Í framhaldi af frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi um afhendingu námsgagna í Víðistaðaskóla vill Hafnarfjarðarbær kom á framfæri eftirfarandi:

Eins og kom fram hefur komið í fréttum bæði í sumar og núna í september var það samþykkt í Fræðsluráði Hafnarfjarðarbæjar að grunnskólaganga í bæjarfélaginu yrði gjaldfrjáls. Ákvörðunin var þverpólitísk, í kjölfarið var verkefnið boðið út og var Penninn Eymundson með hagstæðasta tilboðið og tók jafnframt að sér að útvega gögnin.

Ljóst var að tíminn var knappur en bærinn og birginn treystu sér til að útvega gögnin í tíma. Fyrstu vikurnar í byrjun skólaársins bárust skólum í Hafnarfirði vörurnar jafnt og þétt en í byrjun mánaðar, þegar skólar í bænum áttu að vera komnir með allar vörurnar, fór það að koma í ljós að afhending gagna hafði misfarist í Víðistaðaskóla.

Þrátt fyrir athugasemdir frá skólanum og starfsfólki á Fræðslu- og frístundaþjónustu bæjarins taldi birginn að vörurnar væru komnar eða væru á leiðinni. Um það var tekist í óþarflega langan tíma og þolinmæði kennara og starfsfólk skólans brást í lok síðustu viku. Í kjölfarið gerði birginn sér grein fyrir að mannleg mistök hefðu verið gerð hjá þeim í afhendingarferlinu og hófst hann þá samstundis handa við að klára afhendinguna.

Um leið og það var ljóst fór bæjarstjórinn á fund með kennurum og starfsfólki skólans til að koma á framfæri þökkum til þeirra fyrir að halda skólastarfinu gangandi við þessar aðstæður. Á fundinum var líka rætt hvaða lærdóm mætti draga af þessu til að bæta ferla fyrir næsta ár.

Fulltrúar Pennans hafa komið á framfæri bæði við skólastjórnendur og annarra starfsmanna sem að ferlinu komu að þeir harmi þessu leiðu mistök og nú verði allt gert til þess að bæta úr þessu. Penninn afhenti stærsta hluta óafgreiddu gagnanna í morgun og nú er verið að vinna hörðum höndum við það að koma gögnunum inn í bekkina til barnanna. Restin verður afhend eftir hádegi.

Þessi röð atvika er þó með þeim hætti að Hafnarfjarðarbær ætlar að skoða innri verkferla og sjá hvort það er eitthvað sem hefði geta farið betur í samskiptum við birgjann og taka megi þá reynslu inn í undirbúning næsta vetrar.

Í framhaldi af því verður settur saman vinnuhópur skipaður fulltrúum kennara, skólastjórnenda, Fræðslu- og frístundaþjónustu og kjörinna fulltrúa til að undirbúa útboð, innkaup og afhendingu gagna fyrir næsta skólaár.

Bæjarstjóra, sviðstjóra, skólastjóra og stjórnendum Víðisttaðaskóla finnst mikilvægt að það komi fram að kennararnir í skólanum hafa staðið sig sérstaklega vel og verið útsjónasamir við þessar aðstæður og það er þeim að þakka að skólastarfið hefur gengið vel. Þeir eiga hrós skilið fyrir það og nemendur líka sem hafa verið jákvæðir þó þeir hafi saknað þess að hafa ekki fengið öll skólagögnin strax.

 

Meðfylgjandi er mynd frá því í morgun þar sem Anna Kristín Jóhannesdóttir aðstoðarskólastjóri Víðistaðaskóla og starfsmenn skólans og bæjarins yfirfóru sendinguna frá Pennanum.