Stefán Örn Gunnlaugsson er tónlistarmaður sem fer mikinn án þess þó að láta fara mikið fyrir sér. Hann spilar á píanó og hljómborð með helsta tónlistarfólki landsins, semur og tekur upp tónlist fyrir sig, leikhús, tölvuleiki og myndir og lýsir sér sem rólegri, einrænni félagselskandi tilfinningaveru.

Stefán Örn Gunnlaugsson, Íkorni

Stefán Örn Gunnlaugsson, Íkorni

Stefán er sonur þeirra hjóna Gunnlaugs Stefán Gíslasonar listmálara og Áslaugar Ásmundsdóttur. Hann er uppalinn í Hafnarfirði og gekk fyrstu skólaárin í Engidalsskóla þar sem hann bjó á Breiðvanginum í Gull-blokkinni svokölluðu vegna þess að hún var gul en fór svo og upplifði frábær unglingsár í Víðistaðaskóla eins og hann segir sjálfur.

Hann hefur alla tíð unnið við tónlist, lærði á píanó í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og hljóðupptökur í Manchester á Englandi árin 2001–2003. Hann hefur spilað með ótal hljómsveitum í gegnum tíðina, Jónasi Sig og Ritvélum framtíðarinnar, Buff, Lights on the Highway svo að eitthvað sé nefnt auk þess sem hann hefur spilað undir sem píanó- og hljómborðsleikari á ótal plötum og tónleikum.

„Eftir mörg ár, sem einkenndust mest af hljóðfæraleik, hef ég síðustu árin verið mestmegnis að stýra upptökum, semja og taka upp tónlist. Meginhlutinn hafa verið svokallaðir „indie-singer-songwriters“ eða sjálfstæð söngvaskáld. En þó er rófið ansi vítt,“ segir Stefán.

ÍKORNI

Stefán gaf út fyrstu sólóplötu sína árið 2013 og svo aðra árið 2016 undir listamannsnafninu Íkorni. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir báðar plötur sínar og var platan hans Íkorni tilnefnd sem plata ársins á íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014.

„Nei, ég hef ekki verið að fylgja plötunni eftir. Ha-ha! Ég virðist vera mjög mikið svona „gefa-út-tónlist-og-láta-það-nægja“-týpa. Að hluta til er það vegna sviðsskrekks og einnig eru oft svo miklar útsetningar í tónlistinni fyrir mikið af hljóðfærum að það hefur reynst þungt í vöfum. Ég hef þó eitthvað verið að koma fram bara einn við píanóið og hefur það komið mjög vel út.“

Stefán hefur sett stefnuna á það að fullvinna tvær nýjar Íkornaplötur á þessu ári. „Það er smá „crazy“ en gerlegt. Önnur verður sjö laga plata sem mun bera keim af Tangóstemmningu og sú síðari popp-plata þar sem ég ætla að leika mér meira með elektróník og kraftmeiri músík,“ segir Stefán.

Sækir innblástur í atburði lífsins

Aðalinnblásturinn í tónlistarsköpun segir hann vera atburði í lífinu og tilfinningar tengdar þeim. „Svo auðvitað bara hitt og þetta sem hrífur mig í tónlist annarra. Ef það ætti að vera listi þá væri það Ennio Morricone, Sufjan Stevens, Yann Tiersen, Mahler, gamall jazz og hvaðeina.“

Semur tónlist fyrir leikhús

Stefán er þessa dagana staddur á Akureyri þar sem hann vinnur að verkefni fyrir Menningarfélag Akureyrar og semur tónlist fyrir leikritið Núnó og Júnía sem frumsýnt verður nú á laugardaginn þann 18. febrúar.

„Það kom til þannig að Sara Marti, leikstjóri og vinkona mín, sagði: „Nú er nóg komið, nú kemur þú til Akureyrar og gerir tónlist og hljóðmynd í leikrit sem ég er að skrifa.” Þetta er ofboðslega skemmtilegt, spennandi og hjartnæmt leikrit fyrir alla fjölskylduna. Það fjallar um allar útgáfurnar af okkur öllum.

Þetta er geysimikið verk, mikil en skemmtileg vinna. Troðfullt af tónlist, hughrifshljóðum sem vinna saman með miklu af skemmtilegum sjónrænum töfrum.

Tónlistin er þarna til að hjálpa til við að segja söguna og oft kafar hún jafnvel nokkuð djúpt og hefur sína eigin undirliggjandi frásögn. Ég sæki mjög mikið í kvikmyndatónlist af ýmsu tagi, svona í bland við minn eigin stíl,“ segir Stefán.

Broadway

Stefán Örn hefur áður unnið í leikhúsi en fyrir nokkrum árum dvaldi hann í New York í tvo mánuði og  tók þátt í verkefni sem vakti mikla athygli.

„Já, ég útsetti og stýrði tónlist og hljóðmynd í söngleik sem settur var upp á OFF-BROADWAY í New York og hét því langa skrítna nafni Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter. Mikið ævintýri,“ segir Stefán og bætir við að umfjöllun um þá reynslu myndi fylla nokkur tölublöð af Fjarðarpóstinum. Söngleikurinn skartaði Tony-vinningshafanum Cady Huffman í aðalhlutverki en hún er mikil Broadway-stjarna. Söngleikurinn fékk sérstaklega góða dóma fyrir tónlistina og hljóðheiminn sem Stefán skapaði.

Kvikmyndatónlistin heillar

„Það hefur jú lengi verið draumurinn að vinna við það að semja músík fyrir leikhús, þætti, kvikmyndir, tölvuleiki og þess háttar. Og það er í sjálfu sér margt á döfinni í þá áttina. Tónlist fyrir annað leikhúsverk, Fyrirlesturinn, sem verður frumsýnt í apríl í Tjarnarbíói, músík í stuttmyndina Munda í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur sem ég mun vinna með Védísi Hervöru og fleira hressandi,“ segir Sefán sem sér fram á næg verkefni í tónlistinni á næstunni. „Þetta verður mjög annasamt ár. Tvö leikrit, stuttmynd, gera plötur með listamönnum á borð við Védísi Hervöru, Jönu Maríu, Sísí Ey og Elín Ey, systurnar sem eru með nýtt band, Grúska Babúska, Hinemoa, Sunnyside Road og margt fleira. Svo þarf ég nú að smokra inn einhverjum tíma fyrir Íkorna, það ætti að reddast,“ segir Stefán að lokum, kíminn eins og hann á kyn til.

Hægt er að kynna sér tónlist Stefáns (Íkorna) á ikornimusic.com og einnig á Spotify.

Kápa plötunnar Red Door með Íkorna

Kápa plötunnar Red Door með Íkorna