Jóhannes Haukur Jóhannesson er fyrir löngu orðinn þjóðþekktur leikari. Hann hefur leikið í fjölmörgum leiksýningum, kvikmyndum og þáttaröðum hér á landi en undanfarið hefur hann leikið bitastæð hlutverk í stórum þáttaröðum og kvikmyndum á erlendri grund. Þar á meðal í kvikmynd sem skartar stórstjörnunni Charlize Theron. Fjarðarpósturinn hitti Jóhannes Hauk á milli verkefna á uppáhaldskaffihúsi hans, kaffi Pallet við Strandgötuna.

Með hundinn sinn, Hlyn, í Hellisgerði

Með hundinum sínum, Hlyni, í Hellisgerði

„Ég er í fæðingarorlofi, var að eignast mitt þriðja barn. Það fæddist í fjarveru minni. Ég var í Kanada við kvikmyndatökur, kom ekki heim fyrr en barnið var þriggja vikna gamalt. En ég er búinn að sjá þetta tvisvar sinnum áður og þykist nú vita að barnið muni ekki muna eftir þessu né bera neinn varanlegan skaða af. Við sáum fram á að ég yrði í Kanada þegar barnið kæmi í heiminn. Þetta var heimafæðing og ég var búinn að gera ráðstafanir með Skype-tengingu. Barnið kom á sunnudegi þegar ég var ekki að vinna og ég gat því fylgst með fæðingunni uppi á hótelherbergi.“

Jóhannes Haukur er hálfur Færeyingur og hálfur Hafnfirðingur eins og hann orðar það sjálfur. Móðir hans er færeysk. Þau fluttu til Færeyja þegar hann var 7 ára og þau bjuggu þar í þrjú ár. „Þar lærði ég málið og gekk í skóla. Þess utan bjuggum við í Hafnarfirði alla okkar tíð. Ég bý reyndar með fjölskyldunni í Laugardalnum núna en planið er að koma til Hafnarfjarðar í ellinni,“ segir hann en hann er kvæntur Rósu Björk Sveinsdóttur og þau eiga þrjú börn, tvær stúlkur og einn dreng, fædd, 2008, 2011 og 2016.
Jóhannes Haukur var alinn upp af einstæðri móður, Ingibjörgu Höllu Guttesen. Hann man fyrst eftir sér á Hjallabraut 15 en það segir hann hafa verið paradís fyrir krakka. Hraunið við Víðistaðaskóla, allir hellarnir. „Við fórum oft með nesti og eyddum heilu dögunum í hrauninu.“

Þegar þau komu aftur frá Færeyjum fluttu þau á Skúlaskeiðið og þar átti hann heima fram á unglingsár. „Þar var ég með Hellisgerði sem bakgarð sem er náttúrlega stórkostleg ævintýraveröld“.
Aðspurður hvort hann hafi verið uppátækjasamt barn segir hann að móður sinni til mikillar ánægju hafi nú ekki verið mikið vesen á honum. „Ég talaði reyndar víst alltaf rosalega mikið í tímum og ég fékk alltaf slæma einkunn fyrir hegðun. Svo þurfti reyndar að kalla á lögregluna nokkrum sinnum því ég átti það til að týnast. Þá fannst okkur svo spennandi að fara eitthvað þegar við vorum byrjaðir að hjóla, strákarnir. Ég man í eitt skiptið sáum við stóru tankana við Straumsvík frá Hjallabrautinni. „Förum þangað.“ Svo rákum við okkur á það þegar við komum að höfninni að þetta leit út fyrir að vera aðeins lengra en við héldum. Nú þyrftum við að fara fyrir fjörðinn. Það varð verkefnið,” segir hann og tekur fram að þeir félagar hafi svo fengið far heim í lögreglubíl eftir að hafa fundist kaldir og þreyttir eftir nokkra leit. „Og þetta var víst ekki í eina skiptið.“

Vantaði úrræði fyrir listhneigða nemendur í skólakerfinu

Jóhannes Haukur fór aftur í Víðistaðaskóla þegar hann kom frá Færeyjum. Þegar hann útskrifaðist þaðan langaði hann að gera eitthvað skapandi því að hann hafði gaman af því að teikna. Hann hafði alltaf langað að verða leikari en sá ekki fyrir sér að það væri eitthvað sem hægt væri að gera. Vissi ekki einu sinni að til væri leiklistarskóli. Hann segir að á þeim tíma, í kringum 1996, hafi ekki mikið verið í boði fyrir listhneigða nemendur í skólakerfinu. Það hafi vantað úrræði fyrir þá en það hafi nú breyst til hins betra í dag.
Eftir að hafa unnið með hangandi hendi tvö sumur í vinnuskólanum og bæði mætt seint og illa fékk hann inngöngu í listahóp vinnuskólans sem var þá að hefja göngu sína. „Ég ætlaði mér alltaf að verða tónlistarmaður, var alltaf að æfa mig á gítarinn og syngja og allt í einu fékk maður laun fyrir það. Það var rosaleg upphefð. Þetta var viðurkenning á því sem maður var að gera. Mér fannst svo merkilegt að fá tuttugu og eitt þúsund krónur á mánuði fyrir það að spila og syngja alla daga með vinum mínum,“ segir hann og bætir við að þetta hafi sýnt þessum krökkum að listin væri aldeilis einhvers virði.

