Söngkonan Guðrún Árný Karlsdóttir heldur tónleika í Víðistaðakirkju 13. desember nk. ásamt barna- og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju. Gestasöngvarar verða þau Hreimur Örn Heimisson, Jógvan Hansen, Soffía Karls og Arnar Jónsson. Gítarleikari verður Pétur Valgarð Pétursson.

„Ég er mikið jólabarn og hef í raun alla tíð verið mjög upptekin í desember við að sinna jólaundirbúningi og að syngja. Þegar ég var í grunnskóla var ég í kór Öldutúnsskóla og fór með kórnum hingað og þangað að syngja. Á aðfangadag fórum við t.d. í mörg ár og sungum fyrir gamla fólkið á St. Jósefsspítalanum,“ segir Guðrún Árný þegar hún rifjar upp ferilinn. Einnig söng hún í mörg ár á hinum ýmsu jólatónleikum en núna í fyrsta skipti þar sem yfirskriftin er hún sjálf. „Mér finnst bara ekkert jólalegra en að syngja jólalög með kór. Umgjörðin þarf ekki að vera flókin; bara kertaljós, seríur, fallegur söngur og undirleikur.“

   Aðstaðan heima hjá Guðrúnu Árnýju þar sem margar jólagjafir verða til. 

Býr til jólagjafirnar sjálf

Guðrún Árný segir tilhlökkunina vera mikla en hún sé með dálítinn spennuhnút í maganum. „Ég er að reyna að njóta þess fram í fingurgóma að undirbúa þetta vel. Ég er í frábærum félagsskap þar sem Friðgeir Bergsteinsson er mín hægri hönd. Ég er að verða búin að undirbúa jólin mín, búa til allar jólagjafir, pakka þeim inn og skreyta allt nema jólatréð svo ég þarf ekki að gera neitt annað í desember en að vera með börnunum mínum og syngja,“ segir hafnfirska söngkonan alsæl að lokum. Guðrún Árný mun einnig koma fram í jólaþorpinu 10. desember með fyrrnefndum kór kl. 14:30 og svo á jólaballi strax á eftir kl. 15.

 Myndir af Guðrúnu Árnýju: Krissý Stúdíó.