birna dísÁhugamál Birnu Dísar Bjarnadóttur og nemenda hennar í Víðistaðaskóla er dálítið óvenjulegt því hún hefur, sem leik- og grunnskólakennari, haldið gæludýrið förustafi í mörg ár.  Þeir lifa ekki í íslenskri náttúru en fást stundum í dýrabúðum. Markmið hennar er að draga úr skordýrafælni og auka frekar forvitni nemenda á veröldinni.

„Þetta eru skemmtileg dýr með þann kennslutilgang að draga úr hræðslu við skordýr. Þetta eru oft mjög spennandi lífverur og margt hægt að læra af þeim. Til dæmis er mjög gaman að fylgjast með köngurlóm, þær eru svo iðnar, það er alltaf fínt hjá þeim. Ef þú setur eitthvað í vefinn hjá þeim þá hreinsa þær það strax í burtu. Þær eru kannski ekki mjög hugsandi lífverur en engu síður pakka þær inn mat til að eiga til betri tíma. Hversu magnað er það af svona lítilli lífveru?“

skordýr 4Í búri í Breiðvanginum

Gallinn við fyrirkomulagið séu skólafríin. „Þegar ég var í Kaldárseli komu fyrst öll dýr heim til mín, Ingó manninum mínum til mikillar gleði! Þegar leið á fór ég eða stundum leikskólastjórinn til þess að sinna dýrunum í fríum nema þegar ég bara tók þau með heim heim í frí. T.d. núna búa þeir hjá mér í loftræstu búri í Breiðvanginum.“ Birna segir förustafina góð gæludýr því þeir bíti ekki, hoppi ekki, fari hægt yfir og uppihald kosti lítið.

skordýr 3

skordýr 2„Í botninum á búrinu hef ég mold og sái stundum paprikufræjum. Eins og hjá mörgum dýrategundum þá er kerlingin feitlagnari og stærri, hún er með eggjapípu aftan úr sér og gýtur eggjum í moldina. Hún verpir þó ekki fyrr en hún er u.þ.b. eins árs og oftast eftir að hún hefur skipt um ham, eins og slöngur. Þá missa þeir gjarnan fótlegg eða jafnvel drepast.“ Mörg egg séu í varpi og það taki 6-9 mánuði að klekjast úr eggjunum, sem sé langur tími. Frjóvguð egg af karldýri taki þó 4-6 mánuði.

Meinlausir og hægt að eiga marga

„Það sem er stórmerkilegt líka að karldýrið er í raun óþarft til fjölgunar. Ég las mér til að kvendýrið þarf ekki maka heldur klónar það sig á einhvern hátt. Ef förustafur missir fótlegg þá getur hann ungur líka þvingað fram vöxt á nýjum. Þeir lifa eingöngu á laufblöðum, salati og stundum eplahýði. Mér finnst best að kaupa lambhagasalat og tylla í moldina og láta vaxa aftur og aftur.“ Þá sé mikilvægt að hafa vatn hjá þeim eða/og sprauta vatni yfir búrið að minnsta kosti einu sinni á dag til að vilhalda raka. „Förustafir eru með öllu meinlausir og hægt að hafa marga saman. Það eru til margar tegundir hjá sumum þeirra finnst ekki karldýrið en ég er með bæði kynin hjá mér núna.“

skordýr 6Fór óvart heim í skólatöskunni

Nemendum Birnu finnst gæludýrin spennandi og hafa stundum sýnt þau öðrum nemendum. „Ég held að förustafirnir hafi dregið úr skordýrafælni einhverra þeirra. Börnin vilja stundum fá að hafa þá hjá sér á meðan þau eru að læra og hefur það gerst að einn fór óvart heim með barni í skólatöskunni. Mamman fékk nett sjokk en hann var heill á húfi og vel hlúð að honum heimafyrir þar til næsti skóladagur hófst. Foreldrar eru mjög opnir fyrir dýrunum okkar. Ég er mjög heppin með bæði nemendur og foreldra þar sem allir eru jákvæðir fyrir svona hugdettum hjá mér.“

 

Myndir: Úr einkaeigu Birnu Dísar.