Vigdís Pálmadóttir

Íslandsmótið í áhaldafimleikum fór fram helgina 7.-8. apríl. Þar kom allt fremsta fimleikafólk landsins saman og sýndi frábær tilþrif. Fimleikafélagið Björk var áberandi á mótinu og tók með sér fjölda verðlauna heim af mótinu.

Í kvenna­flokki átti Björk sex keppendur. Þar tryggði Mar­grét Lea Kristinsdóttir sér Íslandsmeist­ara­titil­inn á slá og gólfi, báðum áhöld­un­um sem hún keppti á í úr­slit­um. Glæsi­legur ár­ang­ur hjá Mar­gréti sem er á sínu fyrsta ári í full­orðins­flokki, aðeins 15 ára. Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir keppti til úrslita á stökki og hlaut þar silfurverðlaun. Lilja Björk Ólafsdóttir varð í þriðja sæti í úrslitum á gólfi.

Margrét Lea Kristinsdóttir.

Í stúlknaflokki kepptu fimm stelpur fyrir Bjarkirnar. Fimleikafélagið sigraði þrefalt í fjölþrautarkeppninni, þar sem Vigdís Pálmadóttir varð Íslandsmeistari unglinga, Guðrún Edda Min Harðardóttir í öðru og Emilía Sigurjónsdóttir í því þriðja. Vigdís stóð einnig uppi sem sigurvegari á tvíslá, stökki og gólfi í úrslitum á áhöldum. Guðrún Edda varð Íslandsmeistari á slá. Emilía Björt Sigurjónsdóttir hlaut silfurverðlaun fyrir gólfæfingar og hafnaði í þriðja sæti á tvíslá.

Stefán Ingvarsson í 3. sæti í fjölþraut.

Í fullorðinsflokki karla endaði Stefán Ingvarsson í þriðja sæti í fjölþraut. Hann hlaut einnig þriðja sætið á stökki, tvíslá og svifrá í úrslitum á einstökum áhöldum. Breki Snorrason hlaut bronsverðlaun fyrir fjölþraut í unglingaflokki karla. Hann keppti svo einnig í úrslitum á fimm áhöldum. Orri Greir Andrésson komst í úrslit á gólfi og stökki. Frábær árangur hjá fimleikafólkinu í Björk og verður spennandi að fylgjast með þessum krökkum í framhaldinu. Framtíðin er svo sannarlega björt hjá Björk.

Breki Snorrason í 3. sæti æi fjölþraut unglinga.

 

Aðsendar myndir.