Sigrún Þorleifsdóttir betur þekkt sem Dúna, stofnaði blómabúðina Burkna fyrir 54 árum eða árið 1962. Hún ásamt manni sínum Gísla Jóni Egilssyni var frumkvöðull hvað varðar skreytingar í búðargluggum í bænum og var upphafsmanneskja þess að skreyta miðbæinn fyrir jólin og lýsa upp skammdegið yfir jólahátíðina með jólaseríum. Dúna mun tendra ljósin á jólatré Hafnfirðinga á Thorsplani nú á föstudaginn.

„Ég hafði lengi átt þann draum að stofna verslun. Það stendur einhversstaðar að neyðin kenni naktri konu að spinna og ævintýrið okkar byrjaði á því að ég fór að búa til rósir úr krep pappír og bolluvendi heima hjá okkur. Þetta var í kjölfar mikilla erfiðleika hjá mér og manninum mínum. Við höfðum misst elsta drenginn okkar sem var fæddur með hjartagalla og Gísli var einnig orðinn heilsuveill á þessum tíma.
Krakkarnir í hverfinu gengu svo fyrir okkur í hús og seldu þessi blóm og bolluvendina fyrir bolludaginn. Það voru í kring um 40 börn sem komu að þessari sölu. Við gátum svo keypt okkur bílskrjóð og stækkað þannig sölusvæðið okkar og Gísli Jón sá um að keyra börnin suður með sjó til að selja þar. Ég gerði svo líka jólaskreytingar heima og seldi. Þetta gekk vel og það var mikið rennerí hjá mér. Þessar góðu viðtökur studdu mig í því að ég gæti tekið næsta skref og stofnað verslun. Veikindi Gísla Jóns ágerðust ár frá ári og við þurftum að skipta um hlutverk. Ég þurfti að sjá fyrir heimilinu og hann að vera heima með börnin.“

Dúna í nýju búðinni við Linnetstíg 3 árið 1969

Dúna í nýju búðinni við Linnetstíg 3 árið 1969

Burkni að veruleika
„Við byrjuðum svo á Strandgötu 35 árið 1962 í gamla pósthúsinu. Þar hafði verið fornsala og eigandi hennar hann Jón Geir var nýlátinn. Ég hringdi því í konu hans því ég þekkti hana mjög vel því vissi ég að hún myndi líklega ekki taka við búðinni sjálf. Þetta pláss hentaði okkur mjög vel, bæði stærðin og staðsetningin í miðbænum. Úr varð að við fengum plássið leigt fyrir 5000 krónur á mánuði, sem samsvaraði þá mánaðarkaupi hjá vönu fólki í verslun.“
Gólfið á hæðinni fyrir ofan var farið að síga niður og þurfti því að setja stálbita alveg undir gólfið og ýmislegt fleira. „Sem dæmi um velvilja fólks í bænum á þessum tíma og alla tíð, þá hafði Gísli Jón alltaf verið með bátinn sinn hjá Sigurjóni í Dröfn, skipasmíðamanni. Hann var svo yndislegur að hjálpa okkur með þennan bita. Hann var svo áhugasamur að okkur gengi vel. Svo verður búðin að veruleika, nýklædd að innan, ljós í loftin sem Axel í Rafha sagði alveg sjálfsagt að lána okkur til að byrja með. Allir vildu hjálpa okkur.“
Gísli Jón var mjög handlaginn maður og gat gert nánast allt sjálfur , og það var lögð nótt við dag til að gera húsnæðið sem huggulegast.
Blómabúðin Burkni opnaði svo 10. nóvember 1962.
Þennan fyrsta dag var ekki mikið til í versluninni, það voru bara blómin, nokkrir blómavasar og nokkrir leirpottar og pottablóm. Daglega var farið að sækja blóm og þær vörur sem vantaði eftir því sem efni leyfðu. Á þessum tíma þurfti að staðgreiða allt hjá heildsölunum. „Þá fékkst ekkert lán fyrir fólk eins og okkur. Það var mjög erfitt að fá keypt blóm og maður þurfti að hafa allar klær úti til að útvega það sem þurfti. Allar blómabúðirnar á svæðinu voru bundnar einhverjum samböndum við garðyrkjumenn og erfitt var að komast inn í þau.“ Sveinn Indriðason sem seinna varð forstjóri Blómamiðstöðvarinnar kom á þessum tíma frá Ameríku nýlærður í blómarækt. Hann var í svipaðri stöðu og við, blómabúðirnar versluðu helst ekki af honum þar sem hann var að byrja. En við vildum gjarnan versla við hann. Úr varð að hann sá búðinni fyrir öllum blómum lengi vel. Viðskipti okkar á þeim tíma voru með því móti að á hverju kvöldi eftir lokun urðum við að fara á gömlu beyglunni okkar, Austin 10 sem hvorki hélt vatni né vindi og versla inn fyrir það sem hafði komið í kassann þann daginn. Fyrstu mánuðina þá fór dagssalan kannski niður í 500 krónur, sem var mjög erfitt þegar þurfti að sjá fyrir fjölskyldu og kaupa inn fyrir verslunina. Enda var vöruúrval þeirra lítið til að byrja með. „Ég veit stundum ekki hvernig við komumst í gegnum þetta, líklega bara með guðs og góðra manna hjálp“, segir Dúna.

