Les Coquettes er danshópur sem varð til í Listdansskóla Íslands þegar meðlimirnir níu áttu að setja upp sýningu og gera allt sjálfar, semja dansverk, velja tónlist, búninga, finna stað til að sýna og sjá um að panta dansdúk og koma miðasölu af stað. Hópurinn hélt sína fyrstu sýningu í Gaflaraleikhúsinu 2017 og er nú komið að því að þær sýni þar aftur 12. apríl nk.

„Við vildum að verkið í skólanum væri um sterkar ungar konur og sýna að konur mega daðra eins og þær vilja og gera smá grín af staðalímyndum. Les Coquettes merkir stelpur sem daðra en sú hugmynd kviknaði út frá Coco Chanel en hún var eitt sinn kölluð þetta,“ segir Helena Gylfadóttir, ein úr hópnum, en þær klæðast rauðum göllum og hafa svartar hárkollur til að undirstrika að þær eru ein heild og í þessu saman. „Við notum hreyfingar í gegnum allt verkið sem undirstrika þessa áherslu okkar á það að við erum ungar konur og megum nota hvaða spor sem er þó svo að það teljist sem daður. Verkið er kaflaskipt en hugsunin bakvið það er að reyna að taka fyrir mismunandi staðalímyndir í samfélaginu.“

Sanngjarnt leikhús

Hópnum leist best á Gaflaraleikhúsið á sínum tíma því sviðið er ekki upphækkað því þær vilja ekki setja sig á hærri stall en áhorfendur. „Við erum öll, dansarar og áhorfendur, hluti af samfélaginu og því hluti af einni heild. Gaflaraleikhúsið var svo með mjög sanngjarnt og viðráðanlegt verð og starfsfólkið hjálpaði okkur mjög mikið. Við fylltum svo salinn og vorum hæstánægðar með alla umgjörð þarna,“ segir Helena, en sýning þeirra að þessu sinni heitir Les Coquettes – extended version, því þær hafa aðeins breytt gamla efninu og bætt við nýju. Þetta er síðasta sýning hópsins og verður fimmtudaginn 12. apríl kl. 20:00. Danshöfundar og flytjendur eru Anna Guðrún Tómasdóttir, Diljá Sveinsdóttir, Helena Gylfadóttir, Júlía Hrafnsdóttir, Júlía Kolbrún Sigurðardóttir, Karitas Lotta Tulinius, María Theódóra Jónsdóttir, Ragnhildur Birta Ásmundsdóttir og Rebekka Gautadóttir.

Hópurinn setti upp verkið undir handleiðslu Valgerðar Rúnarsdóttur sem er dansari og danshöfundur og var hún kletturinn þeirra í gegnum allt ferlið. „Hún lét okkur sjá um allt sjálfar en leiðbeindi okkur alltaf á rétta braut þegar við vorum að fara út fyrir það sem við höfðum hugsað okkur til að byrja með. Við höfðum tæpa 3 mánuði til að setja saman heila sýningu og hittumst tvisvar í viku í tvo tíma í senn. Við höfum dansað víða smá brot úr verkinu okkar. Við vorum beðnar um að dansa á hönnunarverðlaunaafhendingu í Iðnó, á Unglist í Borgarleikhúsinu, á jólahlaðborði í Silfurbergi í Hörpu og næsta verkefni okkar er Barnamenningarhátíð, sýning á vegum FÍLD (félag íslenskra listdansara) í Eldborgarsal Hörpu. Þá sýndum við alla sýninguna okkar tvisvar sinnum á Reykjavík Dance Festival sem var haldið nú í mars síðastliðnum og brot úr verkinu í Vesturbæjarlaug á gjörningakvöldi hátíðarinnar.

Linkur í miðasölu

Linkur á Facebook viðburð

 

Myndir: aðsendar.