Hann skráði sig í tækniteiknun í Iðnskóla Hafnarfjarðar og hugsaði að þar gæti hann fengið útrás fyrir sköpunina en hafði áður farið á myndlistarnámskeið. Tækniteiknun, eins og Jóhannes Haukur orðar það, átti ekkert skylt við listræna teiknun. Eftir tveggja anna nám ákvað hann að hætta og fékk vinnu hjá löndum sínum hjá Rúmfatalagernum og starfaði þar í þrjú ár.

Hann naut þess gríðarlega að starfa þar og endaði sem verslunarstjóri í Rúmfatalagernum í Hafnarfirði aðeins 19 ára gamall. Hann hafði unnið sig upp, var lagerstjóri stóran hluta tímans. Menn voru sendir í vettvangsferðir til þess að skoða lagerinn hjá Jóa, lagerinn var svo flottur. Þar segist hann hafa fengið útrás fyrir sköpunarþörfina.

Því næst lá leiðin í Flensborgarskólann á hagfræðibraut.„Ég hef ekki hugmynd um af hverju ég valdi þá braut.“ Þar gekk honum upp og ofan, áhuginn var ekki mikill á náminu, sérstaklega á raungreinunum. Jóhannes Haukur tekur fram að þó svo að á þessum tíma hafi vantað nám fyrir listhneigða einstaklinga hafi skólinn alltaf stutt vel við listrænt starf nemenda sinna. Hann nefnir söngkeppnir, söngleiki og kór Flensborgarskólans sem hafi verið gríðarlega góður undirbúningur fyrir hann.

Endaði fyrir slysni í leiklistarnámi

Hann tók þátt í söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd skólans árið 2000 og lenti í öðru sæti. Það varð til þess að honum var boðið að taka þátt í sýningunni Með fullri reisn þá um sumarið. Þar kynntist hann góðvini sínum Guðjóni Davíð Karlssyni, Góa, sem fékk hann til þess að koma með sér í inntökupróf í leiklistarskólann.

„Í leiklistarskólanum fann ég loksins nám sem höfðaði svona rosalega til mín og ég var með hundrað prósent ástundun öll árin. Ég mætti alltaf á réttum tíma, öll verkefnaskil, allar einkunnir í toppi af því ég hafði svo mikinn áhuga á þessu,“ segir hann og bætir við að það hafi nánast verið fyrir slysni að hann endaði í þessu námi.

„Fyrsta hlutverkið mitt sem atvinnuleikari var á stóra sviði Þjóðleikhússins í sýningu sem hét Dýnamít. Um ævi Friedrich Nietzsche. Þar lék ég blaðamann, þjón og málvísindamann. Fyrsta atriðið mitt var á móti Hilmi Snæ. Ég man á frumsýningunni þegar ég stóð í vængnum og beið eftir því að koma inn á. Það var mikil upplifun fyrir mig.“

Jóhannes Haukur fékk nóg að gera í leikhúsunum strax eftir útskrift, bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, og síðar í mörgum þáttaröðum og kvikmyndum.

Vendipunktur á ferlinum

„Þegar ég lék í myndinni Svartur á leik varð ákveðinn vendipunktur á ferli mínum. Tengingin við útlönd hófst þá. Þessi mynd fór mjög víða, á ýmsar kvikmyndahátíðir og slíkt, og varð til þess að ég fékk umboðsmann í Los Angeles.“

Hlutverk umboðsmannsins er að senda framleiðendum kynningarefni um leikarann og reyna að fá prufur fyrir hlutverk. Í flestum tilfellum er hægt að taka prufurnar upp á myndband og senda út. Það þarf því ekki að mæta á staðinn en það segir Jóhannes Haukur einstaklega hentugt fyrir íslenskan leikara. Hann segist hafa gert þetta í um þrjú ár án þess að nokkuð gerðist.

„Svo var það einn daginn þegar við Kjartan vinur minn vorum heima hjá mér að horfa á Back to the Future-myndirnar að umboðsmaðurinn hringir í mig þegar við vorum búnir að horfa á fyrstu tvær. Og þeir hringja aldrei, senda bara e-mail. Hann segir að mér hafi verið boðið hlutverk eftir prufu sem ég gerði fyrir þætti hjá NBC: „Þú ert að fara til Marokkó 15. september og verður þar fram að jólum! Þú verður að losa þig úr öllu.“ Eftir þetta átti ég frekar erfitt með að einbeita mér að Back to the Future III,“ segir Jóhannes Haukur.
Þarna var um að ræða þættina A.D. sem framleiddir voru af NBC og eru um ævi Jesú og lærisveina hans. Jóhannes Haukur lék lærisveininn Tómas og átti að leika í sex þáttum en var svo skrifaður inn í fjóra til viðbótar.