Þetta er sko kaupmaður
Með tímanum jókst vöruúrvalið smátt og smátt og fyrir orð Páls Sæmundssonar í Liverpool, sem reyndist þeim góður ráðgjafi fóru þau á fund Árna Jónssonar heildsala í Reykjavík til þess að athuga hvort hann vildi selja þeim vörur. „Hann sýndi okkur vöruskrá fyrir gjafavörur frá Ameríku og sagðist geta flutt þær inn þó hann væri ekki með mikið af gjafavöru sjálfur. Hann hafði fengið prufur sendar, þar á meðal litlu seríurnar í öllum litum sem allir þekkja í dag en höfðu ekki sést hér áður á þeim tíma og mánaðarbollana sem allir kannast við. Ég fékk einhvern kjark í mig á þessari stundu, því að allir höfðu tekið okkur svo vel að ég pantaði þarna eins og venjulegur kaupmaður það sem mér fannst fallegt, fyrir um 60 þúsund krónur. Gísla Jóni stóð nú ekki alveg á sama, en ég sagði, ef við ætlum að hafa lifibrauð af þessu þá verður að vera eitthvað úrval. Árni sagði þá:„ ég er svo hjartanlega sammála henni, þetta er sko kaupmaður.“ Hann sagðist búinn að vera í viðskiptum til fjölda ára en í Hafnarfjörð hafði hann aldrei selt nema eitt og tvö stykki í einu. Hann sagðist sjá á okkur að óhætt væri að treysta okkur, og bauðst til þess að vera vægur hvað varðar greiðslur, þó þær kæmu seinna.“
Í sendingunn voru körfur með seríum í sem aldrei höfðu sést hérna, seríur á jólatré, seríur með hljóðfærum og húsum og öllu mögulegu. Kirkja, alveg eins og þjóðkirkjan í laginu með steindum gluggum og ljósi og svo spilaði hún Heims um ból. Allt var þetta mjög fallegt. „Við pöntuðum 24 kirkjur og þóttum aldeilis vera stórtæk, en þær fóru allar á tveimur dögum. Sjómaður einn kom og verslaði 20 körfur með seríum fyrir alla fjölskylduna sína í jólagjöf. Þarna voru ítalskar dúkkur sem aldrei höfðu sést nema hjá sjómönnunum sem komu frá Englandi, og það var bara biðröð fyrir utan búðina. Og mánaðarbollarnir runnu út á nokkrum dögum.“ Segir Dúna. Öll sendingin kláraðist meira og minna á 4-5 dögum. Búðin var alltaf svo full að fólk komst ekki út um dyrnar nema að hafa pakkana fyrir ofan sig.
„Þessi jól varð dagsalan einn daginn 3500 krónur. Mér fannst ég bara vera rík. Það þótti ótrúlega mikið. Langt fram yfir það sem við vonuðumst eftir.“

