Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum. Um leið og við þurfum að hvetja þau til dáða og skapa þeim tækifæri til að efla sig í gegnum áhugasvið sín og styrkleika þurfum við líka að gæta þeirra vel og vernda þau. Skólinn er þeirra vinnustaður. Þangað fara þau til að búa sig undir framtíðina. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og svo fikra þau sig áfram þar til þau útskrifast úr grunnskóla. Þegar þau ná þeim tímamótum viljum við að þau séu undirbúin til þess að velja sér frekari farveg til framhaldsmenntunar og þátttöku í atvinnulífi. Til þess að ná því að undirbúa þau á þessum árum þarf að hlúa vel að skólakerfinu og styðja við bakið á kennurum. Það þarf að hafa öflugan stuðning inni í skólunum og tæki til að sinna þörfum ólíkra einstaklinga því ekki gengur að steypa alla í sama mót. Við viljum styðja við og efla skólakerfið. Börnin okkar eru framtíðin, það er okkar skylda að gera eins vel og við getum til að efla þá framtíð.

 

Bjarney Grendal Jóhannesdóttir

Höfundur skipar 2. sæti fyrir Miðflokkinn í Hafnarfirði