Þegar flugið er tekið innanlands, eins og segir í auglýsingunni, blasa þeir hvarvetna við bláu hringirnir. Það mætti halda að þetta fyrirbæri tengdist á einhvern hátt lífsnauðsynjum okkar Íslendinga, að enginn geti án þess verið. Það mætti dunda sér við að telja þá í góðu skyggni en það yrði til að æra óstöðugan því þá er að finna um allar koppagrundir.

Flestir eru sammála um að lítil prýði sé af trampólínunum okkar. Svo ekki sé talað um þegar þau eru komin til ára sinna, ryðguð, upplituð og slitin. Það hlýtur samt að vera einhver skýring á því að þau séu „flest í heimi miðað við höfðatölu“.

Húsmóðirin á þessu heimili hefur ­hnuss­að mikið og hneykslast á þessu fyrirbæri, enda smekkkona sem leggur nokkuð upp úr því að hús og garður líti sæmilega út. Trampolín í yfirstærð skyldi aldrei koma nálægt hennar húsi. Kaffið frussaðist því pínulítið út um vinstra munnvikið þegar hún sá fimm fíleflda karlmenn bera stærðarinnar pakka inn í garðinn á afmælisdegi yngsta afkvæmisins.

Starfsmenn byggingarvöruverslunarinnar báru mikla umhyggju fyrir afa gamla sem keypti útileikfangið. Sögðust ekki mæla með því að hann prófaði það sjálfur. Hann vissi ekki almennilega hvort hann ætti að þakka þeim fyrir eða gefa þeim einn á hann. En að sjálfsögðu stökk hann á netið þegar hver og einn gestur í afmælisveislunni hafði bisað við að koma ferlíkinu upp og vakti mikla kátínu barnabarnanna. Frænka á besta aldri gerði sér svo lítið fyrir og prófaði nokkur karatespörk í lausu lofti. Afmælisbarnið, fjögurra ára,  horfði andaktugt á en sagði svo: þú ert svolítið feit!

Nú styttist í haustlægðirnar og ekki laust við að dulítill verkkvíði geri vart við sig hjá húsfreyjunni. Það er nefnilega ekkert grín að pakka ferlíkinu saman og koma því fyrir án þess að þurfa fórna gömlu myndaalbúmunum og öllu útilegudótinu í geymslunni. Mikið verða indælu nágrannarnir fegnir þegar því verður lokið. Þeir hafa aldrei kvartað þó að það sé hopp og hí fyrir utan svefnherbergisgluggann jafnt að kvöldi sem að morgni.

Þrátt fyrir það og þó að garðurinn minni lítið á rómantísku garðana í glanstímaritunum – minnir frekar á útisvæðið í Rúmfatalagernum, þá er skemmst frá því að segja að umrædd húsmóðir hefur tekið bláa hringinn í sátt og er bara ekki frá því að grindarbotnsvöðvarnir hafi styrkst eilítið í sumar.