Málin eru sjaldnast svo klippt og skorin, mér er til efs að íslenskir kaupmenn séu upp til hópa óheiðarlegir eða stundi jafn vonda viðskiptahætti og sumir vilja meina. En þeir þurfa hinsvegar að bera ábyrgð og sýna auðmýkt, ekki síst þegar þeir eru opinberaðir. Án okkar eru þeir ekkert. Og við neytendur þurfum líka að sýna ábyrgð, jafnt gagnvart íslenskum kaupmönnum sem erlendum.

Sýnum kaupmönnum að við íslenskir neytendur erum ekki villuráfandi sauðir. Við verðlaunum kaupmenn fyrir sanngirni, gott verð, þjónustu og alla þá ólíku þætti sem við metum til fjár. Kaupmenn allra landa, ykkar er sviðið. Sýnið hvað þið getið.

Jón Ragnar Jónsson, hagfræðingur.