Margrét Sigurðardóttir er mörgum Hafnfirðingum að góðu kunn. Hún er tónlistarkona sem nýlega er farin að stjórna tölvuleikjafyrirtæki sem hún setti á stofn. Fjarðarpósturinn tók Margréti tali á Súfistanum og spurði hana fyrst hvaðan hún væri og hvaðan hún kæmi.

Ég á ættir að rekja til Hafnarfjarðar þótt ég sé reyndar alin upp í Garðabænum. Öll móðurfjölskyldan mín er hérna í Firðinum og báðir foreldrar mínir vinna hérna; pabbi minn, Sigurður Björgvinsson, var skólastjóri Víðistaðaskóla til margra ára og mamma er forstöðukona Lækjar, geðathvarfs – og reyndar er ég líklega einn af síðustu Göflurunum, fædd á Sólvangi 25. maí 1973. Og þessi tenging virðist liggja djúpt í manni því þegar foreldrar mínir fluttu hingað fyrir nokkrum árum ákvað ég að fylgja þeim og hér bý ég nú.

Nú hefur þú verið í músík lengi, ert menntaður píanóleikari og söngkona. Hvernig smitaðistu af þeirri bakteríu?

Þetta fæddist ég nú eiginlega með eða fékk með móðurmjólkinni og úr báðum fjölskyldum. Pabbi, sem ólst uppí rokkbænum Keflavík, var alltaf í hljómsveitum með fram kennslunni og svo var móðuramma mín, Margrét Valdimarsdóttir, líka mjög músíkölsk. Hún kenndi mér að spila á gítar og píanó og hvatti mig áfram og til að leggja tónlistina fyrir mig. Svo fór ég sjálf að spila og syngja opinberlega og með hljómsveitum. Einhverjir muna eftir hafnfirsku hljómsveitinni Yrju þar sem voru bræðurnir Stefán Örn og Andrés Þór Gunnlaugssynir, Ingimundur Óskarsson bassaleikari og Eysteinn Eysteinsson trommuleikari en við Kristbjörg Kari Sólmundsdóttir sungum. Eitt leiddi af öðru, ég fór til framhaldsnáms við Royal Academy of Music í London og svo núna, nokkrum árum síðar, er ég farin að stjórna tölvuleikjafyrirtæki sem býr til tónlistarleiki fyrir börn.

dj electricpiano

Hvernig varð sú hugmynd til?

Mér hefur alltaf fundist vanta nýjar nálganir í tónlistarkennslu hvað varðar nótnalestur og tónfræði. Tónlistin er í raun eins og hvert annað tungmál en við ætlum börnum að læra hana annaðhvort af sjálfu sér eða í hóptímum einu sinni í viku. Þetta myndum við aldrei gera með önnur tungumál. Þegar spjaldtölvan kom á markað fannst mér vera tækifæri til þess að nýta þetta tæki og aðferðir tölvuleikjanna til að efla áhugann og um leið nýta tónlistina sjálfa til þess að opna þennan heim.

Ég fékk nokkra styrki til þess að vinna að þessu og sat meðal annars hérna á Súfistanum þar sem ég vann að þessu, hitti fólk, hugsaði og þróað. Og svo var það í lok ársins 2014 að ég hitti Hilmar Þór Birgisson tölvuverkfræðing sem hafði sjálfur verið að þróa tölvuleiki og við stofnuðum í framhaldinu fyrirtækið Rosamosa. Verkefnið fékk rausnarlegan styrk frá Rannís og þá gátum við ráðið fólk til að gera þetta með okkur en það krefst mikillar sérfræðiþekkingar og lágmarksmannafla til þess að láta svona verða að veruleika, teiknara, tæknihönnuða, forritara, leikjahönnuða og svo auðvitað er tónlistarþekkingin nauðsynleg í þessu öllu saman.

Skjáskot úr Mússila DJ Christmas

Skjáskot úr Mússila DJ Christmas

Og hvernig virkar þetta?