Í nægu að snúast

Jóhannes Haukur hafði í nægu að snúast næstu misserin. Eftir A.D. þættina fékk hann hlutverk í hinum gríðarlega vinsælu Game of Thrones-þáttum og svo í kjölfarið hlutverk í bíómyndinni The Coldest City með Charlize Theron, John Goodman og James McAvoy. Hann hefur hefur lokið tökum á myndinni The Solutrean í Kanada þar sem hann fer með nokkuð stórt hlutverk. Bæði hún og The Coldest City koma út á næsta ári. „Þetta er rosalega langt ferli. Það er ár síðan ég kláraði tökur á The Coldest City og nú er ár í það að myndin verði sýnd. Það eru einhverjar tölvubrellur eftir og svo þarf að klippa þetta allt saman til.“
„Um leið og þú ert kominn með eitt verkefni sem hægt er að vitna í þá er horft aðeins betur á þig. Þá ertu ekki enn þá bara íslenski leikarinn heldur orðinn einn af „regulars“ í NBC-seríu. Þetta gerir það að verkum að prufurnar mínar fá aðeins meiri athygli.“

Næst á dagskránni hjá honum er að klára tökur á þáttunum Last Kingdom nú í september og í október mun hann fara með hlutverk í íslensku myndinni Ég man þig sem byggð er á samnefndri skáldsögu eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Munur á aðbúnaði

Aðalmuninn á að vinna hér heima og erlendis segir Jóhannes Haukur vera í öllum aðbúnaði. Erlendis sé oft mikill lúxús sem er„rosa næs“. Gott hótelhebergi og „trailer“.

„Dæmigerður dagur í öllum þessum tökum, hvort sem er í þáttunum eða bíómyndum, er þannig að maður er sóttur snemma dags. Svo fer maður í búning og smink. Það getur tekið einn til tvo klukkutíma. Svo tekur við margra klukkutíma bið.“

Jóhannes Haukur segir leikarana eyða miklum dauðum tíma á „setti“ og kynnist því vel og spjalli um heima og geima. Hann segir stjörnurnar á setti enga undantekningu þar á, þær séu bara starfsfólk eins og hver annar þótt þær séu reyndar með mun flottari trailera. „Charlize Theron er með stærri trailer en ég, hann er meira svona eins og íbúð á hjólum,“ segir hann og glottir.

Hvernig er að leika á móti frægum leikurum eins og Charlize Theron?

„Það er á vissan hátt súrrealísk upplifun. Þegar ég hitti Charlize var ég búinn að horfa á Mad Max. Svo var ég að leika í mynd í Búdapest og hún leikur í henni. Maður verður svolítið „starstruck“. Bíómyndir vekja tilfinningar og hughrif hjá manni, til þess eru þær gerðar. Og maður tengist persónunum einhverjum óljósum böndum. Svo hittir þú þetta fólk og þú hefur átt einhverja upplifun með því en samt ekki. Það er þessi tilfinning sem kölluð er að verða „starstruck“. En svo kemst maður bara yfir það og þetta er bara fólk eins og allir aðrir. Svo bara spjallar maður.“

Charlize er nagli

„Charlize er svolítill nagli. Við vorum á sama tíma í ræktinni. Hún er töluvert harðari en ég. Hún var orðin vel sveitt þegar ég mætti og var ekki einu sinni hálfnuð þegar ég fór. Það var svona pínu vandræðalegt fyrir mig.“
Hvað gerir Jóhannes sér til dægrastyttingar?

„Ég er ekki í golfi, ég á mér ekki neitt ákveðið hobbí. Ég held reyndar að það sé af því ég vinn við hobbíið mitt. Þegar ég er í fríi þá er ég með fjölskyldunni. Ég er rosalega heimakær, ég leyfi mér að elda flóknari máltíðir þegar ég hef rúman tíma, prófa mig áfram í eldhúsinu. Svo spila ég á hljóðfæri og syng en börnin mín fíla það ekki. Ég þarf að gera það þegar þau eru ekki heima. Þau þola það ekki.“

Fyrirmyndir í leiklistinni

„Eftir að ég byrjaði að vinna við leiklist hef ég fundið fyrirmyndir í mörgum kollegum mínum. Maður sér jákvæða kosti í fari annarra sem maður vill tileinka sér og vinnubrögð sem maður kann að meta. Það eru hinar eiginlegu fyrirmyndir frekar en einhver ein ákveðin persóna.“

Einhver ráð til þeirra sem vilja leggja leiklist fyrir sig?

„Reyna að sækja sér nám, það er lykillinn að velgengni í faginu þó að auðvitað geti maður orðið leikari án þess að hafa lært. Leiklistarnámið veitir ekki bara tæknilega þekkingu og eflir í starfinu heldur opnar það manni líka leiðir inn í bransann. Því mæli ég með því að fólk leiti eftir námskeiðum og listahópum til þess að taka þátt í,“ segir Jóhannes Haukur að lokum og bætir við að það sé mikilvægt að vera þolinmóður í þessum bransa.