Rithöfundurinn og leikarinn Gunnar Helgason hlaut á dögunum viðurkenningu Jónasar Hallgrímssonar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu. Í umsögn kom m.a. fram að Gunnar hefur nýtt listræna hæfileika sína í þágu barna og unglinga, m.a. með sjónvarpsþáttum og heimsóknum í skóla en umfram allt sem höfundur barna- og unglingabóka. Við náðum tali af Gunnari sem staddur var í Færeyjum, en hann gaf nýverið út bókina Amma best.  

„Þetta er klapp á bakið fyrir mín störf sem rithöfundur og gaman að fá svona öðruvísi viðurkenningu. Við í Síung (Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda) höfum verið svolítið dugleg í að sjást, standa að málþingum og tala um mikilvægi læsis. Ég lít því á þetta sem viðurkenningu til allra góðra barnabókahöfunda. Ég fæ þetta líklega vegna þess að það er svo mikill hávaði í mér og ég hef verið heppinn með að skrifa bækur sem krakkar vilja lesa,“ segir Gunnar, sem tekur ofan fyrir íslenskum barnabókahöfundum í tímans rás. „Þetta er ekki gömul grein á íslandi. Ég man alveg hvernig var að lesa nýjar íslenskar bækur á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Það var ótrúlegt hvernig höfundar nenntu þessu því þetta gaf ekki mikið í aðra hönd. Þetta hefur í raun alltaf verið mikið hugsjónastarf og er enn í dag. Ármann Kr. Ólafsson og Guðrún Helgadóttir einbeittu sér að því að skrifa fyrir börn og það var alveg stórkostlegt. Á því byggja nútímahöfundar eins og ég sjálfur.“

Gunnar fer víða í skóla og talar við nemendur. 

Lesendur spegli sig í sögunum

Sem barn og unglingur segist Gunnar muna að honum hafi fundist miklu skemmtilegra að lesa bækur þar sem sögurnar gerðust á Íslandi. „Meira að segja fantasíur í manns eigin raunveruleika. Þær voru skemmtilegri en þær sem gerðust í útlöndum. Maður fékk á tilfinninguna að það væri verið að skrifa um mann sjálfan og heiminn sem maður bjó í. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir unga bókalesendur að þeir tengi við efnið og söguumhverfið. Geti séð sig í aðstæðunum. Það er t.d. ótrúlega gaman að sjá Halla í Pollapönk koma núna með barnabók; mann sem hefur unnið fyrir börn þessa lands í langan tíma.“

Hægt að auka lestur á auðveldan hátt

Gunnar bendir á að íslenskar barnabækur séu heimsklassabækur og hafi unnið til fjölda verðlauna, bæði hérlendis og erlendis. „Það má eiginlega segja að það sé plan A að láta börn lesa íslenskar bækur plan B að láta þau lesa allar bækur.“ Einnig eigi að vera hvetjandi fyrir fólk að skrifa barna- og unglingabækur. Hann hvetur því menntamálaráðuneytið og verðandi ríkisstjórn til að bóka fund með stjórn Rithöfundasambands Íslands og ræða hvað þarf að gera til að auka lestur barna. „Það er hægt að gera margt fyrir ótrúlega lítinn pening og leysa mörg vandamál með svo lítilli fyrirhöfn. Það þarf bara gefa sér tíma í að hlusta á okkur. Það eru tugir barnabókahöfunda sem bíða eftir viðurkenningu og stuðningi og jafnvel rithöfundarlaunum. Það gæti komið í veg fyrir atgervisflótta úr greininni og að þeir fari að skrifa fyrir fullorðna til að fá eitthvað tímakaup,“ segir Gunnar.

 

Mynd af Gunnari: Sirkustjaldið.