Við ákváðum að fara þá leið að gefa út marga litla leiki sem nálgast efnið úr ýmsum áttum. Fyrsti leikurinn, Mussila – Musical Monster Adventure, er stór hefðbundinn tölvuleikur, 64 borð af fjölbreyttum tónlistaráskorunum og skapandi leik, Mussila DJ er leikur þar sem þú færð ákveðið tónlistarhráefni á „vínylplötum“ í appinu að vinna með þar sem þú getur blandað því saman, tekið upp nýtt, stýrt hraða og hljóðstyrk, bætt við effektum og í raun skapað þín eigin tónverk frá grunni. Og svo var að koma út á dögunum sams konar app sem er Mussila DJ Christmas þar sem við erum með jólalög og alls konar jólahljóð, sleðabjöllur og pipakökukarla.

Fyrir hvaða aldur eru þessir leikir?

Við miðum þetta við 6–9 ára börn en í raun teygist þetta upp úr og niður. Við sjáum jafnvel ömmurnar rífa af börnunum spjaldtölvurnar. Það finnst öllum gaman að vera skoraður á hólm!

Hvað eru margar vinnustundir á bak við svona tölvuleik?

Ja, hérna hér. Þær eru taldar í árum.

Nú fór fyrsti leikurinn í loftið í júní. Hvernig hafa móttökurnar verið?

Þær hafa verið hreint út sagt ótrúlegar. Við höfum núna fengið hátt á þriðja tug dóma á erlendum vefsíðum sem hafa allir verið lofsamlegir. Og nú síðast fengum við fimm stjörnur, eða fullt hús hjá BBC Music Magazine sem er mikil viðurkenning fyrir okkur hvað varðar gæði leikjanna. Svo er salan smátt og smátt að taka við sér. Þetta spyrst út og við sjáum líka að börnin vilja spila Mussila-leikina en þau eru þegar upp er staðið okkar mikilvægustu gagnrýnendur.

Ógrynni leikja koma út á hverjum degi. Hvernig nær svona leikur í gegn?

Já, það er eitt að búa til svona leiki og annað að koma þeim á framfæri. Vinnan á því sviði er ekki minni en hvað varðar þróunina. Og reyndar var ég satt að segja búin að vinna þessar áætlanir áður en öppin voru einu sinni orðin til. Markaðsáætlun Mussila hafði unnið til verðlauna hjá Íslandsstofu þar sem ég tók þátt í þróunarprógrammi útflutningsverkefna áður en leikirnir voru einu sinni orðnir til! Sú vinna, sem ég vann þá, hefur verið ómetanleg og allt ferlið þegar það fór í gang hafði mjög skýra stefnu og markmið.

Okkar markmið núna er fyrst og fremst að vekja athygli foreldra á Mussila. Börnin þurfa ekki að vera í tónlistarnámi eða hafa neinn tónlistargrunn til þess að geta spilað leikina og svo vonumst við til þess að grunnskólarnir og tónlistarskólarnir taki þá inn í kennsluna enda passa þeir alveg eins vel þar eins og í spjaldtölvunni heima. Við kynnum leikina meðal annars á skólasýningunni BETT í London í janúar næstkomandi. Leikirnir eru á alþjóðamarkaði, þeir eru án orða og eiga í raun alls staðar við af því að tónlistarkennsla er mjög svipuð og byggð á sama grunni úti um allan heim.

Hvað er svo fram undan?

Við erum langt komin með næsta leik sem kemur út á næstu mánuðum. Það er það sem ætlum okkur; að gefa út Mussilaleiki eða stórar uppfærslur á tveggja til þriggja mánaða fresti. Við sækjum í djúpan brunn tónlistarinnar og þar er af nógu að taka og við viljum hafa þetta fjölbreytt og skemmtilegt.

 

Sjá nánar um Mússila á www.mussila.com/