Kjartan Theódórsson, eða Kjarri tjaldbúi eins og hann kallast þessa dagana, hefur búið ásamt unnustu sinni í tjaldi á Víðistaðatúni síðan í júlí, eftir að hafa þurft að hætta að vinna í kjölfar hjartaáfalls. Hann hefur vakið athygli fyrir umbúðalaus „snöpp“ sín sem eru þó krydduð með húmor að hans hætti. Kjartan vill vekja athygli á aðstæðum húsnæðislausra Íslendinga og hann segir að þeim fari fjölgandi á næstu vikum og mánuðum.

„Ég er með snapp og byrjaði að vekja athygli á mér og aðstæðum sem fólk neyðist til að búa við. Skúli Jóa snappari kom í heimsókn og vakti athygli á mér og þá fór boltinn að rúlla,“ segir Kjartan og tekur fram að hann vilji ekki vera með væl því hann hafi í og með húmor fyrir aðstæðum sínum. „Ég vil að fólk skemmti sér við að horfa á mig en skilji samt það sem ég vek athygli á. Ég er ekki feiminn en ég er reiður inni í mér því það þarf að opna þessa umræðu og opna augu ráðamanna fyrir því að almenni leigumarkaðurinn er í rugli og fólk er að fara á götuna.“

2

Kjartan segir að það væsi ekki um parið í tjaldinu góða. 

Þriðja hjartaáfallið

Kjartan starfaði lengst af sem sjómaður, í 22 ár, og síðast verkstjóri hjá fiskvinnslufyrirtæki og þau hjúin hafa búið hér í bæ síðan 2013. „Ég hef alltaf staðið mig vel í vinnu og unnið mikið. Svo fékk ég þriðja hjartaáfallið á ævinni í maí sl. og fór í aðgerð. Læknirinn sagði mér að núna yrði ég bara að hvíla mig. Ég veit ekki hvort ég mun hafa þrek til að vinna aftur en ég veit að mig langar ekki að verða öryrki. Mig langar að vinna við eitthvað sem ég mun hafa þrek til.“

Kjartan og unnusta hans leigðu íbúð hjá fyrrum vinnuveitanda hans og vegna óvissu um hvort Kjartan starfað aftur hjá honum spurði fyrrum vinnuveitandinn hvort hann mætti biðja parið um að flytja úr íbúðinni til að hægt væri að nýta hana fyrir annan starfsmann. „Ég sagði það ekkert mál því ég átti ekki von á öðru en að fá annað húsnæði. Það hefur bara ekki gengið upp, við misstum íbúðina í júlí og ég var tekjulaus.“

5

Sáttur tjaldbúi við „skóginn sinn“ 

Greiða umsamda langtímaleigu

Unnusta Kjartans fékk í sumar vinnu í Hafnarfirði og hjúin ákváðu að gefa húsgögnin sín og innbúið og kaupa tjald í Sport Direct. „Þetta er svona tjald sem fjallafólk á Everest notar og þolir ýmsilegt. Við byrjuðum að dvelja hér á Víðistaðatúni og hér líður okkur ágætlega. Starfsfólkið hér er yndislegt og gerði okkur tilboð á langtímagjaldi með rafmagni. Svo er aðstaða hér á hótelinu til að elda og hreinlætisaðstaða hér við hliðina. Við kvörtum ekki!“ Á Víðistaðatúni búa að sögn Kjartans fjórir aðrir einstaklingar, einn þeirra með hund, og þetta fólk sé ekki reiðubúið að stíga fram eins og hann.

Félagi Kjartans benti honum á að tala við stéttarfélagið sitt því hann hlyti að hafa einhvern rétt fyrst hann var að jafna sig eftir veikindi. „Ég fór til þeirra hjá Hlíf og var vel tekið og ég fyllti út öll nauðsynleg gögn. Ég fæ því tímabundið 80% af laununum sem ég var með þegar ég veiktist. Við erum engir fátæklingar, bara venjuleg fjölskylda sem hefur ekki efni á því að leigja íbúð á almennum leigumarkaði. Það er verið að leigja 10 fm herbergi fyrir tvo leigjendur fyrir 115 þúsund. Tjaldið okkar er nánast af sömu stærð!“

4

Stundum er grillað þótt aðstaða sé á hótelinu rétt hjá til að elda. 

7

Kjartan er alsæll með salernis- og hreinlætisaðstöðuna. 

Leyfði einstæðri móður að fá íbúð

Kjartan segist ekki taka þátt í slíku okri og muni frekar safna sér fyrir gömlu hjólhýsi eða tjaldvagni til að hafa það aðeins betra í vetur, en þeim hjúum bauðst lítil íbúð á dögunum frá manni sem vildi hjálpa og leigja á sanngjörnu verði. „Á sama tíma hafði einstæð móðir samband við mig og sagði mér sögu sína. Hún er einstæð með tvö börn, annað þeirra lungnaveikt. Ég vildi miklu frekar að hún fengi íbúðina. Sem betur fer þáðu hún boðið. Við erum bæði mjög gjafmild og höfum alltaf hjálpað öllum eins og við getum. Ef ég væri milljónamæringur þá myndi ég kaupa hjólhýsi og búa til hjólhýsabyggð á fallegum stað fyrir heimilislausa. Það eru líka víða vöruskemmur á landinu sem væri hægt að gera vistlegar og hólfa af með svefnpokaplássum og svo kæmi einhver einstaklingur sem gæti eldað súpu ofan í liðið. Þá gæti fólk allavega sofið einhvers staðar. Það er ástæða fyrir því að fólk leitar í áfengi og fíkniefni sem er heimilislaust. Því verður ekki eins kalt og deyfir líðan sína.“

Kjartan segir að langtímamarkmið hans um þessar mundir sé að koma lífi hans litlu fjölskyldu á réttan kjöl aftur. „Ég vil samt ekki til að láta vorkenna mér og unnustu minni. Við höfum það fínt miðað við marga aðra. Ég vil berjast með snappið að vopni, með hjálp fjölmiðla, til að sýna fram á að það er fjöldinn allur af fólki heimilislaus á Íslandi og enn fleiri eru við það að bætast í þann hóp á næstu mánuðum. Það hafa margir haft samband við mig til að segja mér það.

6

Tjaldstæðið á Víðistaðatúni. 

Hafa áður lent á götunni

Kjartan og unnustan hafa gert tjaldið hlýlegt og vistlegt og blaðamaður tók eftir fallegum blómvendi á borði. „Já, unnustan var þrítug í gær og ég fór Nettó og keypti blóm, köku og tvö kerti með tölunni 30 á og kom henni á óvart þegar hún kom heim í gær. Keypti líka þrjá eyrnalokka,“ segir hann stoltur og bætir við hlæjandi að hann voni sannarlega að haustið verði fram að jólum. „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við lendum á götunni. Það gerðist líka þegar við bjuggum í Noregi og ég var á sjó og fyrirtækið lagði snögglega upp laupana. Þar er bannað með lögum að vera heimilslaus þar og fólki er reddað húsnæði. Hér á landi heldur leigumarkaðurinn bara áfram að rísa og okra. Af hverju eru ekki sett lög á þetta og eitthvað þak? Við þurfum að taka höndum saman og standa meira með hvert öðru. Hér á enginn að þurfa á búa á götunni,“ segir Kjartan að lokum.

Snap-aðgangur hans er iceman137413.