Sigurður Hallur Stefánsson lögfræðingur starfaði sem dómari frá tuttugu og fimm ára aldri til sjötugs, m.a. í Hafnarfirði og síðustu rúm sextán árin sem héraðsdómari í Reykjavík. Fljótlega kemur út kvæðabókin Lífsblóm eftir Sigurð, en efni bókarinnar varð til á sextíu ára tímabili, allt frá því hann var sautján ára nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík. Þetta er fyrsta bók Sigurðar.

 „Ég er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og hef alið hér allan minn aldur. Foreldrar mínir voru þau Stefán Jónsson og Ragnheiður Hulda Þórðardóttir. Eiginkona mín er Inga María Eyjólfsdóttir og eignuðumst við tvo syni, Eyjólf Rúnar, sem andaðist fyrir nokkrum árum, og Huldar Örn. Við áttum lengst heima á Selvogsgötu 2 en undanfarinn áratug að Fjarðargötu 17,“ segir Sigurður og bætir við að hann hljóti því að teljast vera rótgróinn Hafnfirðingur, jafnvel Gaflari! „Af því leiðir að mér er sérstaklega hugleikið að kvæðið Heimahagar Hafnfirðings komi fyrir sjónir Hafnfirðinga, en lítið af efni bókarinnar hefur birst opinberlega.“

Kvæði og kjarnyrði

Útgefandi bókarinnar er Almenna bókafélagið og skiptist efnið í tvo jafnstóra meginflokka: kvæði og kjarnyrði. Kvæðin skiptast í þessa flokka: I. Af ýmsum toga. II. Ferðalög. III. Þýðingar. IV. Frá unglingsárum. Kjarnyrðin eru 160. Dæmi: „Afrek eru aldrei unnin í vinnutímanum. „Listaverk  úr gulli. Listaverk úr grjóti.“ „Ef þú eltist við hamingjuna er hætt við að þið farið á mis.“ „Mundu að fletirnir eru fjölmargir og lífið verður gimsteinn.“

 

Hér fylgir með kvæðið Heimahagar, í styttri útgáfu:

 

HEIMAHAGAR HAFNFIRÐINGS
BROT (7 erindi af 12) 

 

Svo ber til að ég reyni að ríma

sem raunar mun verða gert í flaustri

af því að ósköp tæpan hef tíma.

Tunglið er horfið. Sól í austri.

 

Nábúinn gamli gullkorn sín leggur

við götuna fyrir smáfuglager.

Á lækjarhyl siglir stokkandarsteggur,

stoltur hann fyrir hóp sínum fer.

 

Ásjónur fólksins frómlyndi lýstu;

fiskimenn, kaupmenn, öldungar, börn

og gjöfular konur. Kindastofn hýstu

kofar við álftröð, hamar og tjörn.

 

Fákænir, baldnir, forvitnir sveinar

forsjálir reyndust samhjálparmenn.

Mannlífsflóran og menningargreinar

megi hér blómgast langa tíð enn.

 

Við grjóthleðslu stíga gerðust menn tregir

og gata var síðan lögð hér úr möl.

Um hraunið liggja nú hraðferðavegir

og höll má sjá þar sem öldnum býðst dvöl.

 

Haustblæja fögur heimsmyndir þekur,

hríslast um taugar grunur um vá:

Lim trjánna falli. Lífstrú þó vekur

er laufskrúð við fáum aftur að sjá.

 

Veit ég að bráðum birtan mun dofna

í byggð sem oft skóp oss ævintýr glæst.

Í hraunbollarjóðri helst vil ég sofna.

með himin í augsýn, sædjúpi næst.