Það gerist svo margt í Hafnarfirði sem ég held að gerist hvergi annarsstaðar.
Einn sólríkan vordag röltum við Jökull niður að tjörninni við Hafnarborg með fjarstýrða bátinn sem bróðir gaf honum í afmælisgjöf.
Pabbinn tefst á spjalli við hornfirskan gullmangara og bregður heldur í brún þegar hann kemst loks niður að pollinum. Var þar staddur hópur kvendýra sem flest áttu það sameiginlegt að vera löngu komin úr kaskó. Fyrir hópnum fór ægilega vígalegt eintak íklætt dragt sem hefði gert danadrottningu afbrýðisama. Ríghéldu þær bæði í Jökul og bátinn, töluðu hátt um eigin dugnað í þeim efnum og misstu sig stöku sinnum í virðulegt klapp sjálfum sér til handa. Yggldist þó á þeim brúnin allverulega þegar föðurómyndin lét loks sjá sig.
Tilkynnti alfaljónynjan mér með umvöndunarróm að þær væru að passa hann (Jökul) og varð ægilega svekkt þegar undirritaður tók því heldur fálega, spurði hún þá hvað ég myndi gera ef hann dytti útí. Eitthvað umladi ég um að ég myndi nú líkast til fiska hann upp þegar ég væri hættur að hlæja. Var þá hirðin tekin að ókyrrast enda greinilega vön því að mark væri tekið á boðorðum forystudýrsins. (Sjálfur var ég upptekinn við að velta því fyrir mér af hverju í ósköpunum þær héldu líka í bátinn). „Treysti ég þér til að fara eftir honum ef hann dettur útí,“ spurði hún þá. „Ég veit ekkert hvort þú gerir það,“ svaraði ég forviða, það verður bara að koma í ljós. Gleymdi þá ein hirðmeyjanna sér eitt augnablik og missti út úr sér hláturstíst sem var snarlega jarðað með eitruðu augnaráði þeirrar dragtarklæddu.
Til að viðhalda virðugleikanum smalaði hún hinum kvendýrunum saman í hnapp að baki sér og skipaði hirðljósmyndaranum að taka myndir. Svo klöppuðu þær ægilega og hlupu við hæl á eftir forystudýrinu sem strunsaði burt með blakandi drakt.
Guð blessi svona elskur.
Ást og friður
Tommi