2018 verður mikið blakár í Hafnarfirði. Fjölgun iðkenda í blaki hefur verið mikil og iðkendur aldrei verið fleiri en nú í byrjun árs. Óskað hefur verið eftir því við aðalstjórn Hauka að blakdeildin verði viðurkennd sem formleg deild innan félagsins, en er nú skráð sem almenningsdeild. Breytingin myndi styrkja stöðu blakdeildinarinnar en ekki síður byggja upp nýjan og áður óséðan aldurshóp meðal iðkenda Hauka og hafa þar með mikil áhrif á innviði félagsins.

Blakdeildin býður nú nýliðum (+18 ára) til að skrá sig á vorönn og geta bæði konur og karlar gert það í tölvupósti blakhauka@gmail.com.

Nú eru fjögur lið á Íslandsmóti Blaksambands Íslands, þrjú kvennalið og eitt karlalið. Öll þessi lið verða á faraldsfæti um næstu helgi, tvö þeirra fara á Flúðir, eitt verður í Kópavogi og karlaliðið fer á Neskaupsstað. Í dag eru þrír vel þekktir þjálfarar innan blaksins og allir með þjálfararéttindi, það eru þeir Karl Sigurðsson, aðalþjálfari, Egill Þorri Arnarsson og Sergej Diatlovic. Tveir síðarnefndu eru báðir að spila í Úrvalsdeild fyrir HK og Fylki.

Það er mikill kostur að geta boðið upp á blak í Heilsubænum Hafnarfirði, þetta er ein af fáum hópíþróttum sem fólk á öllum aldri getur stundað. Einnig hafa hafnfirskir blakarar verið að stunda strandblak á sumrin sem er virkilega áhugaverð grein innan blaksins og spennandi viðbót við blakárið. Hópur áhugafólks um strandblak  sendi formlega ósk til Hafnarfjarðarbæjar um að setja upp strandblaksvöllum í garðinn hjá Suðurbæjarlaug, hópurinn hefur fulla trú á að Hafnarfjarðarbær taki jákvætt í þess beiðni. En að setja strandblaksvöll í garðinn á laugina mun auka aðsókn í laugina til muna líkt og hefur sýnt sig í Laugardagslaug og Árbæjarlaug.

Öllum áhugasömum er bent á facebook síðu deildarinnar „Blakdeild Hauka“ og tölvupóst blakhauka@gmail.com.