Tryggvi Rafnsson er líklega einn þekktasti Hafnfirðingurinn þessa dagana. Hann lék sjálfan forseta Íslands í áramótaskaupinu í ár og vakti mikla athygli. Hann er 100% Hafnfirðingur eins og hann orðar það sjálfur og segist hæfileg blanda af fullorðnum kjána og ábyrgum fjölskylduföður.

Tryggvi er í sambúð með Þóru Elísabetu Magnúsdóttur og svo eru snillingarnir á heimilinu, eins og hann orðar það, bræðurnir Ívan Ingi 14 ára og Ísak Darri 2 ára og gullfiskurinn Pétur.

Tryggvi segist vera þessi geggjaða blanda úr Norðurbænum og Setberginu. Hann var lengst af í Setbergsskóla og fór svo þaðan í Flensborg. Hann tók mastersgráðu í félagslífinu þar, var oddviti nemendafélagsins og útskrifaðist svo eftir fimm ára nám. Seinna flutti hann til London og kláraði BA-gráðu í leiklist frá Rose Bruford leiklistarskólanum. Hann tók þar af eina önn í skiptinámi í leiklistarskóla í Barcelona sem hann segir hafa verið virkilega skemmtilegan tíma.

Líður best á sviðinu

„Það var alltaf draumurinn að fara í leiklistarnám og ef maður eltir ekki draumana sína þá er maður á rangri leið, held ég. Alveg frá því að ég var sex ára lék ég í öllum skólaleikritum, tók þátt í leiklistinni í Flensborg, lék hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar og það kom eiginlega aldrei annað til greina en að leggja þetta fyrir sig. Eins skrítið og það hljómar þá líður mér langbest þegar ég er kominn upp á svið og helst ef fólk er hlæjandi á meðan.“

Tryggvi hefur tekið þátt í ansi mörgum og fjölbreyttum verkefnum bæði á sviði og í sjónvarpi. Hann hefur líka unnið þónokkuð fyrir viðburðafyrirtæki á alls konar skemmtunum og veislustýrt helling. Þetta leikarastarf er stöðugt hark en það getur líka verið gaman.

Unnu Skúla Mogensen í upphífingarkeppni

„Ég er búinn að vinna sem flugþjónn hjá WoW-air síðan 2013 og það er búið að vera mikið ævintýri. Það gerðist eiginlega óvart þegar við Ingi vinur minn og leikari vorum að skemmta sem leynigrínþjónar á árshátíð hjá WoW. Við skoruðum á Skúla Mogensen í upphífingarkeppni. Ef við ynnum þá fengjum við starf í verðlaun og ef hann ynni þyrftum við að þrífa skrifstofuna hans í mánuð. Ingi keppti fyrir okkar hönd og þó að Skúli sé ofurhetja þá unnum við og fengum starf. Allt í einu vorum við byrjaðir á flugfreyjunámskeiði og erum báðir enn þá að vinna þar. Það er eins og ég segi búið að vera mikið ævintýri og virkilega skemmtilegt enda afar hresst og skemmtilegt fólk sem vinnur hjá WoW.“

tryggvi-jon-gnarr

Tryggvi ásamt Jóni Gnarr við tökur á áramótaskaupinu

Áramótaskaupið

Tryggvi kom ansi vel við sögu í áramótaskaupinu og hlaut mikið lof og athygli fyrir. Það má segja að facebook hafi hjálpað til við að útvega honum hlutverkið.

„Þetta kom fyrst upp á kosninganóttinni sjálfri þegar æskulýðsmógúllinn Andri Ómarsson póstaði mynd af mér og Guðna saman á facebook-vegginn minn og sagði að nú væri leikferlinum borgið. Svo vatt þetta allt upp á sig og margir bentu á að það væri svipur með okkur. Gunnar Björn félagi minn og leikstjóri úr Leikfélagi Hafnarfjarðar benti m.a. á mig sem líklegan Guðna í könnun á nutiminn.is. Þegar Helga Braga vinkona mín og vinnufélagi var komin í handritshópinn fór þetta að rúlla fyrir alvöru. Ég fékk áheyrnarprufu og nokkrum tímum seinna hringir Jón Gnarr í mig og ræður mig í hlutverkið sem var virkilega gaman.“

Öðruvísi að vinna við skaupið

Tryggvi segir það vera svolítið öðruvísi að vinna við skaupið en að öðrum leiklistarverkefnum. Það sé einhver ákveðin stemmning og mikil leynd yfir öllu sem verið sé að gera. „Maður veit að nánast öll þjóðin er að fara að horfa og þetta er allt virkilega spennandi. Fyrir mig sjálfan var auðvitað alger draumur að fá að leika með Fóstbræðragenginu og vinna með Jóni Gnarr sem er ekkert nema snillingur. Á sama tíma má maður ekki segja frá neinu fyrr en eftir áramótin. Það var skrítið að vera allt í einu orðinn vel snoðaður og að leika með Fóstbræðrum en hitta svo vini sína og geta ekkert sagt þeim frá því. En einmitt þeim mun skemmtilegra þegar þetta loksins var komið í loftið,“ segir Tryggvi.

