Árdís Ármannsdóttir er samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar og meðal þeirra fjölmörgu sem koma að skipulagningu og framkvæmd Jólaþorpsins. Hún er sveitastelpa sem ætlar sér að verða Hafnfirðingur og hvetur Hafnfirðinga til að bjóða heim í hátíðarkaffi og nýta Jólaþorpið sem vettvang til skemmtilegra menningarferða á aðventunni.

Árdís er fædd og uppalin á Myrkárbakka í Hörgárdal í faðmi djáknans á Myrká og undir Hraundranga Hörgárdalsmegin. „Ég var í Þelamerkurskóla öll mín grunnskólaár, útskrifaðist 1997 frá Menntaskólanum á Akureyri og eftir það lá leið mín bæði til Austurríkis þar sem ég vann og brettaði í tæpt ár í góðra vina hópi og til framtíðarbúsetu sunnan heiða við frekara nám og vinnu. Ég er mikil sveitastelpa í grunninn en síðustu árin hef ég markvisst verið að vinna mér inn þann titil að verða Hafnfirðingur enda tengdafjölskylda mín öll meira og minna búsett í Firðinum og við fjölskyldan búin að vera það líka síðustu fjögur árin. Maðurinn minn heitir Agnar Angantýsson, sviðsstjóri viðhaldsstýringar hjá Icelandair á Flugvöllum og saman eigum við þrjú börn: Ásdísi Laufeyju 17 ára, Evu Huld 15 ára og Arnþór Mána 10 ára.“

Samskiptastjórinn
Árdís tók við sem samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar fyrir rúmlega ári síðan. Hvað felst í slíku starfi? „Eitt af mínum aðalhlutverkum er að upplýsa íbúa og aðra hagsmunaaðila um starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins og stuðla að lýðræðislegri þátttöku. Vönduð meðferð og miðlun upplýsinga er lykillinn að vandaðri ákvarðanatöku og upplýstu samfélagi. Saman sköpum við svo þá ímynd sem við viljum að Hafnarfjörður sé þekktur fyrir; djúpstæða sögu og menningu, náttúrufegurð, heilsu, hnyttni og það að vera fjölskylduvænn og aðlaðandi bær fyrir íbúa og fyrirtæki.“

Bjóðum heim í hátíðarkaffi
Hafnarfjarðarbær á og rekur Jólaþorpið í Hafnarfirði. Verkefnastjórn Jólaþorpsins er í höndum tveggja starfsmanna bæjarins sem hafa fimm manna stýrihóp á bak við sig. En hvernig varð Jólaþorpið til?
„Hugmyndin er þýsk að uppruna og hefur í þau fjórtán ár, sem það hefur verið við lýði, tekið umtalsverðum breytingum. Þorpið hefur þróast úr því að vera heimilisleg jólahátíð fyrir Hafnfirðinga í það að vera heimilisleg fjölskylduhátíð fyrir landsmenn alla og í auknum mæli fyrir erlenda ferðamenn. Umfangið hefur vaxið og jólahúsin, sem rísa á Thorsplani og á Strandgötunni, hafa sjaldan verið eins fjölbreytt og vinsæl og í ár. Undirbúningur tekur nokkrar vikur enda leggjum við mikinn metnað í að þorpið verði ár hvert sem glæsilegast. Þessi metnaður er að skila okkur aukinni aðsókn og mikilli umfjöllun á landsvísu. Við erum mjög stolt af Jólaþorpinu sem hefur stimplað sig inn sem vinsæl bæjarhátíð að vetri til.“
Árdís bætir við að Hafnfirðingar séu í auknum mæli farnir að átta sig á þeim tækifærum sem Jólaþorpið gefur og farnir að líta á miðbæ Hafnarfjarðar sem vettvang til menningar- og upplifunarferðar á aðventunni. „Við höfum frétt af heilu stórfjölskyldunum og vinahópunum sem skipuleggja hátíðarkaffi í heimahúsi, ganga svo í bæinn með hópnum og njóta þess að hitta síkáta sölumenn í jólahúsunum, ganga á milli verslana á Strandgötunni, líta í Hafnarborg á listsýningu og enda menningarferðina í Firði í ókeypis myndatöku í boði Desæna setursins til að festa þessa góðu stund á filmu. Upplifunin er einstök og skemmtileg. Það er t. a. m. ekki oft sem maður fær tækifæri til að rúnta um miðbæ Hafnarfjarðar í hestvagni. Við hvetjum því Hafnfirðinga eindregið til þess að bjóða heim á aðventunni.“

Einstakur bær
Árdís segir Hafnarfjörð vera einstakan bæ sem búi að sérstöðu og sérkennum sem við megum vera ákaflega stolt af. „Við eigum okkar eigin miðbæ, heillandi hafnarsvæði með mikla sögu og fallegar náttúruperlur bæði miðsvæðis og rétt fyrir utan bæinn. Hellisgerði er hulin ævintýraperla og Víðistaðatún stór leikvöllur fyrir alla fjölskylduna bæði að sumri og vetri til. Hamarinn veitir okkur frábært útsýni yfir bæinn og róleg stund í kyrrðinni við Hvaleyrarvatn er kjörin til að hlaða batteríin fyrir eða eftir vikuna. Sérstakastur þykir mér nú samt allur mannauðurinn sem býr í hafnfirsku samfélagi. Hér búa heilt yfir einstaklingar sem elska bæinn sinn og virða og skilar það eitt sér margfalt beint inn í samfélagsandann. Já, ég er orðin ansi stoltur Hafnfirðingur með „hörgdælskan“ bakgrunn.“

Mynd: Óli Már

F.v. Ragna Rut Magnúsdóttir, Bára Kristín Þorgeirsdóttir, verkefnastýrur Jólaþorpsins og Árdís Ármannsdóttir, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar.