Á hjúkrunarheimilinu Sólvangi var í nógu að snúast í aðdraganda jólanna. Á föstudögum í desember bakaði heimilisfólk  ásamt starfsfólki Sólvangs og sjálfboðaliðum frá Rauða krossinum hátt í 3000 smákökur sem við nutum öll góðs af.

Bökunarilmurinn var um alla ganga og margar góðar minningar rifjuðust upp. Einnig voru litlu jólin haldin þar sem drukkið var hátíðarkaffi og Borgardætur komu okkur svo sannarlega í jólaskapið með einstaklega fallegum jólalögum. Kórinn Hljómur kom í heimsókn og haldnar voru aðventustundir, jólabingó, harmonikkuball með Friðjóni ásamt því að karlakórinn Þrestir söng.

„Við á Sólvangi leggjum áherslu á að skapa jákvætt og fjölbreytt félagslegt umhverfi fyrir heimilisfólkið okkar. Félagsstarfið er ekki síst mikilvægt fyrir aðstandendur þar sem þeir geta átt gæðastundir með sínum nánustu. Við lítum björtum augum til ársins 2018 og erum full tilhlökkunar að flytja í nýtt húsnæði en stefnt er að opnun nýs hjúkrunarheimilis í árslok 2018. Starfsfólk Sólvangs óskar bæjarbúum farsældar á nýju ári. Megi nýja árið reynast ykkur öllum gæfuríkt.“

Fallegt útsýnið yfir lækinn. 

Myndir aðsendar.