Blómabúðin Burkni við Linnetstíginn á 17. júní í kring um 1980

Blómabúðin Burkni við Linnetstíginn á 17. júní í kring um 1980

Burkni flytur
Eftir 7 ár á Strandgötunni flutti Burkni svo í framtíðarhúsnæði sitt að Linnetstíg 3 þar sem þörf var fyrir stærra húsnæði. Þar hafði Kaupfélagið áður rekið vefnaðarvöruverslun en húsnæðið hafði verið til sölu og staðið autt í um þrjú ár. Það var ekki vel á sig komið, það var sprunga yfir útbyggingunni og þegar rigndi, þurfti að setja átta fötur undir lekann. Á þessum tíma var ekki einu sinni gata að búðinni, þarna lögðu fiskibátarnir upp að í litlu skorurnar. Frímúrarnir áttu húsnæðið og þegar þeir fréttu af áhuga okkar vildu þeir ólmir að Dúna og Gísli fengju húsinæðið. „Axel í Rafha og Björn Sveinbjörnsson greiddu leiðina fyrir okkur og aðstoðuðu sem varð til þess að við fengum þetta keypt fyrir tvær milljónir. Ég svaf ekki fyrir áhyggjum, af því mér fannst ég búin að taka á mínar herðar svo mikla ábyrgð að ég risi varla undir því.“
Gísli Jón byrjaði á að gera við þakið og gerði húsnæðið fallegt að innan og opnuðu þau nýju búðina líkt og áður, þann 10. nóvember árið 1969. „Þá gat ég haft tvær stúlkur í vinnu hjá mér og við vorum farin að hafa opið á kvöldin. Kvenfélögin í Hafnarfirði voru búin að biðja um það fyrir okkar hönd að við fengjum að hafa opið eins og búðirnar í Reykjavík til kl. 22.“ Á þessum tíma höfðu allar verslanir í Hafnarfirði einungis leyfi til kl. 18.
„Burkni hefði aldrei náð þeim sessi í samfélaginu sem hún náði nema fyrir tilstilli frábærs starfsfólks, ættingja og vina“, segir Dúna. Þegar best gekk hjá Burkna eða frá árinu 1970-1990 var Dúna með tólf stúlkur í vinnu. Hún segir einnig að í gegnum þessi 54 ár sem Burkni hefur starfað hafi um 200 starfsmenn komið að búðinni í meiri eða minni vinnu. Margar frábærar konur hafa þar af unnið langan starfsaldur í búðinni og þekkja Hafnfirðingar margar þeirra vel. Minningarnar um hláturinn, sönginn, gleðina og dugnaðinn í þessum konum ylja Dúnu og enn í dag hittist hópur kvenna sem starfaði lengi hjá Dúnu árlega og þær bjóða henni á kaffihús og ræða gamla tíma. „Þær segjast aldrei hafa starfað á skemmtilegri stað og okkur þykir svo vænt hver um aðra. Ég get ekki lýst því hvað þetta hefur gefið mér“.

Skreytingar og ljós
„Við vorum fyrst til að flytja inn litlu ljósin, seríurnar, frá Ameríku. Við strengdum um 20 perur yfir götuna, frá Alþýðuhúsinu og yfir í verslunina sem var þá í gamla pósthúsinu á Strandgötu 35. Það var ógurlega gaman þegar það var allt upplýst. Í Hafnarfirði var enginn sem stillti fallegri jólaútstillingu í glugganna. Það þekktist ekki. Þetta byrjaði með Dúnu. „Ég man alltaf eftir nokkrum gömlum konum sem ég þekkti vel af elliheimilinu á Austurgötu 26 á móti Gunnlaugsbúð. Þegar þær urðu varar við það að ég var alltaf að fá eitthvað nýtt í búðina og var alltaf að vinna á kvöldin, þá komu þær til að skoða hvað ég myndi láta út í gluggann. Ég setti alltaf það sem kom nýtt og þeim fannst þetta alveg ægilega gaman. Eitt kvöldið var alveg rosalega kalt um miðjan desember og ég fór bara út og sagði við þær, komið heldur inn að hlýja ykkur en það er verst að ég á ekkert kaffi handa ykkur. Þær voru svo ánægðar með þetta. Svo þegar þær fengu að handleika vörurnar var eins og þær hefðu í höndunum það dýrmætasta á þessari jörð.“

