Þann 16. maí sl. samþykkti Skipulags- og byggingaráð vinnslutillögu að breyttu aðalskipulagi vegna hugsanlegrar legu Borgarlínunnar í Hafnarfirði. Um er að ræða byltingakenndan valkost í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu,  almenningsvagnar (hraðvagnar eða léttlest) sem verður í eigin ferðarými óháð annari umferð. Unnið er að sambærilegum verkefnum í flestum þéttbýliskjörnum í löndunum í kringum okkur og þar hefur reynslan sýnt að fólk og fyrirtæki vilja staðsetja sig nálægt samgönguásnum og við ásinn skapast tækifæri til að byggja þéttar upp íbúðarhverfi og blandaða byggð. Fjarðarpósturinn settist niður með Borghildi Sturludóttur og Pétri Óskarssyni varabæjarfulltrúum Bjartrar Framtíðar sem bæði sitja í Skipulags- og byggingaráði og forvitnaðist um það hvernig Borgarlínan kemur til með að snerta okkur Hafnfirðinga.

„Borgarlínan mun verða hraður og öruggur valkostur fyrir þá sem það kjósa. Ferðatíðnin verður þannig að þú munt ekki velta fyrir þér tímatöflunni, þegar þú mætir út á stöð þá eru aldrei meira en 5-8  mínútur í næsta vagn. Af því að þetta kerfi ferðast í eigin rými munu þeir sem kjósa þennan ferðamáta ekki þurfa að stoppa í umferðarteppum eins og myndast nú þegar á álagstímum heldur er ferðatímaöryggið aðalsmerki kerfisins. Þú sest um borð og þú veist hvað eru margar mínútur á áfangastað og þú ferðast óháð annari umferð,” segir Pétur.

Hágæða samgöngur skapa ný tækifæri

„Ferðatími á milli bæjarhluta og sveitarfélaga mun styttast talsvert, sértaklega á álagstímum annarar umferðar og það færir hin sveitarfélögin á svæðinu nær Hafnarfirði. Þetta skapar á sama tíma tækifæri fyrir Hafnarfjörð, með aðlaðandi sögulegan miðbæ, að verða valkostur fyrir þá sem búa við samgönguásinn til þess að sækja sér atvinnu, þjónustu og verslun í Hafnarfjörð,” segir Borghildur.

Öflug samstarf

Sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu vinna saman að þessu verkefni í gegnum Samband sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu (SSH) en þaðan er undirbúningi verkefnisins stýrt í dag. Fljótlega verður stofnað einhverskonar opinbert félag um uppbyggingu og rekstur kerfisins. Í tillögum sem nú liggja fyrir má sjá að Borgarlínan á að liggja inní Hafnarfjörð frá Engidal líklega um Reykjavíkurveg  í gegnum miðbæinn og þaðan uppá Holt og svo með göngum undir eða brú yfir Keflavíkurveginn á Vellina þar sem verður endastöð. „Þetta er enn á vinnslustigi, verið er að bera saman valkosti og gera faglegar greiningar sem eiga að tryggja að samgönguásinn liggi um þéttbýlustu svæðin þar sem flestir fá hans notið og framtíðarmöguleikar eru um þéttari byggð og uppbyggingu,” segir og minnir á að þetta sé langtímaverkefni og verið sé að horfa áratugi fram í tímann.
hafnarfjararvegur-vi-hraunholt_Með málum

Hagkvæmir uppbyggingarmöguleikar við samgönguásinn

„Þegar horft er á líklega legu Borgarlínunnar verða helstu tækifæri til uppbyggingar nýrrar byggðar og þéttingar gróinna hverfa í Hafnarfirði í ljós. Hraunasvæðið frá Flatahrauni að Engidal er nú þegar komið af stað í endurskipulagningu en Norðurbærinn, hafnarsvæðið og miðbærinn, Holtið og Vellirnir í alltað 400 metra í báðar áttir frá Borgarlínunni verða heitir reitir uppbyggingar og vaxtar næstu árin,” segir Borghildur. Með þessu er ekki ætlunin að bola grónum hverfum eins og iðnaðarhverfinu á Hraununum í burtu, heldur leggja áherslu að það verði hagkvæmt að byggja þar. „Lóðahafar nálægt Borgarlínunni munu hagnast á þessari framkvæmd því verðmæti lóðanna munu aukast mikið.“ Pétur bætir við: „Við viljum líka að fjölskyldur geti smám saman tileinkað sér bíllausan lífsstíl og sparað með því ógrynni fjár. Framtíðin er síðan „car-sharing“ þar sem bílar eru nýttir þann tíma sem nauðsynlega þarf og þeim skilað aftur, eins og tíðkast víða í borgum í Evrópu.“

Fagurfræði og samfélagsleg ábyrgð

„Við uppbyggingu nýrra hverfa inní bænum eins og á hraununum leggjum við áherslu á fjölbreytileika og samfélagslega ábyrgð þeirra sem byggja upp. Við munum gera ákveðnar kröfur til að tryggja blöndun í samfélagslegum strúktúr. Ekki bara að rusla upp fjölbýlishúsum. Við viljum hafa fagurfræði Hafnarfjarðar að leiðarljósi og gera þetta vel,“ segir Borghildur. Pétur segir að vissulega þurfi samhliða að eiga sér stað hugarfarsbreyting til langs tíma varðandi bílaeign og samgöngur. „Við þurfum fleiri vinnustaði í miðbæinn. Þeir búa til mannlífið og þannig ferðaþjónustuna. Þetta snýst um góða blöndu af íbúðum, vinnustöðum, verslun og þjónustu. Ef það bætast við 70 þúsund íbúar á Höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2040, þá er versti óvinur einkabílsins að gera ekki neitt því það þýðir bara enn þyngri umferð með tilheyrandi tímasóun og kostnaði fyrir alla.“

 

Forsíðumynd: Olga Björt

Skýringarmynd: Frá viðmælendum.