Aldrei jafn spenntur

„Ég held að ég sé ekkert að ljúga þegar ég segi að ég hafi aldrei verið jafn spenntur eins og akkúrat á gamlársdag. Ég reyndi að halda mér frekar uppteknum yfir daginn og það hjálpaði svolítið til að ég var með tvo erlenda gesti í heimsókn hjá mér yfir áramótin og gat rúntað með þeim og sýnt þeim alls konar ómerkilega hluti til að drepa tímann. Svo var stórfjölskyldan saman um kvöldið og við skemmtum okkur auðvitað konunglega yfir þessu enda fannst okkur Skaupið virkilega gott.“

IMG_7032

Afslappaður í sófanum enda fullorðinn kjáni eins og hann orðar það sjálfur.

Facebook sprakk

„Það má segja að strax eftir skaupið hafi facebook-ið mitt sprungið. Þvílíkur fjöldi af skilaboðum, vinabeiðnum og kommentum og ég hef örugglega gleymt að svara þeim einhverjum. Svo er ýmislegt í pípunum núna í kjölfarið sem vonandi verður eitthvað að veruleika en það er kannski ágætt að taka einn dag í einu og gleyma sér ekki í þessum 15 mínútum frægðarinnar.“

Ekki hræddur við að festast í hlutverki Guðna

„Ég held að það sé nú ekkert til að hræðast að leika svona skemmtilegan mann. Vonandi verður hann forseti sem lengst og að ég fái að leika hann áfram. En ég hugsa að það sé líka svolítið undir mér komið að bæði skapa mér ný hlutverk og grípa þau tækifæri sem gefast í þessum bransa.“

Ekki flókinn undirbúningur

Tryggvi segir það ekki hafa verið neitt rosalega flókið að undirbúa sig fyrir hlutverkið. „Ég horfði á flest allar ræður og viðtöl sem ég fann með forsetanum, pældi mikið í líkamsstöðu hans og hvernig hann talar. Hann er með ákveðna takta og einkenni sem maður ýkir aðeins og ýtir undir og þá var þetta komið. Það hjálpaði mikið til hversu fullkomlega einlægur Guðni er í öllu sem hann gerir og hann virðist vera algjörlega hann sjálfur, setur ekki upp neina grímu. Svo var bara að raka af sér hárið og æfa sig fyrir framan spegilinn þegar enginn annar var heima.“

Skilaboð frá forsetanum

Tryggvi segist ekki enn hafa hitt forsetann en hann hafi fengið bæði facebook-skilaboð frá honum, snapchat-skilaboð og kveðju. „Ég hef auðvitað sent honum skilaboð til baka þannig að við erum svona nútímapennavinir myndi ég segja. En ég þigg kaffiboðið um leið og það berst. Nema ég bara bjóði honum í kaffi til mín,“ segir Tryggvi og hlær við.

Draumahlutverkið

Þegar talið berst að draumahlutverkinu tekur við smáþögn og svo segir Tryggvi hugsi: „Úff, það er erfitt að segja, maður. Ég hef alltaf sagt að mig langi að leika klæðskiptinginn í Rocky Horror en svo er Pétur Pan ákveðin fyrirmynd líka eins miklar andstæður og það nú eru. Ég fengi líklega ágætisútrás í því að leika einhvern kolruglaðan sjóræningja líka. Þegar ég var í skólanum í Englandi lék ég gjörsamlega geggjaðan sirkusstjóra. Það væri gaman að gera meira með hann. En það að hafa leikið sjálfan forseta Íslands í Áramótaskaupinu með snillingunum í Fóstbræðrum sýnir einmitt að draumar geta svo sannarlega ræst þannig að það er um að gera að halda áfram að dreyma og grípa tækifærin þegar þau koma,“ segir Guðni, nei Tryggvi að lokum.

IMG_7035