Okkar fólk í framboði til Alþingis

Fjarðarpósturinn hafði samband við þá Hafnfirðinga sem skipa efstu sæti á framboðslista hvers stjórnmálaafls fyrir sig og þeir kynna sig og stefnu síns flokks í næsta tölublaði og í síðustu viku.

 

Ég er oft stolt af því hversu miklu okkar fámenna þjóð fær áorkað og getur státað sig af, eins og íþróttaatburðir síðustu daga og vikna hafa sýnt. Lamasess geðheilbrigðisþjónustunnar vekur því hjá mér bæði sorg og reiði. 23 ára gömul kom ég að sjálfsvígi 19 ára gamallar konu. Síðan hef ég fylgt allt of mörgum til grafar sem hafa tekið sitt eigið líf. Dætur, synir, feður, mæður, systur, bræður, börn. Þessir einstaklingar höfðu öll leitað sér hjálpar og öllum verið hafnað af ástæðum sem mun aldrei vera hægt að réttlæta lífsmissi með. Takmarkaður opnunartími á bráðageðdeild, engin bráðamóttaka geðheilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu, niðurskurður, sumarlokanir, frávísun vegna vanþekkingar á geðsjúkdómum, frávísun vegna manneklu, sjálfsvíg inni á geðdeildum vegna mistaka í verkferlum, mismunun til geðheilsu vegna efnahags, aldurs, kyns, búsetu, fötlunar.  Getum við raunverulega talað um að við séum með eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi þegar geðheilbrigði er þáttur sem við útilokum með þessum leiðum?

Geðheilbrigðisþjónustan á Íslandi þarfnast gagngerrar endurskoðunar og bráðrar úrbótaleiða til að draga úr sjálfsvígum. Píratar vilja efla geðheilbrigðisþjónustuna og beita sér fyrir því að hún sé fær um aðhjálpa þeim sem þurfa hennar við og ekki síst að koma í veg fyrir að þessi mikli fjöldi finni sig á þeirri endastöð.

Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir skipar 9. sæti á lista Pírata í Suðvesturkjördæmi.