Bókasafn Hafnarfjarðar kynnir með stolti nýja taupoka sem framleiddir voru af fyrirtækinu Motif í Hafnarfirði og eru komnir í sölu í afgreiðslu bókasafnsins. Hafnfirðingurinn og listamaðurinn Halldór Rúnarsson gaf góðfúslegt leyfi til afnota á mynd sinni Sporður sem prýðir taupokana ásamt merki bókasafnsins.

„Það var einfaldlega kominn tími á þetta, skilst mér. Bókasafnið hefur lengi vel ætlað að láta framleiða fyrir sig fjölnota poka, bæði til að mæta eftirspurn og eins til að leggja sitt af mörkum til náttúruverndar. Ég var bara svo heppinn að fá að taka þátt í þessu með þeim, segir Halldór í stuttu spjalli við Fjarðarpóstinn. Síðastliðin ár hefur Halldór fengið að nýta sér þá þjónustu sem Bókasafnið býður uppá. „Það er mjög ánægjulegt að fá að gefa eitthvað til baka. Og bókasafnskortið sem ég er með í vasanum verður sennilega ein besta fjárfesting mín á þessu ári.“

Mynd: OBÞ

Arna Rós Arnarsdóttir, deildarstjóri á Bókasafni Hafnarfjarðar.