Að undanförnu hafa tónleikar á toppum Esju og Úlfarsfells vakið athygli og lukku. Ungir sem aldnir hafa hópast í göngu (eða í þyrluferð) og notið samveru í íslenskri náttúru á löngum sumarkvöldum.

Tónleikarnir á Úlfarsfelli í lok maí þóttu heppnast einstaklega vel, enda varið veðrið með besta móti og viðburðinum vel stýrt af fulltrúum Ferðafélags Íslands í tilefni af 90 ára afmæli þess í ár.

Ég hef áður dásamað fellin og fjöllin hér í kring, enda gengið þau nokkrum sinnum og heillast alltaf jafn mikið af náttúrunni, umhverfinu og útsýninu. Ég mæti fólki á ýmsum aldri og hef tekið eftir hvað fulltrúar ungu kynslóðarinnar eru duglegir að drífa sig frá tölvunum og þramma af stað.

Nú veit ég að í Hafnafirði býr fjölmargt hæfileikaríkt og skemmtilegt tónlistarfólk og gaman væri að hóa nokkrum þeirra saman á fallegu virku sumarkvöldi og efna til viðburðar, n.k. okkar eigin „brekkusöngs“ á Ásfjalli (minnsta fjalli á Íslandi!) eða í brekkunni ofan við Ástjörn. Þangað liggja göngustígar víða úr Hafnarfirði og einnig er hægt að leggja bílum við leikskólana Stekkjarás, Tjarnarás og Áslandsskóla. Það yrði örugglega nóg að koma með gítara og magnara. Þau sem eiga hristur geta tekið þær með sér. Og þetta þarf ekki að vera lengra en klukkutími (15 lög).

Okkar heilsueflandi sveitarfélag yrði t.d. tilvalinn styrktaraðili (þetta getur ekki kostað mikið!) og þannig stuðlað að enn fleiri vímulausum samverustundum fjölskyldna. Það gerast bara einhverjir töfrar þegar við drífum okkur út fyrir malbikið. Allir velkomnir og allir með! Boltinn yfir til ykkar!