Fjölbreytt
Starfið í Burkna var síður en svo bundið einungis við búðina. Dúna og hennar stúlkur gerðu kransa fyrir næstum hverja einustu jarðarför sem fram fór í bænum. Og fór Dúna sjálf með þessa stóru og þungu kransa og skreytti kistur og leiði eftir hinum ýmsu óskum aðstandenda. „Frá því að ég missti litla drenginn minn tíu mánaða, þá átti ég alltaf svo auðvelt með að gera ýmislegt fyrir þetta fólk sem átti svo bágt. Ég söng í kirkjukórnum í Fríkirkjuni í 35 ár og á tímabili kom fólk líka heim til mín til þess að biðja mig um að aðstoða sig með að finna sálma í útfarirnar. Og eins með hvað ætti að prenta á kransaborðana.“ Það mætti því segja að starfið hafi leitt hana inn á svið útfararstjórnar á tímabili.
Hún skreytti einnig við ýmis tækifæri, s.s. afmæli brúðkaup ofl. og var mjög eftirsótt.
Þá var einnig mikið um það að kvenfélögin í kirkjunum bæðu um kennslu í skreytingum. Þá fór Dúna yfirleitt ein á Bronco-inum sínum með allt í skottinu hvort sem var að sumri sem vetri.

Fjölskyldufyrirtæki
Dúna verður 89 ára nú í næsta mánuði, þann 16. desember og segist ennþá klæja í puttana þegar hún kemur í búðina. Mann langar svo að geta rokið í þetta allt saman. Gyða dóttir Dúnu tók við rekstrinum í kring um aldarmótin en Sigríður dóttir hennar, Þórir sonur hennar og barnabörnin hafa unnið lengi og eða komið að Burkna á einhvern hátt. „Fyrsta barnabarnið mitt var til að mynda sett í blómapott á skreytingaborðinu meðan unnið var. Börnin í fjölskyldunni höfðu svo gaman af því að horfa á okkur vinna. Svo þegar þau urðu aðeins eldri gátu þau farið að setja í poka og voru að hnoða leir, vigta greni og annað slíkt. Þetta er búið að vera ævintýri og ég er svo þakklát hvernig allt hefur gengið.“ Ég hlakkaði alltaf til að fara í vinnunna þó það væri klukkan þrjú á nóttunni, mér fannst þetta svo gaman.

Gáfu til baka
Gísli Jón eiginmaður Dúnu lést 57 ára gamall árið 1978 og faðir hennar einnig með nokkurra daga millibili. Þeir voru jarðsettir saman.
„Þegar við Gísli hófum reksturinn hétum við því að ef vel gengi myndum við reyna að hjálpa einhverjum sem á þyrfti að halda. Við tókum því upp þá hefð að styrkja eina fjölskldu í bænum fyrir hver jól. Þetta var okkar jólagjöf.“
Á löngum ferli hafa skipst á skin og skúrir en Dúnu er fyrst og fremst þakklæti í huga til Hafnfirðinga sem hafa ávalt sýnt versluninni einstaka velvild.
„Það er svo mikil blessun búin að vera yfir þessari búð, ég veit ekki hvernig ég get þakkað almennilega fyrir það. Fólkið hérna í bænum, allir hafa verið okkur svo velviljaðir.
Þetta líf hefur gefið mér óendanlega gleði, og ég tala nú ekki um að komast af án þess að þurfa að biðja opinberlega um hjálp. Og fá allan þennan styrk og blessun. Ég vona að ég geti einhvernveginn komið því til skila til fólksins í Hafnarfirði og í raun langt út fyrir Hafnarfjörð hvað ég er því þakklát. Auðvitað var þetta ekki bara ég. Það er bara fólkið sem gerði mér þetta kleift. Ég var með minna en tvær hendur tómar þegar ég byrjaði en samt gekk þetta einhvernvegin upp, þó með þetta mörg börn. Nú er næsti ættliður tekinn við og er í sömu aðstöðu. Nú er ég litla barnið. Nú er ég að uppskera kornið sem ég sáði.“

Kveikir á jólunum
Jólaþorp Hafnarfjarðar opnar í fjórtánda sinn á morgun föstudaginn 25. nóvember. Dúna mun kveikja hafnfirsku jólin þetta árið með því að tendra tréð á Thorsplani kl. 18:30. Líklega er táknrænni manneskju ekki að finna í þetta verkefni en móður Hafnfirsku ljósajólanna.
Þetta gladdi mig svo, tárin runnu bara niður kinnarnar. Ég er svo þakklát. Ég er svo mikið jólabarn og fæ aldrei nóg af jólunum og öllu sem þeim fylgir“, segir Dúna auðmjúk að lokum og þakkar Hafnfirðingum fyrir þennan heiður sem henni er sýndur.