Á dögunum opnaði nýr veitingastaður, Bike Cave, í Hafnarborg þar sem áður var Íslenska kaffistofan og Gló. „Síðan opnað var hefur allt gengið framar vonum enda ekki við öðru að búast af Hafnfirðingum,“ segir Stefán Bachmann Karlsson eigandi staðarins.

„Ég er sonarsonur Svenna í Brautarholti, barnabarnabarn Vilborgar í Reykholti og er Hafnfirðingur í þrjá ættliði í það minnsta. Það er því óhætt að segja að ég sé í grunninn lækjarsullari eins og forfeðurnir. Ég bjó fyrsta árið á efri hæðinni að Lækjargötu 9 og fluttist síðan í Lækjarkinn 2. Eitthvað bjó ég uppi á Hrauni og eins nokkur ár í Norðurbænum. Holtið hef ég líka tekið út og Vellina sömuleiðis. Líður samt alltaf best hér við lækinn, þekki hann svo vel allt frá upptökum niður í fjöru. Í dag er ég hins vegar búsettur í merkilegu húsi í Skerjafirðinum í Reykjavík sem byggt var sem KRON í kringum 1940 en kærastan mín hefur átt það hús síðan árið 2000 og verið með ýmsan rekstur þar síðustu 16 árin. Og þar eru höfuðstöðvar Bike Cave.“

Hvernig myndir þú lýsa þér í fjórum orðum?
„Duglegur, hugmyndaríkur, mótorhjóladellukall og dýravinur.“

Hvað er Bike Cave og af hverju Hafnarfjörður?
„Bike Cave er ævintýri sem hófst í húsinu á horninu í Skerjafirðinum fyrir 1 ½ ári í samvinnu við Hjördísi mína en við hittumst í göngutúr á Ægisíðunni í janúar 2014. Það er búið að vera mjög mikið að gera í Bike Cave í Skerjafirðinum og því vorum við spennt fyrir að finna stað fyrir nýjan helli fjarri miðbænum á höfuðborgarsvæðinu. Við hvetjum lesendur til að kíkja á heimasíðuna okkar www.bikecave.is og sjá allt um það hvað við erum að gera. Þar er líka matseðillinn okkar sem ætti að kveikja löngun hjá Hafnfirðingum til að kíkja í heimsókn til okkar í Hafnarborg. Við erum líka á Facebook og Twitter. Við bjóðum reiðhjólafólk og mótorhjólafólk sérstaklega velkomið eins og nafnið gefur til kynna og þeir hópar geta treyst því að fá besta kaffið í bænum hjá okkur án þess að pyngjan léttist of mikið.“

Hvað ætlið þið að bjóða Hafnfirðingum?
„Það sem við stöndum aðallega fyrir er að framreiða alltaf góðan mat á frábæru verði. Við vorum strax ákveðin í því að það væri vel hægt að selja fólki mat á góðu verði því staðreyndin er sú að ef þú færð ódýran mat, þrátt fyrir að hvergi sé slakað á gæðunum, þá leyfir þú þér að koma oftar. Stóri galdurinn er ekki bara sá að ná fólki inn einu sinni heldur að fá það til að koma aftur og aftur. Við leggjum sérstakan metnað í að fólk fari ánægt frá okkur og langi til að koma aftur. Þá gefum við okkur líka út fyrir að taka að okkur stærri viðburði á staðnum, móttöku stærri hópa og jafnvel veisluþjónustu en því höfum við ekki getað sinnt á litla staðnum okkar í Skerjafirðinum. Við hvetjum fólk til að vera í sambandi og kanna hvað er í boði hjá okkur í stóreldhúsinu í Hafnarborg.“

Skemmtilegar uppákomur á nýju ári
„Við tókum við staðnum með ótrúlega stuttum fyrirvara rétt fyrir mánaðamótin og með í kaupunum fylgdi sama kaffihúsa-konsept og á Höfðatorgi í Reykjavík. Við hefðum þurft að geta klónað okkur hjónaleysin. En þar sem það er ekki í boði þá hendum við okkur í botnlausa vinnu í einhverjar vikur. Eftir áramótin mun Íris Andrea dóttir okkar taka við staðnum í Hafnarfirði og Kushu vinkona okkar tekur við staðnum á Höfðatorgi. Og þá fer Bike Cave í Hafnarfirði vonandi að komast í fastar skorður og við getum farið að huga að einhverjum skemmtilegum uppákomum á nýju ári.“